Inga Jóna Jónsdóttir og Freyr Theodórsson fengu langþráðan draum sinn uppfylltan þegar dóttirin Arndís María fæddist árið 2021. Inga Jóna og Freyr þurftu að hafa fyrir því að eignast dóttur sína og ófrjósemin reyndi á en þau eru sterkari fyrir vikið.
Inga Jóna segir að þau hafi grunað að það gæti reynst þeim erfitt að eignast börn þegar þau voru búin að reyna að eignast barn í eitt til tvö ár. Þau voru þó meðvituð um að það gæti tekið tíma að verða ólétt og voru ekki að stressa sig of mikið til að byrja með. „Við ákváðum að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni þegar fimm til sex ár voru liðin. Við í rauninni vissum þá alveg að við þyrftum aðstoð en það er samt erfitt að viðurkenna það, að taka skrefið og panta tíma hjá lækni,“ segir Inga Jóna.
Hún játar að biðin eftir barninu hafi reynt á andlega. „Mér fannst allir í kringum mig vera að halda áfram með lífið á meðan við vorum föst. Fólk í kringum okkur byrjaði að eignast börn og kláraði þann pakka á meðan við vorum enn þá að bíða eftir okkar fyrsta. Óléttutilkynningar, barnaafmæli, barnasturtur, skírnir, kynjaveislur og fleira var orðið erfitt, sérstaklega ef maður var kannski nýbúinn að pissa á próf eða byrja á blæðingum. Maður setur ýmislegt í bið á meðan, hvort sem það er skóli, ferðalög eða starfsferill.“
Inga Jóna og Freyr sögðu ekki öllum í kringum sig hvað þau voru að ganga í gegnum fyrr en þau ákváðu að fara í glasafrjóvgun. „Fram að því fengum við svo oft spurningar út í barneignir frá fjölskyldu, vinum og kunningjum. Það reyndist oft mjög erfitt, sérstaklega þegar við vissum að við þyrftum aðstoð og okkar helsti draumur var að eignast barn. Svo við ákváðum að segja fjölskyldu og vinum frá. Rétt áður en við hófum fyrstu meðferðina þá deildi ég því á samfélagsmiðlum og leyfði fólki að fylgjast með í rauntíma. Það kom okkur á óvart hversu margir í kringum okkur höfðu gengið í gegnum það sama og við en höfðu ekki sagt öðrum frá. Við fundum þá hversu mikilvægt var að opna á þetta,“ segir Inga Jóna.
Hvernig gekk tæknifrjóvgunin?
„Við þurftum að fara í tvær meðferðir áður en ég varð ólétt. Fyrri meðferðin gekk þannig séð vel. Við fengum mörg egg en aðeins einn fósturvísi og sú meðferð gekk ekki upp. Seinni meðferðin gekk heldur brösuglega. Ég fékk ofnæmisviðbrögð við öllum lyfjunum sem ég var sett á og var ég sett á þrjú eða fjögur mismunandi lyf. Það leit út fyrir að við þyrftum að slaufa meðferðinni en í staðinn var ég sett á ofnæmislyf og skammturinn hækkaður nokkrum sinnum þangað til ég komst í eggheimtu.
Við fengum svipað mörg egg og í fyrri meðferðinni en aftur aðeins einn fósturvísi. Sá fósturvísir leit ekki vel út og voru læknarnir ekki bjartsýnir á að hann myndi halda sér en vegna þess að uppsetningin var innifalin þá var ákveðið að setja hann samt upp. Svo á meðan ég var að bíða eftir að geta tekið óléttupróf þá vorum við að skoða stofur erlendis fyrir næstu meðferð. Nokkrum dögum fyrir prófdag fékk ég á tilfinninguna að ég væri ólétt en ég var líka svo veik. Ég bað manninn minn um að kaupa próf til að athuga hvort þetta væri óléttan eða eitthvað annað. Ég tók prófið um leið, tveimur dögum fyrir prófdag að kvöldi til. Fór fram í stofu með prófið að bíða eftir að geta litið á það. Engin lína. Stuttu seinna fór ég með það inn á bað, þar sem lýsingin er betri, og sá þar daufa línu. Við ætluðum ekki að trúa þessu fyrst svo ég sendi manninn aftur að kaupa fleiri próf til að taka um morguninn. Morguninn eftir var línan ennþá dekkri.“
Hvernig var tilfinningin að verða ólétt?
„Ég átti mjög erfitt með að trúa því, sérstaklega því að læknarnir ætluðu fyrst ekki að setja fósturvísinn upp því hann leit ekki vel út, svo ég var alveg viss um að þessi meðferð myndi ekki ganga upp. Eftir öll þessi ár þá er hræðslan við að byggja upp vonir svo mikil. Endalaus neikvæð próf, ár eftir ár, og við ætluðum ekki að trúa þessu. Ég tók próf á hverjum degi í einhverja þrjá til fjóra daga til að vera viss og línan varð alltaf dekkri og dekkri.“
Hvernig var meðgangan?
„Fyrstu vikurnar var ég rosalega veik. Oförvaðist í meðferðinni og samkvæmt læknisráði átti ég helst að vera rúmliggjandi til að flýta fyrir batanum og var ég rúman mánuð heima. Ég fann einnig fyrir mikilli ógleði og kastaði daglega upp fram að 16. viku og síðan tók við meðgöngusykursýki og grindargliðnun. Mín upplifun af meðgöngunni var svo langt frá þeirri hugmynd sem ég hafði. Mér leið ekki vel og eftir á að hyggja hefði ég frekar verið til í að fæða tíu sinnum í staðinn fyrir að ganga aftur í gegnum meðgöngu. En þetta var yndislegur tími og ótrúlega dýrmætt að fá að upplifa meðgöngu, finna fyrir spörkum, fá kynjaveislu, barnasturtu og allt þetta. Mér fannst líka ótrúlega gaman að klæða kúluna en hef ekki ennþá fundið fyrir „bumbusakni“ eins og maður heyrir sumar mæður tala um.“
Inga Jóna segir að fæðingin hafi gengið þokkalega og hafi ekki tekið langan tíma. Dóttirin kom í heiminn 12 tímum eftir að Inga Jóna missti vatnið.
„Ég var stödd í bröns á Vox með stórfjölskyldu mannsins míns þegar vatnið fór. Versta er að við vorum nýmætt og ég endaði á því að vera föst inni á baði á meðan hinir borðuðu því það bara lak um leið og ég reyndi að standa upp. En við keyrðum heim og ég byrjaði mjög fljótt að finna fyrir verkjum og skellti mér í baðið heima og var þar næstu klukkutímana. Upp úr 21 um kvöldið gat ég ekki meir og fórum við upp á spítala því það var orðið ansi stutt á milli hríða. En ég var rosalega treg að fara því ég var alveg viss um að ég yrði send heim því ég væri komin svo stutt.
Þegar við mættum kom í ljós að ég var komin í virka fæðingu og fór beint inn á stofu og fékk þar glaðloft. Ég var með ákveðnar óskir varðandi fæðinguna, eins og að eiga í baði og sleppa helst við mænudeyfingu. En á einhverjum tímapunkti var ekkert sem virkaði og voru hríðirnar það kröftugar að ég vildi helst hætta við. Ég endaði á því að fá deyfinguna en stuttu eftir að hún byrjaði að virka þá var ég komin í fulla útvíkkun. Það var smá maus að koma henni út og var farið að hægja verulega á hjartslættinum hjá barninu. Ég var nálægt því að vera send í keisara þegar ljósurnar gáfu mér tvo rembinga til að koma henni út. Það tókst en þegar hún kom í heiminn þá kom í ljós að naflastrengurinn var þrívafinn utan um hálsinn á henni.“
Hvernig var að fá langþráð barnið í fangið?
„Ólýsanleg tilfinning. Og svo skrýtið að hugsa til þess að þessi litla manneskja er okkar og við fáum að taka hana með heim, hugsa um hana, elska hana og fylgjast með henni vaxa og dafna.“
Hvernig er að vera orðin móðir?
„Fyrstu dagana vorum við á bleiku skýi og allt alveg dásamlegt. Brjóstagjöfin gekk ekki og lagðist það heldur þungt á sálina. Ég tengdist henni mjög lítið og upplifði mikið fæðingarþunglyndi fyrstu vikurnar. En við vorum bæði mjög meðvituð um að þetta gæti gerst og leitaði ég mér hjálpar mjög fljótt. En smátt og smátt byrjaði ég að tengjast henni og í dag get ég ekki hugsað mér lífið án hennar. Hún er púslið sem vantaði.“
Hefur það á einhvern hátt styrkt ykkur eða breytt ykkur að hafa gengið í gegnum þetta ferli?
„Auðvitað tekur þetta á og setur mikið álag á sambandið og þurftum við að leggja mikið á okkur til að vera samstiga. Við áttuðum okkur á því að ef við hefðum ekki gert það þá hefði sambandið líklegast splundrast við þetta. En í staðinn þá styrkti þetta okkur og okkar samband. Auðvitað vildum við ekki þurfa að ganga í gegnum þetta og óskum við engum að þurfa að fara þessa leið til að eignast barn. En eftir á að hyggja þá sjáum við ekki eftir þessu því reynslan gerði okkur sterkari fyrir vikið,“ segir Inga Jóna.