Coco Austin, glamúrfyrirsæta og eiginkona rapparans Ice-T, tókst enn á ný að koma sér í vandræði í netheimum. Austin, sem byrjaði að framleiða og selja efni á OnlyFans á síðasta ári, hefur reglulega fengið mikil viðbrögð og oftar en ekki neikvæð fyrir það myndefni sem hún kýs að birta af sér og ungri dóttur hennar og Ice-T, sem margir þekkja úr Law & Order: SVU, á samfélagsmiðlum.
Á dögunum birti Austin myndskeið af dóttur hjónanna, hinni sjö ára gömlu Chanel. Myndskeiðið sýnir stúlkuna spila einn vinsælasta drykkjuleik allra tíma „beer pong“, sem flestir 18 ára og eldri kannast eflaust við.
Fylgjendur Austin og Ice-T skrifuðu margir athugasemdir við Instagram-færsluna og þrátt fyrir að stúlkan hafi ekki bragðað á bjór þá fannst flestum þetta óviðeigandi leikur fyrir sjö ára gamalt barn.
Austin er iðin við að birta myndefni af þeim mæðgum á samfélagsmiðlum og var hún á síðasta ári gagnrýnd fyrir að birta myndskeið sem sýnir þær dansa mjög ögrandi spor og einnig myndir af þeim í sams konar sundfatnaði.