Meðlimir strákabandsins IceGuys hafa tekið yfir kennarastofu í Dalskóla í Úlfarsárdal. Þar hafa kennarar á miðstigi tjaldað öllu til og skreytt stofuna hátt og lágt í IceGuys-þema fyrir jólin.
Á hverju ári er haldin keppni í Dalskóla þar sem kennarar á mismunandi kennslustigum keppast við að skreyta kennarastofur sínar sem best fyrir jólin. Blaðamaður mbl.is sló á þráðinn hjá kennara á miðstigi í Dalskóla sem segir hugmyndina að þemanu hafa kviknað eftir spjall á kaffistofunni um samnefnda þætti.
„Heyrðu það var þannig að við byrjuðum bara á kaffistofunni að spjalla um IceGuys-þættina. Daginn eftir var einn kennarinn sem setti mynd af meðlimi IceGuys á vegginn hjá öðrum kennara og svo daginn eftir það þá fórum við að spjalla um hvernig þema við vildum hafa inni á vinnustofunni okkar. Þá kom þessi IceGuys-hugmynd, þetta gallabuxna-þema,“ segir kennarinn.
Eins og sjá má fóru kennararnir alla leið með þemað og bjuggu til hinar ýmsu skreytingar í IceGuys-þema – allt frá fullvaxta gínum af meðlimum strákabandsins yfir í hreindýr í sérsniðnum gallabuxum.
Öll vinnan á bak við skreytingarnar skilaði sér svo sannarlega þegar kennararnir sigruðu keppnina með stæl.