Snorri Másson, fjölmiðlamaður og hlaðvarpsstjórnandi, eignaðist soninn Má með unnustu sinni, Nadine Guðrúnu Yaghi, forstöðumanni hjá Play, í sumar. Fyrir átti Nadine soninn Theodór úr fyrra sambandi. Fjölskyldan dvelur nú í Hamborg í Þýskalandi þar sem Snorri sinnir föður hlutverk inu ásamt því að starfa tíma bundið hjá norðurþýska útvarp inu, NDR. Þar sinnir hann umfjöllun sem varðar Ísland eða Norðurlönd með ýmsum hætti.
„Það er frábært að framlengja sumarið með því að koma á meginlandið og það er gleðiefni að það hefur gengið framar vonum að skrölta af stað í þýskunni, en hana lærði ég líka þegar ég var í skiptinámi í Berlín í háskólanum,“ segir Snorri og segir það langþráðan draum að kynnast blaðamennskunni í sjálfri fjölmiðlahöfuðborginni Hamborg.
Lífið hefur að sögn Snorra breyst töluvert eftir að frumburðurinn kom í heiminn. „Ég var auðvitað kominn í stjúpföðurhlutverkið með tilheyrandi fjöri fyrir fæðingu Más en því verður ekki neitað að með þeirri fæðingu bætist ný vídd við þetta allt saman. Svona smábörn eru líka svo afskaplega bjargarlaus í byrjun. Ég held að engin dýrategund fæðist eins lítið þroskuð og maðurinn. Ég las í uppeldisbók hérna í Þýskalandi, þú sérð hvað ég er metnaðarfullur, að ef allt væri með felldu væru börnin geymd í móðurkviði í að minnsta kosti þrjá mánuði í viðbót. En manneskjan hefur víst ekki þróast alveg samkvæmt eðlilegum lögmálum. Mér skilst að mannshöfuð sé ofvaxið og þar með of stórt fyrir fæðingarveginn, þannig að það þarf að drífa þetta út áður en það er um seinan. Kannski er þetta reyndar upplýsingaóreiða en þá bara dílar Morgunblaðið við Fjölmiðlanefnd. Mannshöfuðið er að minnsta kosti nokkuð þungt – en samt skulum við standa uppréttir, eins og skáldið segir, og þetta brýni ég fyrir syni mínum. Ég er núna í stífum æfingum með Má að fá hann til að lyfta hausnum á maganum. Mér finnst það ekki ganga alveg nógu hratt og hann kvartar nokkuð.“
Ljúfustu stundir fjölskyldunnar segir Snorri að séu í rúminu á morgnana þegar þau Nadine eru með bæði börnin hjá sér og ekkert hangandi yfir sér.
„Það er fimm ára munur á strákunum en það breytir því ekki að þeir tala þegar töluvert saman. Töfrarnir í þessu eru að fylgjast með börnunum læra eitthvað nýtt og maður hugsar: Hvernig gerðist þetta og hvaðan kom þessi færni skyndilega? Eins og Már sem var að æpa á ljósakrónu í gær. Hver kenndi þér að æpa á ljósakrónu? Og að æpa yfirleitt? Jú, ég reyni ýmislegt en það ræður varla úrslitum. Það er eitthvað stærra og mikilfenglegra að verki, það er eins og menn hafi innbyggðan vilja til bætinga. Þetta gerist sjálfkrafa. Börnin verða sínar eigin sjálfstæðu einingar í veröldinni og bara keyra sitt prógramm. Hægt og rólega verður maður bara stuðningsmaður og verndari í stað þess að vera hinn alvitri guðlegi faðir, þótt það sé auðvitað góður titill. Maður á bara að hjálpa strákunum að gera það sem þeir vilja. Í þessu samhengi fer maður líka að hugsa, vá, hvað foreldrar mínir gengu í gegnum margt til að koma okkur til manns. Við vorum þrír bræður og slógumst töluvert. Í seinni tíð hefur mér verið sagt að fólk hafi kviðið því þegar það fréttist að við værum á leiðinni allir. Takk, mamma og pabbi, segir maður bara. Og allir hinir sem hjálpuðu manni að alast upp. Nú þyrfti ég að huga að því að reyna að tryggja að traust fólk í þorpinu standi með börnunum mínum, af því að eftir því sem maður verður eldri sér maður hvað það skiptir sköpum fyrir fólk að eiga góða verndara í lífinu.“
Hvað langar þig að leggja áherslu á í uppeldinu í framtíðinni?
„Í uppeldi hefur mér verið borið á brýn að leggja ofuráherslu á fræðslu. Kannski er það mín leið til að tjá föðurástina. Það er bara svo gaman að ræða alvörumál við börn. Sjónarhorn þeirra er svo fallega tært og að mestu ómengað af hugmyndafræðilegum stjórntækjum ríkisvaldsins, eins og síðar verður. Mér finnst mjög gaman að tala við Theódór stjúpson minn sem er fimm ára í hálfgerðum kansellístíl og bulla í honum með flóknum orðum eða jafnvel orðum sem eru ekki til. Hann getur greint vel á milli. Sum orðin tileinkar hann sér eftir föngum og með misjöfnum árangri. En hann er einkar mælskur og áhugasamur um tungumálið. Máltaka er undur. Og talandi um það, þá talar hann eiginlega enga ensku sem ég er mjög ánægður með að svo komnu máli og þar held ég að YouTube-leysi sé lykilþáttur. Skrýtið! YouTube er víst bara alveg bannað nákvæmlega þar sem við búum í Vesturbænum.
