Auðjöfurinn Elon Musk tók á móti sínu þriðja barni nýverið með fyrrverandi kærustu sinni, Grimes. Fyrir eiga þau soninn X Æ A-Xii og dótturina Exa Dark Sideræl.
Musk, sem er 52 ára, hefur eignast 11 börn með þremur konum frá árinu 2002, en fyrsta barn hans og fyrrverandi eiginkonu hans, Justine Wilson, lést aðeins tíu vikna gamalt.
Í væntanlegri ævisögu um auðjöfurinn, sem er skrifuð af blaðamanninum Walter Isaason, er sagt frá því að Musk og Grimes, sem heitir réttu nafni Claire Boucher, hafi tekið á móti sínu þriðja barni. Fyrrverandi parið eignaðist son samkvæmt því er kemur fram í bókinni og hlaut hann nafnið Techno Mechanicus, en foreldrarnir kalla drenginn „Tau“.
Óvíst er hvort Grimes hafi gengið með barnið eða hvenær það fæddist, en dóttir fyrrverandi parsins fæddist með aðstoð staðgöngumóður.