70 ára gömul kona fæddi tvíbura í höfuðborg Úganda á miðvikudag, samkvæmt tilkynningu frá Women's Hospital International and Fertility Center þar í landi. Konan, Safina Namukwaya, varð barnshafandi í kjölfar glasafrjóvgunar og eignaðist tvö heilbrigð börn, dreng og stúlku, með hjálp tækninnar. Börnin voru tekin með keisaraskurði.
Namukwaya, sem er með elstu konum í heimi til að eignast barn, sagði fjölmiðlum þar í landi að þetta væri „sannkallað kraftaverk.“
Sjúkrahúsið birti færslu á Facebook-síðu sinni skömmu eftir fæðinguna og óskaði nýbökuðu móðurinni innilega til hamingju ásamt því að tilkynna um þetta ótrúlega afrek.