„Það er mikilvægt að mega sýna allar tilfinningar“

Knattspyrnumaðurinn Gísli Eyjólfsson og dóttir hans Helena alsæl með Íslandsmeistaratitilinn …
Knattspyrnumaðurinn Gísli Eyjólfsson og dóttir hans Helena alsæl með Íslandsmeistaratitilinn á síðasta ári.

Þótt fótboltinn eigi hug hans allan viðurkennir knattspyrnumaðurinn Gísli Eyjólfsson að íþróttin sé ekki mjög fjölskylduvæn, enda séu æfingarnar á svokölluðum „úlfatíma“ dagsins og leikir um helgar. Gísli og kærasta hans, Anna Guðrún Alexandersdóttir, eiga tvö börn saman, þau Helenu sem er þriggja ára gömul og Emil sem er fimm mánaða gamall. 

Gísli er uppalinn hjá Breiðabliki og varð Íslandsmeistari með liðinu á síðustu leiktíð í fyrsta sinn á ferlinum. Alls á hann að baki 137 leiki í efstu deild með Blikum og Víkingi úr Ólafsvík en hann lék með Ólsurum á láni frá Breiðabliki sumarið 2016. Gísli er menntaður þroskaþjálfi og starfar samhliða fótboltanum sem forfallakennari í Salaskóla.

Það er því óhætt að segja að Gísli sé með marga bolta á lofti en við fengum að skyggnast inn í fjölskyldulíf Gísla sem sagði okkur meðal annars frá upplifun sinni að vera á hliðarlínunni í fæðingu og hvernig hefur gengið að samtvinna fótboltann og fjölskyldulífið.

Mæðginin í góðum gír á vellinum.
Mæðginin í góðum gír á vellinum.

Örlagaríkt mark á móti FH

Gísli segir að fótboltinn hafi leitt þau Önnu saman árið 2017. „Ég vill meina að sagan sé þannig að Anna hafi byrjað að fylgja mér á Instagram beint eftir leik á móti FH árið 2017 þar sem ég skoraði geggjað mark og átti virkilega góðan leik. Mér fannst hún vera mjög sæt stelpa og við byrjuðum að spjalla. Það leið svo ágætur tími áður en ég loksins þorði að bjóða henni á stefnumót og þá var ekki aftur snúið,“ segir Gísli.

„Hún vill hins vegar meina að hún hafi ekki séð leikinn og þetta sé allt tilviljun, en ég kaupi það ekki,“ bætir hann við og hlær.

Hlutverkið á hliðarlínunni takmarkað

Gísli segir fæðingar barnanna sinna tveggja hafa verið mjög ólíkar. „Þegar Helena fæddist tók fæðingin langan tíma, en Anna missti vatnið og rúmum sólahring seinna mætir Helena í heiminn eftir rosalega frammistöðu hjá Önnu,“ segir hann. 

„Emil kom í heiminn þegar ég átti að vera í Suður Kóreu að spila fyrir landsliðið. Það kom aldrei til greina að reyna á það, en sem betur fer fór ég ekki því hann var ólmur að koma í heiminn og fæðingin tók stuttan tíma,“ bætir hann við. 

Gísli segir hlutverk sitt á hliðarlínunni í fæðingunum hafa verið takmarkað. „Ég reyndi eins og ég gat að vera til staðar fyrir Önnu og styðja hana í gegnum þetta. Í rauninni sat ég þarna við hliðina á henni að bjóða henni vatn eða Gatorate til skiptis. Það var ótrúlegt að upplifa þetta og sjá Önnu fara í stríðsgír og ráðast á þetta verkefni með alvöru dugnaði,“ rifjar hann upp.

