Ferðaljósmyndarinn Ása Steinarsdóttir og eiginmaður hennar Leo Alsved deildu miklum gleðifréttum með fylgjendum sínum á Instagram í dag, en þau festu nýverið kaup á sjarmerandi húsi í Svíþjóð.
„Spennandi fréttir: Við keyptum okkur hús!! Við erum formlega húseigendur í Svíþjóð! Eftir heimsókn til Svíþjóðar í vor tókum við frekar hvatvísa ákvörðun – við keyptum okkur hús!“ skrifaði Ása við fallegt myndskeið af fjölskyldunni að taka fyrstu skrefin að nýja húsinu í Svíþjóð.
Í færslunni útskýrir Ása að þar sem Leo sé frá Svíþjóð hafi þau verið með annan fótinn á Íslandi og hinn í Svíþjóð. Undanfarin ár hafa fylgjendur hennar fylgst með ævintýrum fjölskyldunnar á Íslandi en hún segist vera spennt fyrir ævintýrum þeirra í Svíþjóð líka.
„Þessi ákvörðun þýðir þó ekki að kafla okkar á Íslandi ljúki heldur markar hún frekar upphafið á spennandi lífi þar sem við flökkum á milli uppáhaldslandanna okkar tveggja. Við viljum dýpka tengsl okkar við Svíþjóð þar sem við eigum frábæra fjölskyldu og vini hér! Besti hlutinn er að við höldum heimili okkar á Íslandi sem gerir okkur kleift að njóta þess besta sem bæði löndin hafa upp á að bjóða,“ bætti hún við.
Ása segir nýja húsið þarfnast talsverðrar yfirhalningar og því séu nóg af framkvæmdum framundan hjá fjölskyldunni.