Breska leikkonan Emily Blunt greindi frá því í viðtali að hún vonaðist til þess að dætur hennar myndu ekki smitast af leiklistarbakteríunni og þar af leiðandi ekki feta í fótspor hennar þar sem kvikmyndaiðnaðurinn valdi konum oft á tíðum „miklum vonbrigðum.“
Leikkonan, sem er 40 ára, prýðir nýjustu forsíðu breska tímaritsins Harper's Bazaar og ræðir þar meðal annars um erfiðu hliðar kvikmyndaiðnaðarins, fjölskyldulífið og nýjasta hlutverk sitt í kvikmyndinni Oppenheimer. „Iðnaðurinn er mjög persónulegur, konur eru dæmdar af útlitinu og það oftar en karlmenn. Ég hef þurft að þola það,“ segir Blunt.
Blunt á tvær dætur með eiginmanni sínum, leikaranum John Krasinski.
Leikkonan er heimsþekkt fyrir hlutverk sín í kvikmyndum á borð við The Devil Wears Prada, A Quiet Place, Mary Poppins Returns og The Girl on the Train. Þrátt fyrir gríðarlega velgengni hennar í Hollywood segir Blunt það sem betur fer ekki hafa haft mikil áhrif á dætur hennar, Hazel, níu ára og Violet, sex ára.
„Þeim finnst þetta ekkert spennandi og tengja hvorugar við frægðina,“ segir hún. „Þegar þær sjá mig á auglýsingaskilti segja þær kannski: Ó, sjáðu, þarna er mamma og svo er það bara búið. Það sem þeim finnst spennandi er þegar ég sæki þær í skólann og þegar við förum saman í sund.“
Leikkonan segir einnig, þökk sé eigin reynslu, reyna að letja stúlkur frá leiklistarlífi í Hollywood. „Það krullast alveg upp á tærnar á mér þegar ég heyri fólk segja: Dóttir mín vill verða leikkona. Ég vil bara segja: Ekki gera það!“
„Þetta er ómögulegur iðnaður og hann veldur stöðugum vonbrigðum. Margir segja þér að taka hlutina ekki nærri þér – en það er ekki hægt, sérstaklega þegar þú ert dæmd eftir útlitinu. Þú verður að þola þá hlið til að vera starfandi leikkona,“ útskýrir Blunt.