Íslandsvinkonan og Love Island-stjarnan Molly-Mae Hauge gaf fylgjendum sínum á samfélagsmiðlinum Instagram innsýn í glæsilegt steypiboð sem hún hélt síðastliðinn sunnudag. Hauge á von á sínu fyrsta barni með kærasta sínum, Tommy Fury, og fagnaði því svo sannarlega með stæl.
Hauge og Fury kynntust í raunveruleikaþáttunum Love Island, en þau höfnuðu í öðru sæti í fimmtu þáttaröð. Í september tilkynnti parið að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman.
Öllu var tjaldað til í steypiboðinu, en þar voru glæsilegar blómaskreytingar í hverju horni, lifandi tónlist og gómsætar kræsingar. Hauge byrjaði daginn á því að fara í förðun og hárgreiðslu áður en hún mætti í veisluna sem var haldin á veitingastað í Manchester í Englandi.
Þegar gestirnir gengu inn í veislusalinn tóku á móti þeim glæsilegar skreytingar, en þemað var líklega hvítt þar sem allar skreytingar voru hvítar og gestir langflestir í hvítum fatnaði.
Borðin í salnum voru skreytt með ótal hvítum kertum sem sköpuðu afar notalega stemningu. Fallegur matseðill skreyttur skýjum var við hvern stól, en á boðstólum voru japanskir og mexíkóskir réttir.
Þá var einnig boðið upp á ís og franskar makkarónur, en eftirréttavagni hafði verið komið fyrir í salnum.
Að steypiboðinu loknu fóru Hauge og Fury heim hlaðin gjöfum, en af myndinni að dæma eru gjafirnar ekki af verri gerðinni og koma meðal annars frá tískuhúsum á borð við Hermès, Chanel og Jo Malone.