„Við grínumst oft með að við séum undirmannaðar“

Eydís Ýr Jónsdóttir, Rakel Jana Arnfjörð og Andrea Ósk Þorkelsdóttir …
Eydís Ýr Jónsdóttir, Rakel Jana Arnfjörð og Andrea Ósk Þorkelsdóttir ásamt börnunum sínum.

Þær Eydís Ýr Jónsdóttir, Rakel Jana Arnfjörð og Andrea Ósk Þorkelsdóttir eiga samtals níu börn á leikskólaaldri og eiga allar tvíbura sem eru eins og hálfs árs gamlir. Þær ákváðu nýverið að fara af stað með hlaðvarpið Undirmannaðar og vona með því að geta veitt öðrum fjölburaforeldrum stuðning, fræðslu og skemmtun.

Eydís Ýr er lögfræðingur og á tvíburastrákana Óskar og Erni og þriggja og hálfs árs gömlu Heru. Rakel er verkefnastjóri hjá markaðsstofu og á tvíburastelpurnar Móheiði og Viktoríu og fjögurra ára gamla Benedikt. Andrea Ósk starfar sem verkefnastjóri í félagsmiðstöð og á tvíburastrákana Erni og Alex og fimm ára gamla Elmar.

Þakklátar fyrir vinskapinn og stuðninginn

Eydís og Rakel kynntust á meðgöngunni, en Andrea bættist svo fljótlega í hópinn þegar þær stofnuðu tvíburamömmuhóp. „Það var magnað hvað við vorum fljótar að tengjast og urðum nánar vinkonur. Við erum allar mjög þakklátar fyrir vinskapinn og stuðninginn sem við höfum fengið frá hver annarri,“ segja þær.

Eydís Ýr, Andrea Ósk og Rakel Jana hafa þegar gefið …
Eydís Ýr, Andrea Ósk og Rakel Jana hafa þegar gefið út sex hlaðvarpsþætti í fyrstu seríunni.

Hvernig var upplifunin að komast að því að eiga von á tvíburum?

„Upplifun okkar allra hefur líklega verið mjög svipuð, en það var mikið sjokk að komast að því að við værum óléttar af tvíburum. Við vorum á leiðinni í allt annan pakka en við áttum von á og margar tilfinningar sem komu upp við fréttirnar, meðal annars sú tilfinning að stjórna ekki almennilega ferðinni.“

Af hverju ákváðuð þið að byrja með hlaðvarp?

„Hugmyndin kom fyrst skömmu eftir að tvíburarnir okkar fæddust, en við vorum of uppteknar og svefnvana til að fara af stað þá. Við vorum síðan búnar að ræða þetta þó nokkrum sinnum í orlofinu og ákváðum loksins að slá til og vorum mættar upp í stúdíóið í upptökur viku seinna.“

Hver er sagan á bakvið nafnið?

„Við grínumst mjög oft með að við séum undirmannaðar og okkur fannst það svo lýsandi fyrir okkur, þrjár mömmur með níu börn á leikskólaaldri.“

Hvernig var ferlið að fara af stað með hlaðvarp?

„Þetta er töluverð vinna, sérstaklega þar sem við viljum gera þetta vel. Við erum allar að gera þetta samhliða fullu starfi ásamt því að sinna fjölskyldu, maka, andlegri og líkamlegri heilsu, heimili og félagslífi.

Það hefur verið frekar þétt dagskrá hjá okkur og við höfum unnið linnulaust við að koma hlaðvarpinu af stað og kynna það. Þetta krefst skipulags og samvinnu, og við erum allar með góðan stuðning frá mökunum okkar.“

Hverju má fólk búast við í hlaðvarpinu ykkar?

„Við ætlum að einblína svolítið á fjölbura í fyrstu seríu, miðla reynslu, upplýsingum og vera stuðningur fyrir fjölburaforeldra. Þar að auki ætlum við að fá til okkar skemmtilega og spennandi gesti, og reyna að taka lífinu ekki of alvarlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda