Eftir ýmis áföll og erfiðleika, þar á meðal fósturmissi á sjöunda mánuði og fráfall maka síns, þráði Ása Dóra Finnbogadóttir fátt heitara en að eignast barn og heyra einhvern kalla sig mömmu. Árið 2021, á 49. aldursári, ákvað hún að gera eina lokatilraun til barneigna og elti drauminn alla leið til Riga í Lettlandi þar sem fósturvísir var settur upp.
Ása varð í kjölfarið ófrísk og er í dag, nokkrum dögum frá 51 árs afmælisdegi sínum, stolt móðir hinnar eins og hálfs árs gömlu Jódísar Möggu.
Ása Dóra hélt til Riga í Lettlandi í lok maí 2021 en þar var settur upp einn fósturvísir frá óþekktum kynfrumugjöfum. Þar í landi er leyfilegt að undirgangast uppsetningu á fósturvísum til 55 ára aldurs og jafnvel lengur ef að konan er í líkamlega góðu ástandi og andlegu jafnvægi.
„Það var bara settur upp einn fósturvísir sem var búið að erfðaskanna, leita eftir ákveðnum erfðagöllum og kyngreina, þannig að strax eftir uppsetningu gat ég fengið að vita að þetta væri stúlka,“ útskýrir Ása Dóra.
„Ég var búin að reyna glasafrjóvgun áður en þá kom í ljós að eggin mín voru ekki nógu góð. Þá komst ég ekki lengra í ferlinu en að eggheimtunni. Ég og maðurinn minn, heitinn, hefðum getað prófað aftur, þar sem var hægt að sjá hvort að næstu egg væru betri, en þá var mér bannað að fara aftur af því að ég væri of þung. Ég varð svo fyrir því áfalli að missa manninn minn og þá þurfti ég að takast á við erfiða tíma og kaus að setja þetta í bið,“ segir Ása Dóra.
Heilum sex árum eftir fráfall maka síns var hún reiðubúin að láta reyna á tæknifrjóvgun á ný. Ása Dóra fór í magaermiaðgerð árið 2020 til þess að auka líkurnar á því að undirgangast meðferðirnar hérlendis en var þá orðin of sein með eggin og hélt því til Riga.
„Ég var himinlifandi þegar ég komst að því að ég væri ófrísk og það tókst í fyrstu tilraun. Meðgangan gekk líka mjög vel, mun betur en fyrri meðgangan, áratugum áður. Mér fannst alveg magnað hversu vel mér leið, sem er alls ekki sjálfgefið, jafnvel hjá konum á tvítugs- og þrítugsaldri,“ segir Ása Dóra ánægð með upplifunina.
Líf Ásu Dóru umbyltist algjörlega og tók 360 gráðu snúning þegar hún fékk Jódísi Möggu í fangið í janúar 2022. „Nú snýst allt um þetta litla skott sem ég er svo lukkuleg með. Ég er þreytt, hef ekki sofið í heila nótt síðan hún fæddist, í heila 16 mánuði. Þetta er samt mesta lífsins gjöf, að fá að fylgjast með henni þroskast og dafna,“ segir Ása Dóra með stjörnurnar í augunum yfir litlu stúlkunni sem gerði hana að móður.
Áralöng bið og löngunin eftir að gerast móðir undirbjó Ásu Dóru þó ekki undir ævintýrið sem hún er nú að upplifa með dóttur sinni. „Það hefur allt komið mér á óvart og sérstaklega hvað ég vissi lítið um það hvernig á að hugsa um barn. Tíminn líður eins og óð fluga og ég næ vart að halda í við breytingarnar hjá henni en þetta hefur allt gengið vonum framar,“ segir hún.
Ása Dóra vill þó ólm sjá meira lagt í mæðravernd og umönnun mæðra eftir fæðingu barna. „Ég veit ekki hvort þetta kom mér á óvart en það er merkilegt hvað maður stendur í raun einn með það að eignast barn,“ segir hún.
„Það er rosalegt eftirlit á meðgöngunni með bæði móður og fóstri, en þegar barnið er fætt er fylgst með barninu en ekki boðið upp á frekara eftirlit með móður, nema þá helst til að athuga með fæðingarþunglyndi. Ég veit ekki alveg hvernig þetta ætti að vera, þetta er bara einhver tilfinning í mér og kannski sérstakt fyrir mig þar sem ég stend nokkuð ein í þessu,“ útskýrir Ása Dóra.
Margir áhættuþættir, meðgöngusjúkdómar og önnur vandamál aukast með hækkandi aldri og þungun með gjafaeggi er einnig viðbótaráhætta, en þetta voru allt þættir sem gátu hafa spilað inn í meðgöngu Ásu Dóru. Heppilega gekk allt vel enda var hún líkamlega og andlega undirbúin undir meðgönguna.
„Ég gerði bara það sem mér var sagt að gera. Fékk íslenskan fæðingarlækni til að aðstoða mig við að fá uppáskrifuð þau lyf sem ég þurfti á að halda og að komast í nauðsynlegar skoðanir,“ segir hún.
Eftir allt sem hún hafði upplifað – fósturmissi, fráfall maka síns og fleira, var bumbubúinn kærkomin gjöf sem fjölskylda og vinir samglöddust Ásu Dóru vel og innilega með þó svo að sumar vinkonur hennar á sama aldri tengdu ekki alveg við dugnaðinn. „Ég veit ekki annað en að þeim hafi litist vel á tæknifrjóvgunina en reyndar eru sumar vinkonurnar heldur hissa á að ég skuldi nenna þessu, en þær skilja mig þó,“ segir hún.
Ása Dóra er í félaginu Einstakar mæður en það er félagsskapur kvenna á öllum aldri sem hafa ákveðið að eignast börn á eigin vegu.
„Ég hef í raun ekki getað nýtt mér starfsemi félagsins ennþá, nægilega vel, þar sem ég er stödd í Borgarfirðinum og hefur mér þótt heldur krefjandi að fara með Jódísi Möggu til Reykjavíkur í „skrepp.“ Ég hef þó tvisvar mætt á hittinga á vegum félagsins sem hefur verið mjög gaman. Bara það að vita af konum í svipaðri stöðu hefur verið ómetanlegt og gott að vera hluti af samfélagi með þeim á Facebook,“ segir Ása Dóra um hinar einstöku mæðurnar.
Ása Dóra hefur til að mynda fundið mikilvægið í félagsskapnum í samtölunum. „Ég hef stundum staðið mig að því að finnast ég ekki eiga rétt á því að kvarta. Hvort sem það er undan þreytu, einmanaleika eða kvíða sem heltekur mig á tímum þegar mér finnst ég ekki vera að standa mig eins og ég vildi, sérstaklega af því að þetta er það sem ég valdi mér, það var mín ákvörðun að tækla þetta svona seint á lífsleiðinni,“ útskýrir hún.
„Samtölin við stelpurnar í félaginu hafa þó hjálpað mér að átta mig á því að ég má alveg blása, eins og aðrir foreldrar. Það er mikil og erfið vinna að ala upp börn en launin auðvitað frábær, þessi kríli gefa manni svo mikið,“ segir hún alsæl, einstæð móðir.