Mæður luma oftar en ekki á góðum og hagnýtum ráðum. Facebook-hópurinn Mæðra tips sem samanstendur af mæðrum á öllum aldri er því uppfullur af góðum ráðum.
Nýverið deildi ein þeirra sniðugu ráði sem aðstoðar fjölskyldur við að koma skipulagi á leikföng barna sinna og kennir þeim einnig að gefa til þeirra sem minna mega sín. Ráðið er einfalt og fallegt góðverk sem gleður.
Það gengur þannig fyrir sig að börnin á heimilinu fylla poka og eða kassa af leikföngum, það er hlutum sem þau eru hætt að leika sér með. Það má að sjálfsögðu setja fatnað og fleira nýtilegt með. Þegar pokarnir/kassarnir eru fullir þá flytja börnin þá undir jólatréð. Þangað verða þeir sóttir af hjálplegum jólasveinum sem fara og finna ný heimili fyrir leikföngin.
Þetta hjálpar foreldrum að minnka óreiðuna á jákvæðan máta, kennir börnum um mikilvægi þess að gefa og kyndir undir jólastemningunni.