„Ef ég ber þessar tvær fæðingar saman þá var sú …
„Ef ég ber þessar tvær fæðingar saman þá var sú seinni mun betri fyrir mitt leyti, en að sögn Önnu þá var hún mun erfiðari.“

„Ég byrjaði að sjá tilgang lífsins með öðrum augum“

Gísli segir allt hafa breyst eftir að dóttir hans kom í heiminn. „Ég byrjaði að sjá tilgang lífsins með öðrum augum. Það kemur þessi ábyrgðar tilfinning og óskilyrðislausa ást sem erfitt er að lýsa. Maður vill gera allt fyrir þetta litla barn og vera til staðar fyrir það. Á sama tíma fann ég fyrir meiri metnað í öllu sem ég tók fyrir hendur og vildi gera betur,“ útskýrir hann.

Spurður hvað hafi komið honum mest á óvart við föðurhlutverkið nefnir Gísli þessa sterku ást sem hann upplifði strax frá fyrsta degi. „Þessi litlu kríli sofa, drekka, kúka og grenja bara til að byrja með og maður elskar þau meira og meira.“

„Eftir að Helena varð aðeins eldri þá er í miklu uppáhaldi hjá okkur á föstudögum að gera heimatilbúna pítsu og hafa kósí kvöld. „Það skemmdi svo ekki fyrir þegar Idolið var í gangi. Það kom á óvart hvað þessar gæðastundir eru gefandi og maður vill ekki vera á neinum öðrum stað en í faðmi fjölskyldunnar uppi í sófa,“ segir Gísli.

Bestu stundirnar eru í faðmi fjölskyldunnar að mati Gísla.
Bestu stundirnar eru í faðmi fjölskyldunnar að mati Gísla.

Fótboltinn sé ekki fjölskylduvænn

Gísli viðurkennir að fótboltinn sé ekki mjög fjölskylduvænn, enda fylgir honum mikið af ferðalögum, leikir um helgar og æfingar á svokölluðum „úlfatíma“ dagsins. „Þegar leikskólinn er búinn þá er ég að leggja af stað á æfingu og kem heim um kvöldmatarleytið. Þetta myndi aldrei ganga upp ef ég væri ekki með frábæran maka sem styður mig áfram í fótboltanum,“ útskýrir Gísli.

„Anna tekur á sig mikla vinnu sem væri eðlilegt að við myndum skipta meira á milli okkar, eins og til dæmis á næturnar. Hún leyfir mér að fá góðan svefn á nóttunni og í staðinn tek ég morgunvaktina. Það er mikill metnaður í Breiðabliki sem krefst mikillar orku á æfingu og í leikjum. Svefninn er mikilvægur í fótbolta upp á að hámarka árangur og það er meiri hætta á meiðslum ef svefninn er lélegur,“ bætir hann við. 

„Fótboltinn hjá mér hefur vissulega mikil áhrif á fjölskyldulífið, en það getur bæði verið jákvætt og neikvætt. Fjölskyldulífið getur snúist aðeins of mikið um mig og mína dagskrá. Í gegnum tíðina, sem fótboltamaður, hef ég oft þurft að sleppa mörgu eins og partíum, afmælum, utanlandsferðum og fleiru sem var í góðu lagi því ég valdi mér það.

Það væri gaman að geta farið til útlanda á sumrin með fjölskyldunni eða eytt helgunum í einhverju fjöri, en það er ekki alltaf hægt þar sem leikirnir eru yfirleitt á sunnudögum og þá þarf að hvíla fæturna sem mest fyrir leik. En sem betur fer er fótboltinn það skemmtilegasta sem ég geri og maður á bara helling af samverustundum inni sem er gaman að hlakka til,“ segir Gísli.

Fjölskyldan saman í verðskulduðu fríi í sólinni.
Fjölskyldan saman í verðskulduðu fríi í sólinni.

Mikilvægt að horfa líka á jákvæðu hliðarnar

Gísli segir jákvæðu hliðina þó vera að fjölskyldan hafi mjög gaman að lífinu í kringum fótboltann. „Anna var dugleg að mæta með Helenu á leiki og vonandi getur Emil komið á einhverja leiki í sumar. Helena elskar þetta umhverfi og nýtur sín mikið á Kópavogsvellinum. Henni finnst gaman að koma í klefann og hitta alla strákana. Þegar ég hringi heim úr utanlandsferðum þá er það fyrsta sem Helena segir: „Má ég sjá strákana?“,“ útskýrir Gísli.

„Helena fékk að labba með mér inn á völlinn í lok síðasta sumars. Þegar búið var að heilsa dómurum og andstæðingunum áttu allir krakkarnir að hlaupa af vellinum því leikurinn var að byrja. Helena tók það hins vegar ekki í mál og neitaði að fara – hún ætlaði að vera með. Ég þurfti að halda á henni til Önnu þar sem Helena mótmældi og var alls ekki sátt,“ rifjar Gísli upp og hlær.

Þótt fótboltinn sé ekki fjölskylduvænn segir Gísli fjölskyldulífið hafa hjálpað sér mikið í íþróttinni. „Börnin þurfa góða rútínu og heilsusamlegt líf og ég fell vel inn í þá rútínu. Eftir að ég varð pabbi hef ég verið að fara fyrr upp í rúm og vakna líka aðeins fyrr. Við reynum að borða hollan og góðan mat á heimilinu og það hefur aukist eftir að börnin fæddust,“ segir hann.

Helenu þykir mikið sport að fá að fara með pabba …
Helenu þykir mikið sport að fá að fara með pabba sínum inn á völlinn, enda gríðarleg stemning í loftinu.

Vill vera fyrirmynd fyrir börnin sín

Aðspurður segir Gísli svefnleysið hafa reynst mest krefjandi við föðurhlutverkið. „Ég er og hef alltaf verið mikil B-týpa. Það er auðvitað alltaf eitthvað sem getur komið upp eins og veikindi og annað, en það er einnig krefjandi að geta ekki gefið mig að þeim alveg 100%,“ útskýrir Gísli.

„Það getur verið erfitt að sækja Helenu í leikskólann og hún vill fara að leika með pabba en þá get ég það ekki því ég er að fara á æfingu. En aftur á móti vona ég að ég sé ákveðin fyrirmynd fyrir þau í framtíðinni með því að sýna þeim að það þarf að leggja mikið á sig til þess að ná árangri í því sem maður er að gera,“ bætir hann við. 

Gísli segir að það að sjá börnin sín vaxa, dafna, þroskast og ganga vel sé mest gefandi við föðurhlutverkið.„Það hefur til dæmis verið rosalega gefandi að fara með Helenu í gegnum öll þessi krefjandi verkefni sem hún þarf að takast á við, eins og að byrja á leikskóla og eignast nýtt systkini,“ segir hann.

Helena í skýjunum með sónarmynd af litla bróður sínum.
Helena í skýjunum með sónarmynd af litla bróður sínum.

„Mun leggja mig allan fram í sumar“

Í uppeldinu leggja Gísli og Anna mikla áherslu á að það sé nóg af ást á heimilinu og að börnin geti alltaf verið þau sjálf heima. „Ég og Helena erum bæði miklar tilfinningaverur, og með því fylgja margar sveiflur og það er mikilvægt að mega sýna allar tilfinningar,“ segir Gísli.

„Við leggjum einnig áherslu á kurteisi, tillitsemi og að börnin okkar hafi trú á sjálfum sér og sinni getu. Samvera er okkur mjög mikilvæg og við erum dugleg að fara öll saman í sund og hitta okkar nánasta fólk,“ bætir hann við. 

Framundan hjá Gísla er spennandi fótboltatímabil sem hófst 10. apríl síðastliðinn og stendur yfir til og með 3. september. „Ég mun leggja mig allan fram í sumar með Breiðabliki til þess að uppskera ennþá betri árangur en í fyrra. Svo eigum við fjölskyldan bókaða ferð til Tenerife yfir jólin sem við hlökkum mikið til,“ segir Gísli að lokum.

Það dugar ekkert minna en að vera í Breiðabliks samfellu …
Það dugar ekkert minna en að vera í Breiðabliks samfellu og með Breiðabliks snuddu til að styðja pabba.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda