Fékk pössun fyrir dæturnar í jólagjöf

Þorbjörg Sandra Bakke er snillingur í öðruvísi jólagjöfum.
Þorbjörg Sandra Bakke er snillingur í öðruvísi jólagjöfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorbjörg Sandra Bakke, teymisstjóri í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, er snillingur í að gefa persónulegar og einstakar gjafir. Sjálfri finnst henni slíkar gjafir skemmtilegastar. Með gjöfunum dregur Þorbjörg líka úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

„Ég reyni alltaf að vera svolítið sniðug og hugsa eitthvað út frá einmitt þeirri manneskju sem gjöfin tilheyrir. Skemmtilegast finnst mér að föndra eitthvað úr því sem fellur til á heimilinu eða gefa upplifanir og þá er um að gera að fara á smá hugarflug út frá því hver það er sem þiggur gjöfina. Annars spyr ég mig hvort það sé eitthvað sérstakt sem manneskjuna raunverulega vantar og hvort það fáist þá kannski umhverfisvottað eða notað. Ef hana vantar ekkert getur verið gaman að gefa matvöru sem ég veit að hittir í mark en annars er líka alltaf gott í hjartað að gefa til góðgerðarmála í nafni þiggjandans,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg Sandra Bakke og fjölskylda leggja sig fram við að …
Þorbjörg Sandra Bakke og fjölskylda leggja sig fram við að gefa skemmtilegar og frumlegar jólagjafir. Dæturnar á heimilinu fá sína pakka eins og flest önnur börn á þeirra aldri.

Fátt sem toppar samverustundir

Þorbjörg segir hægt að fara óteljandi leiðir í að hanna upplifunargjafir. Slíkar gjafir geta verið allt frá því að vera rándýrar yfir í það að kosta ekkert nema tíma. „Að mínu mati er ekkert dýrmætara en að fá tíma með fólkinu sínu svo þær gjafir eru í uppáhaldi. Spilakvöld með góðum vinum, kvöldgöngutúr með frænku eða lagstúfur í flutningi bróður míns myndu til dæmis gleðja mig mikið!“

Frændsystkini og fjölskyldur fengu keiluferð í jólagjöf.
Frændsystkini og fjölskyldur fengu keiluferð í jólagjöf.

Hvaða gjafir standa upp úr sem þú hefur gefið?

„Ég hef oft gefið boð í þematengdan hádegisverð eða bröns. Til dæmis gaf ég vinkonu minni svokallaðan dívubröns í fyrra en hún er söngkona svo við stríðum henni stundum með því að hún megi vera með meiri dívustæla. Í dívubrönsinum lögðu allir eitthvað gott á borð, við vorum klædd í okkar túlkun af dívufatnaði og hlustuðum á tónlist eftir helstu dívurnar úr tónlistarheiminum eins og Beyoncé og Madonnu.

Annars höfum við líka gefið bíóbröns til barnafólks í fjölskyldunni þar sem við borðum góðan mat en horfum svo á skemmtilega mynd saman í stofunni einhvern óveðursdaginn. Mamma mín fékk einu sinni frá mér fjallgöngu með lúxusnesti enda algjör fjallageit og yngsta kynslóðin í fjölskyldunni hefur fengið alls konar skemmtilegar upplifanir undanfarin ár eins og keiluferð, bíóferð og þremenningapartí.“

Þorbjörg gaf vinkonu sinni dívubröns sem heppnaðist mjög vel.
Þorbjörg gaf vinkonu sinni dívubröns sem heppnaðist mjög vel.

Minnkar stressið

Eru pakkar undir trénu ykkar?

„Dætur mínar elska að fá pakka! Þannig að undir trénu okkar er nóg af þeim. Skemmtilegast er ef búið er að föndra innpökkunarpappír úr dagblöðum, gömlum kórnótum eða einhverju fallegu sem var á leiðinni í endurvinnslutunnuna. Það er liður í jólaundirbúningnum hjá okkur að föndra svoleiðis með stelpunum svo úr því verður mjög hugguleg stund.

Þær eru eins og við foreldrarnir mjög hrifnar af því að fá upplifunargjafir en eins og önnur börn hafa þær tekið ýmis æði eins og til dæmis hvolpasveitaræði, duplo-æði eða búningaæði og þá hefur verið auðvelt að finna þetta notað í loppunum, á vefnum eða Góða hirðinum. Svo fá þær alveg stundum nýtt dót, en við höfum fengið að hafa skoðanir á því hvað fólkið í kringum okkur gefur þeim svo það sé alveg örugglega eitthvað sem þær munu nota, sé vandað, hafi sem minnst af neikvæðum umhverfisáhrifum í för með sér og innihaldi engin skaðleg efni.“

Þorbjörg með móður sinni í fjallgöngu. Hún gaf henni einmitt …
Þorbjörg með móður sinni í fjallgöngu. Hún gaf henni einmitt fjallgöngu í jólagjöf eitt árið.

Hvað er eftirminnilegasta gjöf sem þú hefur fengið?

„Foreldrar mínir, sem eru löngu búin að læra inn á mína línu í gjöfum, hafa hitt í mark undanfarin ár og í miklu uppáhaldi er þegar þau gáfu mér pössun fyrir dæturnar alla miðvikudaga heilan vetur. Þessa daga nýttum við hjónin til þess að gera alls konar skemmtilegt saman og rækta bæði sambandið og heilsuna, hreyfa okkur og gera eitthvað huggulegt. Svo gáfu þau mér eitt sinn nagladekk undir hjólið mitt sem þau voru búin að hlera manninn minn um að mig vantaði en það er gjöf sem gerir mér kleift að hjóla í vinnuna nánast alla daga en bæði andleg og líkamleg heilsa hafa eflst mikið við það! Svo hefur mér þótt mjög gaman að fá góðar og notaðar bækur þar sem meðmæli og kannski boð um smá spjall um bókina fylgja. Dýpkar lesturinn og gerir bókina enn betri.“

Minnkar þetta stressið í desember, eða er þetta kannski öðruvísi stress?

„Það minnkar stressið mikið að gefa upplifunargjafir eða til góðgerðarmála því oft er hægt að panta gjafakort á netinu og prenta út. Ef maður hannar upplifunargjöfina sjálfur eins og við gerðum með brönsana og lúxusfjallgönguna er bara að græja skemmtilegt kort og það er þá bara önnur kósí jólaföndurstund heima við þar sem við hlustum á jólalög og nörtum kannski í smákökur,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg með fjölskyldunni á jólunum.
Þorbjörg með fjölskyldunni á jólunum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda