Hin tveggja ára gamla Embla Líf Gunnarsdóttir hefur að undanförnu slegið rækilega í gegn á samfélagsmiðlinum TikTok. Embla er dóttir hlaðvarpsdrottningarinnar Birtu Lífar Ólafsdóttur sem heldur úti hlaðvarpsþættinum Teboðinu ásamt Sunnevu Einarsdóttur.
Um miðjan maí byrjaði Birta að deila bráðfyndnum myndskeiðum með yfirskriftinni „Dagur í lífi Emblu“ á miðlinum. Fyrsta myndskeiðið vakti strax mikla lukku enda sprengdi Embla krúttskalann á meðan Birta las fyndinn texta frá sjónarhorni Emblu sem hitti beint í mark.
Fylgjendur Birtu voru hæstánægðir með myndskeiðið og vildu ólmir fá fleiri í svipuðum dúr, en þær Birta og Embla hafa þegar gert tvö myndskeið í viðbót og birt á miðlinum við frábærar undirtektir.