Hin 36 ára gamla Amber Boone hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlinum TikTok, en hún á í dag tvö barnabörn og deilir á miðlinum myndböndum um lífið sem ung amma.
Boone eignaðist sitt fyrsta barn aðeins 14 ára gömul, en hún reyndi að beina börnum sínum frá því að stofna fjölskyldu ung og feta í fótspor hennar. Þrátt fyrir það eignaðist elsta dóttir hennar sitt fyrsta barn 17 ára gömul, en þá var Boone aðeins 31 árs.
Netverjar virðast hafa mikinn áhuga á lífi Boone og fjölskyldu hennar. „Ég ætla ekki að ljúga, ég hélt þú værir 25 ára! Til hamingju með þig, þú rokkar,“ skrifaði einn notandi við myndbandið á meðan annar sagði að hún myndi alls ekki vilja verða amma fyrir fertugt.
„Hlustaðu nú. Ég neitaði að vera kölluð amma fyrstu tvö árin, en þegar litla ömmustelpan mín sagði það fyrst var það eins og tónlist í eyrum mér. Ömmubörn breyta þér,“ svaraði Boone.
Þó nokkrir notendur virðast vera á sama báti og Boone. „Ég er 39 ára með sjö barnabörn. Ég myndi ekki skipta þeim út fyrir neitt,“ skrifaði einn notandinn.