Theodór lærir auðvitað ensku þegar fram í sækir, en íslenska er aðalmálið og það þarf að leggja traustan grunn áður en yfirgengileg tækjanotkun verður óhjákvæmileg með aldrinum. Foreldrar geta vel stýrt aðgengi smábarna að óuppbyggilegu og ömurlegu enskurugli á netinu og eiginlega forkastanlegt þegar fólk lætur eins og það sé óvinnandi vegur. Nefni hér reyndar einn helsta vandann líka, sem er grátlegt getuleysi stjórnvalda til að stemma stigu við yfirgangi erlendra samfélagsmiðla. Stefnumótun eða lagasetningu strax! Og jafna stöðu innlendra miðla við erlenda, svo að þegar komið er í heim tækjanna þá sé íslenska alls staðar í boði.“
Snorri segir að Nadine hafi eðli máls samkvæmt borið hitann og þungann af meðgöngunni en hann gerði það sem hann gat.
„Meðgangan var misskemmtileg eftir tímabilum, verð ég að segja. Hvernig á karlmaður að laga morgunógleði með öðru en bara meira ristuðu brauði? Hvað ef brauðið er ekki nóg? Ég reyndi bara að standa mína plikt sem auðsveipur þjónn yfirvalds míns. Það er auðvitað alveg yfirgengilega mikið á konur lagt að ganga í gegnum þetta. Eini vandinn fyrir mér var hvað þetta leið óendanlega hægt. Ég gat ekki beðið og stundaði framsækna talnaleikfimi daginn inn og út til að sefja mig í biðinni og dáleiða sjálfan mig. Það voru einhvern veginn alltaf um það bil tveir mánuðir í þetta. Loks gerist þetta þó og þá er biðin gleymd. Ótrúlegt. Nú hef ég að vísu aukna samúð með vinum mínum sem bíða barna á lokametrunum. Vel að merkja: Hugsaðu þér dugnaðinn. Ef ég afmarka þetta svo, án þess að móðga aðra vini, að ég sé í litlum sjö manna kjarnavinahóp, eru fjórir af þeim að reiða fram börn innan eins árs. Fjórir af sjö með börn! Erum allir 25-26 ára. Þetta er sagt ungt nú um mundir, en mér finnst endilega að þetta sé passandi aldur. Eftir hverju eru menn að bíða? Fólki hefur verið talin trú um að störf sem felast einkum í að senda og svara tölvupóstum muni gera það hamingjusamt en það mun vera rangt,“ segir Snorri.
„Það sem ég held að margir upplifi, og ég er þar með talinn, í sambandi við tilvonandi barneign er ákveðin heildarendurskoðun á grundvallarþáttum lífsins. Ætli það sé ekki ástæða þess að vinnumarkaðurinn hatar barneignir og segir helsta frelsið fólgið í að vinna bara sem mest og eiga engin börn. Ég hætti í vinnunni minni og fór að vilja stýra mínu eigin lífi og byggja upp mitt eigið dæmi og svo heyrir maður af alls konar fólki sem vill með svipuðum hætti kollvarpa öllu í tengslum við barneignir. Maður öðlast enda nýtt sjónarhorn og er tilneyddur til að hugsa hlutina til aðeins lengri tíma. Það hljómar eins og valdeflandi tími hjá markþjálfa, en er í raun alls ekki ánægjulegt, heldur bara nokkuð pirrandi. Maður vill ekki hugsa á hverjum degi hvað í ósköpunum maður er að gera við líf sitt. Það er ósjálfbært, en sem betur fer hefur þetta skýrst hjá mér.“
Snorri segir foreldra hornreka í íslenskum stjórnmálum. Ein hugmynd sé að börn væru látin öðlast kosningarétt við fæðingu en foreldrar væru með umboð fyrir þau upp að ákveðnum aldri. „Þetta myndi færa þeim afskipta hópi foreldrum aukin völd, hreinlega aukinn atkvæðisrétt, til þess að hafa áhrif á sinnulausa stjórnmálamenn sem í engu hirða um stöðu foreldra. Eitthvað þarf alla vega að koma til. Fæðingartíðni hefur hrunið á Íslandi og það er ekkert grín ef það heldur áfram. En skal einhvern undra? Menn eru að þræla á vinnumarkaði og svo ef þeir ætla að bregða sér í fæðingarorlof – að horfa aðeins í augun á barninu sínu eins og sagt er – þá er hámarksgreiðslan þar 600 þúsund á mánuði, hefur ekki verið hækkuð í fjögur ár. Margir fá minna. Ætlarðu að borga leigu með því eða tólf prósenta vexti á tugmilljóna króna láni? Þarf ekki einhverja vakningu hér?“ spyr Snorri að lokum.