Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda mbl.is um allt sem tengist meðgöngu og fæðingu. Hér svarar hún spurningu frá móður sem fékk mænudeyfingu og vill helst sleppa því. Hafa konur val?
Hæ ljósmæður
Ég er með eina spurningu. Ég fékk mænudeyfingu í síðustu fæðingu sem virkaði svo illa og það var svo ótrúlega vont, svekkjandi og erfitt. Hvað mælið þið með að gera ef maður vill helst sleppa við deyfingu en samt eiga möguleika á henni?
Kv. H.
Sæl H og til hamingju með þungunina.
Til að byrja með að þá eru miklar líkur á því að fæðing númer tvö taki mun styttri tíma heldur en fyrsta fæðing og oft er það því þannig að ekki gefst tími fyrir deyfingu eða ekki er þörf á henni. Til eru ýmsar aðrar verkjameðferðir sem geta hjálpað og væri gott fyrir þig að kynna þér þær. Oft er farið vel yfir þessi bjargráð á fæðingarfræðslunámskeiðum.
Það sem getur hjálpað er bað, glaðloft, nálastungur og vatnsbólur. Þetta eru allt aðferðir sem hjálpa í fæðingu og eru án aukaverkana. Það kemur þó fyrir að stundum verður konum óglatt af glaðloftinu en þá er hægt að lækka styrk glaðloftsins.
Ég hvet þig til að prófa það því það getur komið þér í gegnum fæðinguna. Þær konur sem ná takti með glaðloftið vilja helst ekki sleppa því. Það sem skiptir líka miklu máli er öndun og slökun og eru ýmsar aðferðir til sem leggja áherslu á það eins og jóga og hypnobirth. Ef þú ert á því að fá deyfingu þá getur verið gott fyrir þig að ræða það við ljósmóður þína í mæðravernd. Ef það er eitthvað í þinni heilsufarssögu sem getur haft áhrif á að deyfing takist vel, eins og áverkar á baki, þá getur ljósmóðir þín aðstoðað þig við að fá viðtal við svæfingarlækni þannig að þú sért þá betur undirbúin.
Gangi þér sem allra best.
Hildur Sólveig, ljósmóðir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent ljósmæðrunum spurningu HÉR.