Ætla að baka skinkuhorn í massavís

Hjónin Berglind og Hermann eiga þrjár dætur en nú er …
Hjónin Berglind og Hermann eiga þrjár dætur en nú er miðjubarnið að fermast. Ljósmynd/Lárus Sigurðarson

Elín Heiða Hermannsdóttir fermist 26. mars í Lágafellskirkju. Hún ætlar að taka virkan þátt í matargerðinni með fjölskyldunni. Móðir hennar, Berglind Hreiðarsdóttir matarbloggari á Gotteri.is, er búin að skipuleggja undirbúninginn vel.

Elín Heiða valdi að fermast í kirkju þar sem hún trúir á guð. Í vetur hefur hún lært mikið um trúna í fermingarfræðslunni. „Ég lærði meira um guð og trúna og líka um að allir eiga að vera góðir hver við annan sama hvernig maður er. Við fórum síðan í mikið af leikjum og fleira skemmtilegt,“ segir Elín Heiða um fermingarfræðsluna í vetur.

Ertu búin að finna fermingarfötin?

„Já ég verð í hvítum kjól sem við pöntuðum af netinu og Jordan-skóm.“

Tekur þú á einhvern hátt þátt í undirbúningnum fyrir veisluna?

„Já ég ætla að búa til fermingarkökuna sjálf, vel skreytingarnar með mömmu og pantaði að hafa sushi með á hlaðborðinu því ég elska það. Síðan ætla ég að baka skinkuhorn og sjá um að setja alls konar veitingar á krakkaborðið því mér finnst gaman að gera ávaxtaspjót og alls konar svoleiðis.“

Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?

„Veit það ekki alveg. Utanlandsferð, peninga og punt í herbergið mitt kannski.“

Ætlið þið að vera með einhver skemmtiatriði í veislunni?

„Nei ekki sérstök skemmtiatriði. Ég hlakka bara til að hitta allt frændfólkið og vini okkar og hafa gaman í myndakassanum með öllum og borða góðan mat.“

Fékk tár í augun í myndatökunni

Hvernig er að fylgjast með barninu sínu fermast?

„Þetta er pínu fullorðins en um leið svo gaman að sjá þau standa við altarið eftir allan undirbúninginn þann veturinn í kyrtlinum, fara með biblíuversið sitt og þar fram eftir götunum. Ég fékk eiginlega tár í augun þegar við fórum í myndatökuna því mér fannst hún allt í einu svo falleg og fullorðin og var að velta því fyrir mér hvað hefði orðið um barnið mitt,“ segir Berglind um fermingarbarnið sitt.

Elín æfir körfubolta með Fjölni og verður körfuboltaþema í fermingunni.
Elín æfir körfubolta með Fjölni og verður körfuboltaþema í fermingunni. Ljósmynd/Lárus Sigurðarson

Hvernig hefur fermingarundirbúningurinn í vetur verið?

„Við erum búnar að vera að viðra hugmyndir síðan í haust, síðan upp úr áramótum var sest niður, gestum boðið og byrjað að skipuleggja allt saman. Við fórum til dæmis í fermingarmyndatöku lok febrúar, búnar að panta það sem þarf að panta erlendis frá ásamt fleiru hér heima og erum svona að safna öllu að okkur og haka í á listanum. Veitingar hafa verið ákveðnar og við búnar að panta það sem við ætlum að panta og ætlum síðan að byrja fljótlega að baka og setja í frystinn það sem við gerum sjálfar.“

Berglind segir það heilmikla vinnu að að halda fermingarveislu og þá kemur gott skipulag og góður listi sér vel. Það er hægt að klára hluti tímanlega og hefur hún til að mynda deilt góðum ráðum fyrir ferminguna á heimasíðu sinni, samfélagsmiðlum og í Veislubókinni sinni. „Að fá aðstoð ættingja og vina er síðan mjög hjálplegt, fá einhverja til að sækja veitingar á fermingardaginn, aðstoða við skreytingar og allt þetta léttir mikið á álaginu,“ segir Berglind.

Hafið þið lært eitthvað á því að halda fermingarveislu áður?

„Við höfum haldið þær ófáar veislurnar og erum við oft að gera svipaða hluti. Reyna að hafa fjölbreyttar veitingar og svo þegar maður heldur veisluna heima dettur maður pínu í það að raða húsinu alltaf eins upp og setja skraut á svipaða staði því það virkar best þannig. Þannig verður þetta reyndar líka einfaldara og auðveldara í hvert skipti.“

Kransakaka og aftur kransakaka

Hvað finnst þér ómissandi að bjóða upp á í fermingarveislu?

„Þetta er líklega einfaldasta spurning lífs míns, kransakaka! Það verður að vera góð kransakaka. Ég er auðvitað þessi týpa sem fer sérstaklega í IKEA til að kaupa mér kransakökubita reglulega því bakaríin eru flest hætt að selja slíka. Ég elska kransaköku og veit að það er mikil nostalgía fólgin í henni hjá fleirum. Auðvitað má líka bara gera kransakökubita og hafa í skál, bara að bjóða upp á marsípan í einhvers konar formi, þá er ég sátt. Í minni fermingarveislu var kransakaka og síðan klassískt kaffihlaðborð eins og fólk var mikið að vinna með í „denn“.

Núna eru margir farnir að hafa bröns, smárétti og annars konar veitingar. Gamla góða kaffihlaðborðið stendur auðvitað alltaf fyrir sínu, brauðtertur, heitir réttir og allt þetta. Við erum meira fyrir nýstárlegri mat svo við erum með smárétti frá Nomy og sushi frá Osushi, ostabakka, sæta bita, nammibar, kransaköku og fermingarköku sem fermingardaman mín vill fá að sjá um sjálf. Það má síðan alls ekki gleyma litla fólkinu. Ef það eru börn í veislu finnst mér gott að hafa alltaf eitthvað sérstakt fyrir þau á sérborði, þó þau megi að sjálfsögðu líka fá sér allt sem er í boði þá vilja krakkar oft eitthvað einfalt. Við ætlum því að baka skinkuhorn í massavís, gera rice krispies-kökur, ávaxtaspjót og fleira í þeim dúr og hafa sérstaklega fyrir þau. Það er allt of oft sem þetta gleymist og elsku börnin borða bara nammi og gos í veislum og eru sársvöng þegar heim er komið.“

Fjölskyldan skellti sér í fermingarmyndatöku fyrir ferminguna.
Fjölskyldan skellti sér í fermingarmyndatöku fyrir ferminguna. Ljósmynd/Lárus Sigurðarson

Ætlið þið að skreyta fyrir fermingarveisluna?

„Við ætlum að skreyta með blöðrum, blómum og setja veitingarnar upp á fallega standa, bakka og diska. Fallegar veitingar eru auðvitað skraut út af fyrir sig! Blöðrubogar eru ódýr lausn til að skreyta mikið svæði en gott er að gera það þá deginum á undan því það getur tekið smá tíma. Sumir vilja síðan nota greinar og blóm úr náttúrunni en á Íslandi fermast flestir meðan enn er hálfgerður vetur og því kannski ekki mikið hægt að vinna með í þeim efnum. Síðan mæli ég með að fá kertastjaka, kökudiska, vasa og alls kyns skraut lánað ef þið getið og mér finnst gaman að fylla upp í autt pláss á veisluborðinu með slíku.“

Hvað ættu foreldrar fermingarbarna að hafa í huga?

„Muna að þetta er dagur barnsins, leyfa því að vera með í ráðum og njóta bæði undirbúnings og fermingardagsins. Það skapast gæðastundir við undirbúning með fermingarbarninu og síðan er gott að fá aðstoð við áfyllingu og tiltekt meðan á veislu stendur til þess að foreldrar geti notið þess að spjalla við veislugesti,“ segir veislukonan Berglind.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda