150 kennarar, sérkennarar og skólastjórnendur mættu í Salinn í Kópavogi í gær þegar Orðalykillinn var kynntur.
„Viðtökurnar eru hreinlega framar okkar björtustu vonum. Forritið kom út í síðustu viku og nú hafa yfir 10.000 einstaklingar náð í Orðalykilinn. Þessi stafræna lausn kennir undirstöðuþætti lesturs og læsis. Þetta er greinilega mikið hitamál! Ég var hissa og himinlifandi að sjá salinn fyllast. Orðalykillinn er kominn til að vera! Næst á dagskrá er þróun á smáforriti sem mun nefnast Bara tala. Forritið er sérsniðið að vinnumarkaðnum en markmiðið er að kenna aðfluttum íslensku á einfaldan, aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Það gleymist nefnilega stundum að það má, og að okkar mati á, að vera gaman að læra,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila.
Lestrar- og málörvunarforritið Orðalykill kennir undirstöðuþætti lesturs og læsis. Mussila nýtir sér kjarnalausnir íslensku máltækniáætlunarinnar til að þróa Orðalykilinn. Höfundar Orðalykilsins eru talmeinafræðingarnir Ásthildur Bj. Snorradóttir og Bjartey Sigurðardóttir ásamt Mussila ehf. Orðalykillinn verður aðgengilegur á öllum helstu snjalltækjum, bæði til að nota heima og í skólum landsins, öllum að kostnaðarlausu. Hann mun nýtast öllum börnum til að læra að lesa og skilja íslensku. Aðfluttum Íslendingum með erlendan uppruna, íslenskum börnum sem búa erlendis og öllum öðrum sem vilja læra okkar ástkæra og ylhýra tungumál. Um er að ræða gagnvirka kennslulausn sem ýtir undir snemmtæka íhlutun, málörvun og læsi.