Crossfitstjarnan Annie Mist Þórisdóttir er komin með nóg af því að fólk spyrji hana hvort hún sé ólétt eða hversu langt hún sé gengin. Annie fékk spurninguna síðast fyrir um viku þegar hún var á leið heim eftir Rouge-boðsleikana í Bandaríkjunum, en rúm tvö ár eru síðan hún fæddi dóttur sína.
Annie útskýrir á Instagram að eftir fæðinguna hafi kviðvöðvar hennar ekki tengst aftur saman, þar af leiðandi sé hún með útstæðari kviðvöðva en áður. Annie er ein sú besta í crossfit í heiminum í dag eins og hún sýndi og sannaði þegar hún varð í 2. sæti á Rouge-leikunum.
Annie var í flugstöðinni í Bandaríkjunum með dóttur sinni Freyju. Þegar hún fór á kassann spurði afgreiðslukonan hvort hún ætti von á öðru barni.
„Mér hefur aldrei liðið betur með líkama minn eftir mót, eftir að ég eignaðist Freyju, það eru komin tvö ár. Ég sagði nei við hana, og svo fann ég til með henni og útskýrði fyrir henni að kviðvöðvarnir hefðu ekki gengið saman, því væri maginn minn stundum útstæðari,“ skrifar Annie og bætir við að hún hafi fengið þessa spurningu þrisvar fyrsta árið eftir að hún eignaðist dóttur sína.
Í fjórða skiptið var hún á Spáni í fríi. „Ég var í sundfötum á svölunum okkar og kona spyr mig hversu langt ég sé gengin. Ég sagði nei og sagði henni að þetta væri allt í lagi, kviðvöðvarnir væru enn í sundur eftir fæðinguna og því væri maginn ekki fullkominn, en þetta var sárt. Ég klæddi mig, settist niður með Freyju, og það féllu kannski nokkur tár,“ segir Annie.
Hún segir að lokum að nú sé hún komin með algjörlega nóg. „Ég er búin að ákveða að ég ætla ekki að hughreysta fólk sem spyr mig þessarar spurningar, því hún er algjörlega óviðeigandi. Hún særir mig, en hún gæti sært annað fólk mun meira, og það gæti tekið það lengri tíma að hrista þetta af sér. Við skulum bara sleppa því að spyrja konur hvort þær séu óléttar, alltaf. Leyfið þeim að segja ykkur það,“ skrifar Annie að lokum.