„Heimurinn hreinlega hrundi við þessar fregnir“

Gréta Rut Bjarnadóttir og Ragnar Bragi Sveinsson misstu frumburð sinn …
Gréta Rut Bjarnadóttir og Ragnar Bragi Sveinsson misstu frumburð sinn árið 2018. Samsett mynd

„Heimurinn hreinlega hrundi við þessar fregnir,“ segir Gréta Rut Bjarnadóttir, en henni var tilkynnt á 29. viku meðgöngu með fyrsta barn hennar, að það væri látið í móðurkviði. Hún fæddi andvana dreng einum degi eftir tíðindin með sambýlismann sinn, Ragnar Braga Sveinsson, sér við hlið. Sonur parsins hlaut nafnið Hinrik Leó. 

Í kjölfar missisins kynntust þau styrktarfélaginu Gleym mér ei, en það styður við foreldra og fjölskyldur sem missa barn á meðgöngu og í eða eftir fæðingu. Aðspurð segir hún að styrktarfélagið hafi hjálpað þeim í gegnum þennan erfiða tíma og kennt þeim að varðveita minningu sonar þeirra. Gréta Rut hefur starfað reglulega með og fyrir Gleym mér ei síðastliðin ár og ætlar nú ásamt fleirum að spila skotbolta á íþróttamóti laugardaginn 11. nóvember og mun allur ágóði renna til styrktarfélagsins. 

„Það fannst enginn hjartsláttur“

„Við kynntumst samtökunum 25. október 2018. Á þeim tíma áttum við von á okkar fyrsta barni, full tilhlökkunar og tilbúin að takast á við foreldrahlutverkið. Meðgangan hafði gengið vel fram að 20 vikna sónar en þá kom í ljós að Hinrik Leó var ekki að stækka og mældist hann þremur vikum á eftir í stærð,“ segir Gréta Rut, en á 20. viku meðgöngu tóku við miklir óvissutímar og margar ferðir á kvennadeild Landspítalans.

Parið gat ekki beðið eftir að verða foreldrar.
Parið gat ekki beðið eftir að verða foreldrar. Ljósmynd/Gréta Rut Bjarnadóttir

„24. október fór ég í sónarskoðun, sem reyndist sú síðasta á þessari meðgöngu, en við skoðunina fannst enginn hjartsláttur hjá barninu. Ég var send heim þar sem ég beið frekari upplýsinga frá fæðingardeild,“ segir hún. „Ég mætti daginn eftir og fæddi andvana son okkar í hálfgerðu móki.“

Ómetanlegur stuðningur Gleym mér ei

Það var ljósmóðir sem fylgdi Grétu Rut og Ragnari Braga í gegnum fæðingardaginn og afhenti þeim Gleym mér ei minningarkassann fyrir sjálfa fæðinguna, en þeir sem upplifa slíkan missi fá dýrmæta gjöf frá félaginu sem Gréta Rut segir ómetanlegan stuðning.

„Sjálf pældi ég ekkert í því hvernig ég gæti varðveitt minninguna um dána barnið mitt. Minningarkassinn gaf okkur Ragnari Braga ótal hugmyndir og fallega samverustund fyrir fæðinguna,“ segir hún. Í minningarkassanum frá Gleym mér ei má finna armbönd, box undir hárlokk, bók, kertastjaka, bangsa og fleira fallegt.

Hinrik Leó kom í heiminn klukkan 14.50 hinn 25. október 2018. „Við fengum 24 klukkustundir með syni okkar þökk sé Gleym mér ei,“ segir Gréta Rut, en styrktarfélagið færði kvenna- og barnasviði Landspítalans kælivöggu með tilheyrandi búnaði sem veitir foreldrum lengri tíma með barninu sínu. 

Gréta Rut er óendanlega þakklát starfi Gleym mér ei.
Gréta Rut er óendanlega þakklát starfi Gleym mér ei. Ljósmynd/Gréta Rut Bjarnadóttir

Fjáröflun mikilvæg

Aðspurð segir Gréta Rut mikilvægt að styrkja starfsemi félagsins til að halda þessari mikilvægu vinnu gangandi, en í gegnum árin hefur Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka reynst mikilvægur þáttur í fjáröflun Gleym mér ei.

„Ég hef alltaf hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu og mun aldrei hætta því, en nú ætlum við að prófa eitthvað nýtt. Við erum nokkur skot- og brenniboltalið sem stöndum fyrir styrktarmóti á laugardag, en mótið verður haldið í Norðlingaskóla og ég lofa mikilli hreyfingu og fjöri.“

Gréta Rut og Ragnar Bragi hlaupa í minningu sonar síns …
Gréta Rut og Ragnar Bragi hlaupa í minningu sonar síns á hverju ári. Ljósmynd/Gréta Rut Bjarnadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda