Allan Sigurðsson, leikstjóri hjá Atlavík, segist vera umhyggjusamur faðir, vansvefta en þó alltaf í stemningu. Allan og sambýliskona hans, Anna Guðbjörg Hólm, eiga saman drengina Samúel þriggja ára og Sigurð fimm mánaða.
Hvernig hefur lífið breyst eftir að þú varðst faðir?
„Lífið varð fallegra eftir að ég varð faðir. Ný falleg augnablik á hverjum degi,“ segir Allan.
Hvað er það besta við föðurhlutverkið?
„Það er öll þessi ást og allt knúsið, krúttið og kjassið.“
En hefur eitthvað verið krefjandi?
„Það sem mér finnst mest krefjandi er að tvinna saman langar vinnutarnir við fjölskyldulífið. Einnig er svefnleysið oft erfitt.“
Finnst þér munur að eiga eitt barn og tvö börn?
„Já, það er mikill munur á því að eiga eitt barn eða tvö. Það er maður á mann þegar maður er með tvö börn. Það hefur verið ansi mikil vinna sem gefur lífinu vissulega lit og það er fátt fallegra en að sjá tengslin milli þeirra myndast.“
Er eitthvað sem þú tekur með þér úr eigin æsku sem þér finnst mikilvægt að börnin þín alist upp við?
„Ég fékk mikla hlýju og ást. Foreldrar mínir studdu mig í öllum mínum áhugamálum sem ég kann virkilega að meta. Ég mun gera það sama fyrir mín börn.“
Leggur þú mikið upp úr því að börnin þín alist upp við góðan kvikmyndasmekk?
„Nei, ekki eins og er. Yngri fær ekki að horfa á sjónvarp strax. En sá eldri fær að horfa á vel valið barnaefni. Ég stefni svo á að kynna þeim gott efni þegar þeir hafa aldur til eins og Terminator 2 og Wayne's World 2.“
Hvenær á fjölskyldan sínar gæðastundir?
„Gæðastundir eru um helgar, þá reynum við að eyða sem mestum tíma saman. Einnig er kvöldmatartíminn frekar heilagur þar sem mörg augnablikin eru skemmtileg. Við höfum líka átt margar dýrmætar stundir saman á ferðalögum.“
Ertu með gott uppeldisráð?
„Halda rútínu, góðri stemningu og faðma þau á hverjum degi.“