Fluttu út á land með fjölskylduna

Fimm manna fjölskyldan tók áhættu og flutti úr borginni í …
Fimm manna fjölskyldan tók áhættu og flutti úr borginni í fyrra. Ljósmynd/Krissý Ljósmyndastúdíó

Karitas Harpa Davíðsdóttir, fjölmiðla- og tónlistarkona, flutti til Reyðarfjarðar með fjölskyldu sinni í fyrra. Karitas og sambýlismaður hennar Aron Leví Beck, skipulagsfulltrú og umhverfisfulltrúi Fjarðabyggðar, ákváðu að prófa að flytja þegar þau fengu bæði vinnu. Hún segir að því fylgi margir kostir að búa með þrjú börn í litlu bæjarfélagi.

Það er mikið líf og fjör á heimili Karitasar og Arons en börnin þrjú eru átta ára, þriggja ára og tveggja ára. Heimilislífið segir hún vera allt frá því að vera erfitt og hávaðasamt yfir í það að vera fyndið og skemmtilegt. Karitas segir að það hafi verið draumur hjá sér að flytja út á land eftir að börnunum fór að fjölga.

„Hvernig þetta kom til var eiginlega skyndiákvörðun en ég var samt búin að vera að viðra hugmyndina um að flytja úr miðbænum og í eitthvað aðeins „dreifðara“ í smá tíma. Kjörtímabilið hjá Aroni endaði og leigusamningurinn okkar var að renna út. Það þurfti að fara að taka ákvörðun um næstu skref, hvort við ætluðum að framlengja eða skoða eitthvað annað þegar systir mín, sem býr á Reyðarfirði, sendi mér skjáskot af tveimur atvinnuauglýsingum sem virtust gerðar fyrir okkur. Við sömdum um að senda inn umsóknir og sjá hvað gerðist. Það þyrfti ekki að þýða neitt að sækja um en ef við skyldum nú bæði fá jákvæð svör myndum við skoða þetta af alvöru,“ segir Karitas og eftir smá stress og óvissu fengu þau bæði jákvæð svör og þurftu að taka ákvörðun um hvað þau vildu gera. Hún segir að krakkarnir hafi enn verið tiltölulega ung þannig þau ákváðu að slá til og prófa. Í versta falli myndu þau flytja aftur suður.

Stór garður fylgir með húsinu á Reyðarfirði.
Stór garður fylgir með húsinu á Reyðarfirði.

Borga minna og skipuleggja sig betur

Karitas Harpa segir ótal marga kosti við nýja lífið úti á landi. „Ég gæti talið fullt af kostum en mínir helstu eru þeir að við erum að greiða talsvert minna á mánuði fyrir hús með stórum garði. Öll börn eru með sérherbergi og nóg af plássi til að sprikla um. Dóttir okkar komst beint inn á leikskóla. Við vitum í raun ekkert hvenær hún hefði fengið inni í Reykjavík og sleppum því á móti við að greiða dagforeldragjöld svo sparnaðurinn er strax orðinn mikill,“ segir hún.

Þau Karitas og Aron hafa ekki bara sparað með því að borga minna fyrir húsnæði og með því að koma yngsta barninu fyrr í leikskóla. Með því að búa í minna bæjarfélagi fóru þau ósjálfrátt að skipuleggja sig betur.

„Við vorum gjörn á að stökkva aðeins í búðina á kvöldin til að grípa hitt og þetta. Við erum farin að elda miklu meira heima – það eru auðvitað ekki eins margir matsölustaðir og fyrir sunnan. Búðinni hérna er lokað klukkan sex þannig að við kannski reynum að pæla meira fram í tímann hvað varðar innkaup. Eins og fyrir jólin, þá nýtti ég mér það að kaupa á netinu gjafir, sem endaði á því að allt var betur útpælt og lítið stokkið út á síðustu stundu til að redda einhverju. Þetta eru auðvitað bara litlir hlutir en eitthvað sem ég hef tekið eftir og pælt í,“ segir Karitas Harpa.

Þó svo að jákvæðu hliðarnar séu fjölmargar er ekkert fullkomið.

„Auðvitað eru síðan alltaf gallar, ég held það sé svoleiðis við allt. Það sem við finnum helst fyrir er auðvitað fólkið okkar sem er í bænum. Úrval á frístundum og íþróttum er líka minna eins og gefur augaleið þegar það er færra fólk. Elsti strákurinn minn á pabba í bænum og það hefur stundum reynst erfitt að vera langt í burtu en sem betur fer er góð flugumferð og höfum við nýtt hana. Veðrið hefur aðeins verið að stríða okkur í vetur en við hlökkum mikið til þess að sjá hvað fjörðurinn hefur upp á bjóða með vorinu og sumrinu.

Ég sakna þess alveg stundum að vera umvafin menningarlífinu og kaffihúsunum í bænum en staðan er bara sú að við vorum farin að sækja það minna nú þegar. Eins og sagði áður, þá erum við bara í þessum pakka núna og okkur finnst við geta notið þess enn betur með því sem landsbyggðin hefur upp á að bjóða.“

Hér er fjölskyldan saman í réttum.
Hér er fjölskyldan saman í réttum.

Meiri loftgæði og meira myrkur

Hversdagslífið er hefðbundið fyrir fimm manna fjölskyldu. Þau fara í vinnuna, sækja krakka í leikskóla og grunnskóla og reyna að nýta tímann vel eftir skóla og þá kemur sér vel að það er stutt í allt.

„Eftir skóla eru það ýmist bókasafnsferðir, sundferðir, gönguferðir eða bara rólegheit heima fyrir. Við erum mjög lánsöm að eiga fjölskyldur í firðinum, systir mín býr hér ásamt manni og barni og reynum við að hitta þau og mömmu Arons sem býr hér líka. Annars er það þetta týpíska, skjótast í búðina og fara heim að elda. Það sem ég elska er hvað allt er stutt, að skjótast í búðina eru örfáar mínútur svo tíminn eftir skóla og vinnu nýtist vel, enginn fastur í umferð. Strákarnir hafa verið að prófa fótbolta í höllinni sem er hér fyrir neðan húsið okkar og stelpan okkar reynir eftir fremsta megni að þykjast eldri en hún er.“

Fjölskyldan eyðir litlum tíma í bílahangs nema þegar hún skreppur í sérstaka bíltúra eða kíkir í aðra firði eða bæi. Karitas nefnir að meiri tími með fjölskyldunni sé ekki eini kosturinn við minni bílaumferð. „Ég elska það hve mikið ég finn fyrir loftgæðum. Svalirnar okkar voru alltaf fljótt orðnar rykugar og svartar af sóti svo það var ekki mikið leikið úti á þeim en hér er hægt að opna bara út í garð þegar veður leyfir og þau hlaupa um frjáls,“ segir hún.

Hún hafði ekki mikið pælt í ljósmengun áður en hún flutti til Reyðarfjarðar en í vetur hefur hún notið myrkursins. „Þetta er eitthvað sem ég hafði kannski aldrei pælt í þannig, ég sá kannski stundum stjörnur og svo framvegis í bænum og auðvitað þegar ég keyrði milli Selfoss og Reykjavíkur en ég hef aldrei séð myrkrið eins dimmt og hér. Mörgum finnst það erfitt, sérstaklega á veturna því sólin lætur sig hverfa í nokkra mánuði en ég hef notið þess svo innilega að sjá himininn stútfullan af stjörnum og norðurljósum, á hátt sem ég man vart eftir.“

Það kom Karitas á óvart að hún fann mun á …
Það kom Karitas á óvart að hún fann mun á streitustiginu þegar hún flutti austur.

Upplifðu frelsið sem fylgir minni stöðum

Hvað leggið þið áherslu á í uppeldinu?

„Við leggjum mikið upp úr samveru, verjum miklum tíma saman innandyra jafnt sem utandyra. Lestur hefur einnig verið stór hluti af áherslum okkar, bókasafnsferðir og lestrarsamverustundir sem Aron sinnir talsvert betur en ég. Að fara í sund er líka eitthvað sem fjölskyldan reynir að gera sem mest af, það er auðvitað algjör snilld að svamla um í vatninu meðan krakkarnir vinna á orkunni sinni. Eins höfum við gaman af því að gefa þeim færi og rými til að skapa eins og við getum, mála, teikna, föndra. Við förum í gönguferðir í fallega umhverfinu og reynum að gera árstíðabundna hluti saman, fara í berjamó, réttir og þess háttar.“

Fenguð þið sjálf tækifæri til að alast upp úti á landi?

„Ég flutti mikið sem barn, bjó erlendis og síðan víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu þar til á unglingastigi en þá flutti fjölskylda mín til Hveragerðis í tvö ár og svo á Selfoss. Hvort það teljist til þess að búa úti á landi veit ég ekki en ég fann og upplifði frelsið við smærri bæjarfélög þá. Aron bjó á höfuðborgarsvæðinu en á fjölskyldu frá Reyðarfirði svo hann eyddi sumrum hér meira og minna sem barn og hafði talsvert meiri reynslu af landsbyggðarlífinu en ég kannski fyrir. Svo við erum bæði vissulega borgarbörn en með landsbyggðarívafi sem ég held einmitt að hafi verið eitt af því sem tengdi okkur fyrst. Við höfðum fengið reynslu af hvoru tveggja að einhverju leyti.“

Meiri tími hefur skapast fyrir góða samveru eftir að fjölskyldan …
Meiri tími hefur skapast fyrir góða samveru eftir að fjölskyldan flutti út á land.

Hefur meiri tíma til að dunda sér

Það eru ekki bara börnin sem hafa notið góðs af flutningunum. Foreldrarnir Karitas og Aron hafa ræktað áhugamál sín í vetur. Karitas er til dæmis í kvenfélaginu og byrjuð að vinna í hlutastarfi hjá Austurfrétt/Austurglugganum meðfram myndmenntakennslu.

„Kvöldin eru yfirleitt með rólegra sniði en við finnum okkur alltaf eitthvað að gera. Aron fer mikið að mála á kvöldin eða æfa sig á harmonikkuna. Ég ákvað að fara alla leið í landsbyggðarfílingnum og gekk í Kvenfélag Reyðarfjarðar, eins er ég í handverkshóp og allskonar skemmtilegt í gangi. Það voru margir sem höfðu áhyggjur af því að okkur myndi nú leiðast úti á landi en það hefur verið þvert á móti og ég í raun fengið að upplifa aðra þýðingu á orðinu samfélag.“

Finnið þið mun á streitunni?

„Ég finn allavega fyrir talsvert minni streitu sjálf en vissi kannski ekki alveg hve mikla streitu ég upplifði áður, ef það „meikar sens“. Ég finn mig gefa mér meiri tíma í að dunda mér, farin að elda einmitt miklu meira, farin að baka aftur meira eitthvað sem ég gerði mikið sem unglingur. Ég mála mikið, föndra og dunda mér þegar tími gefst og nýt þess – það er að segja ég finn enga pressu að verða að gera eitthvað við það, sýna einhverjum, koma því eða mér á framfæri. Ég er stundum spurð hvort ég sé hætt að syngja, sem ég er ekki. Ég hef þó minna verið að minna á mig þar sem ég er í þessum pakka akkúrat núna. Ég syng samt þegar færi gefst og tek að mér söng við ýmis tilefni en er líka svolítið að leyfa mér að njóta þess að vera hér og nú, í þessu fallega umhverfi og náttúruparadís að horfa á börnin mín vaxa og dafna, þroskast og uppgötva heiminn sjálf,“ segir Karitas að lokum.

Það er alltaf fjör á heimilinu en það fylgir því …
Það er alltaf fjör á heimilinu en það fylgir því að vera fimm manna fjölskylda.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda