Ótrúlega margt breyst

Sylvía Haukdal Brynjarsdóttir segir dætur sínar alltaf getað sótt sér …
Sylvía Haukdal Brynjarsdóttir segir dætur sínar alltaf getað sótt sér ávexti og grænmeti í ísskápinn. Ljósmynd/Aðsend

Sylvía Haukdal Brynjarsdóttir sætabrauðskokkur passar upp á fjölbreytnina þegar hún útbýr skólanesti. Hún segir nestið hafa breyst mikið síðan hún var lítil.

„Það sem er vinsælast á okkar heimili er nóg af grænmeti og ávöxtum. Ég kaupi oft litlar gulrætur, gúrku og tómata og set svo eitthvað af berjum með. Skyrskvísurnar eru mjög þægilegar, bæði fyrir okkur og börnin en svo finnst stelpunni okkar gott að fá soðið egg, hafrakökur, graut eða fajhitaspönnuköku með osti, skinku og salsasósu ef það eru langir og krefjandi dagar. Mér finnst virka langbest að vera með fjölbreytt nesti og leyfi stelpunni okkar að koma með hugmyndir að því sem henni þykir gott. Þegar hún er í sundi eða fimleikum passa ég að setja aukanesti með,“ segir Sylvía spurð út í hvað henni finnst sniðugt að hafa í nesti.

Finnst þér nestishugmyndir hafa breyst síðan þú varst lítil?

„Já, ótrúlega mikið. Þegar ég var í skóla var maður nestaður með alls konar bökuðum kræsingum að heiman eins og skinkuhornum, múffum, snúðum, skúffuköku og þess háttar. Mamma var svo dugleg að baka að það var alltaf til eitthvað gott með í nesti. Það voru engar reglur, eins og eru í dag, um að það mætti ekki vera sykrað eða með súkkulaði. Ávaxta- og grænmetisúrvalið var ekki jafn gott og það er í dag og það tíðkaðist ekki eins mikið að nesta með því, það var meira verið að senda krakka með bakkelsi, kex, samlokur, jógúrt og eitthvað svoleiðis sem átti að endast manni út daginn.“

Hefur þér fundist erfitt að búa til nesti sem foreldri?

„Við erum ótrúlega heppin með það að dóttir okkar er alls ekki matvönd. Hún elskar ávexti, grænmeti og egg. Þannig í okkar tilfelli er alltaf auðvelt að nesta hana með einhverju hollu og góðu. Auðvitað kemur annað slagið upp að hún er komin með leið á einhverju sem er oft í nestisboxinu og biður þá um eitthvað annað. Ég reyni líka að koma henni annað slagið á óvart og set eitthvað nýtt í nestisboxið hennar.“

Hvað gerir þú ef það er ekki tími til að búa til nesti?

„Ég er alls ekki alltaf mjög skipulögð. Ef tíminn er naumur skelli ég ávöxtum, grænmeti og skyrskvísu í nestisboxið, sem tekur enga stund. Ég passa mig að eiga alltaf nóg af grænmeti og ávöxtum í litlum stærðum í ísskápnum. Ekki bara til að nýta sem nesti, heldur líka þegar þær koma svangar heim. Þá geta þær sótt sér skál og fengið sér snarl sjálfar. Það er líka gott að vera búin að sjóða nóg af eggjum og eiga til í ísskápnum.“

Sylvía Haukdal Brynjarsdóttir á tvær dætur.
Sylvía Haukdal Brynjarsdóttir á tvær dætur. Ljósmynd/Aðsend

Góðar og hollar hafrasmákökur í nestisboxið frá Sylvíu

3 bananar vel þroskaðir

4 dl haframjólk

1 dl eplamauk (líka hægt að nota 1 dl hnetusmjör)

1/2 tsk. salt

1/2 tsk. vanilludropar

Bláber, rúsínur, eða þurrkuð ber

Aðferð

1. Hitið ofninn í 180 gráður.

2. Stappið næst bananana og blandið svo öllu saman nema berjunum.

3. Gerum litlar kökur á bökunarpappír og röðum svo berjum ofan á. Kökurnar stækka ekkert í ofninum þannig að gott er að gera þær í þeirri stærð sem maður vill hafa þær.

4. Síðan bökum við kökurnar við 180 gráður í 10-12 mínútur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda