„Það helltust yfir mig einhverjar óútskýranlegar tilfinningar“

Rúna Tómasdóttir ólst upp í kringum hesta og dýr, en …
Rúna Tómasdóttir ólst upp í kringum hesta og dýr, en í dag er hún orðin móðir og leggur áhersla á að dóttir hennar fái líka að alast upp í kringum dúrin. Samsett mynd

Rúna Tómasdóttir ólst upp í kringum hesta og dýr, en hún var aðeins fjögurra ára gömul þegar hún keppti á sínu fyrsta hestamóti og hefur síðan þá unnið til fjölda verðlauna í íþróttinni. Í dag er Rúna orðin móðir og leggur áherslu á að dóttir hennar, Hrafntinna Rún, fái líka að alast upp í kringum dýrin.

Rúna kemur úr mikilli hestafjölskyldu. Foreldrar hennar þau Þóra Þrastardóttir og Tómas Ragnarsson heitinn stofnuðu Reiðskólann Faxaból árið 2000 og voru margir sem stigu sín fyrstu skref í hestamennsku undir þeirra handleiðslu. 

Rúna kemur úr mikilli hestafjölskyldu.
Rúna kemur úr mikilli hestafjölskyldu.

Í dag stundar Rúna nám í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði við Háskólann á Akureyri, en síðasta vor lauk hún námi í stafrænni markaðssetningu hjá Sahara Academy og segir áhugasvið sitt án efa liggja þar. Samhliða náminu vinnur Rúna við hestamennsku. 

Mikil gleði og hamingja í bland við smá hræðslu

Rúna var 18 ára gömul þegar hún kynntist unnusta sínum Skúla E. Kristjánssyni Sigurz í gegnum sameiginlega vini árið 2017. Þau komust svo að því að Rúna væri ófrísk árið 2020 og eignuðust dóttur í byrjun febrúar 2021. Á heimilinu eru einnig tveir hundar, þau Aldo og Aría, og svo eru Rúna og fjölskylda hennar einnig með hesthús með fullt af hestum ásamt tveimur kisum. 

Rúna og Skúli kynntust í gegnum sameiginlega vini árið 2017.
Rúna og Skúli kynntust í gegnum sameiginlega vini árið 2017.

„Það helltust yfir mig einhverjar óútskýranlegar tilfinningar þegar við komumst að því að ég væri ófrísk. Það var mikil gleði og hamingja í bland við pínu hræðslu og hugsunina um hvað myndi gerast næst. Við vorum bæði tiltölulega ung, en ég var 21 árs þegar ég komst að því að við ættum von á barni, og bjuggum saman í stúdíóíbúð í bílskúrnum hjá mömmu minni með Aríu hundinn okkar. Þannig þetta voru ansi óvæntar en alveg svakalega velkomnar fréttir,“ segir hún. 

Að sögn Rúnu gekk meðgangan heilt yfir mjög vel þrátt fyrir að hafa upplifað einhver óþægindi eins og ógleði og mikla þreytu. „Fyrstu vikurnar voru erfiðar útaf ógleði en hún var farin í kringum tíundu til tólftu viku. Þá tók hins vegar þessi endalausa þreyta við, en ég get lítið kvartað þar sem allt gekk bara vonum framar,“ segir hún. 

Rúna segir að heilt yfir hafi meðgangan gengið vel þrátt …
Rúna segir að heilt yfir hafi meðgangan gengið vel þrátt fyrir að hafa upplifað ógleði og mikla þreytu.

„Guð minn góður hvað þetta var erfitt“

Þann 1. febrúar 2021 kom Hrafntinna í heiminn eftir langa fæðingu. „Fæðingin gekk vel en tók langan tíma og guð minn góður hvað þetta var erfitt. Þetta var á þessum Covid-tíma þar sem makar máttu ekki vera viðstaddir nema þegar maður var kominn með eitthvað ákveðið mikið í útvíkkun. Ég reyndi þar af leiðandi að tóra eins lengi heima og ég mögulega gat því ég ætlaði heldur betur ekki að hanga ein á spítalanum ef ég þyrfti þess ekki. Í heildina tók þetta um 17 til 18 klukkustundir áður en litla daman kom í heiminn,“ segir hún. 

Rúna segir lífið hafa gjörbreyst eftir að hún varð móðir og kann afar vel við sig í móðurhlutverkinu. „Forgangsröðunin verður bara allt önnur og ég fann hvað mér var alveg sama um allt annað en þessa litlu stelpu sem ég var komin með í fangið, það skipti mig í raun ekkert annað máli,“ segir hún. 

„Ég elska móðurhlutverkið, eins krefjandi og það er á tímum. Ég hef alltaf verið dugleg að láta það ekki stoppa mig í að vera ennþá bara ég og hún fylgir mér flest allt sem ég fer. Það er bara svo miklu skemmtilegra að ganga í gegnum lífið með henni,“ bætir hún við. 

Rúna segir lífið hafa gjörbreyst eftir að hún fékk Hrafntinnu …
Rúna segir lífið hafa gjörbreyst eftir að hún fékk Hrafntinnu í fangið þann 1. febrúar 2021.

Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart varðandi móðurhlutverkið segir Rúna að það sé hvað tíminn er svakalega fljótur að líða. „Mér líður alltaf eins og ég hafi fengið hana í fangið í gær en ekki fyrir þremur árum síðan. Það var alltaf sagt við mann að njóta eins mikið og maður getur því þau stækka svo hratt og það er svo sannarlega satt!“ segir hún. 

Í uppeldinu leggur Rúna mikla áherslu á að eiga góð samskipti við dóttur sína og vill að hún alist upp í jákvæðu og heilbrigðu umhverfi. „Ég hef alltaf hugsað að ég vilji að hún geti sagt að hún hafi fengið gott uppeldi og muni eftir æsku sinni á jákvæðan og fallegan hátt og held áfram að leggja áherslu á það svo lengi sem ég get,“ segir hún. 

Rúna vill að Hrafntinna alist upp í jákvæðu og heilbrigðu …
Rúna vill að Hrafntinna alist upp í jákvæðu og heilbrigðu umhverfi og leggur því mikla áherslu á að eiga góð samskipti við hana.

Þakklát fyrir uppeldisárin í hesthúsinu

Áhugi Rúnu á hestum kviknaði snemma, en aðeins fjögurra ára gömul var hún farin að taka virkan þátt í hestamennskunni. „Það mætti segja að ég hafi alist upp í hesthúsinu, en mamma mín og pabbi minn heitinn hafa alltaf verið mikið hestafólk og vorum við systkinin uppi í hesthúsi alla daga að stússast með þeim. Ég tel það hafa gert okkur mjög samheldin og fyrir það er ég gríðarlega þakklát,“ segir Rúna. 

Rúna var aðeins fjögurra ára gömul þegar hún keppti á …
Rúna var aðeins fjögurra ára gömul þegar hún keppti á sínu fyrsta hestamóti.

„Ég hef lagt mikla áherslu á það að Hrafntinna alist upp með dýrum og er ég mjög dugleg að taka hana með í hesthúsið enda elskar hún öll dýr. Hún var ekki gömul þegar ég setti hana fyrst á hestbak og teymdi hana um. Henni finnst ekkert skemmtilegra en að koma með mér í hesthúsið að sópa og moka hjá hestunum og vill helst gera allt sjálf,“ útskýrir hún.

Það eru ekki einungis hestarnir sem hafa spilað stórt hlutverk í lífi Rúnu heldur líka hundarnir, en hún hefur verið í kringum hunda frá því hún man eftir sér og segist alltaf hafa verið staðráðin í því að eignast sinn eigin hund. Í dag eru tveir hundar af tegundinni Flat-Coated Retriver á heimilinu og hafa Rúna og Skúli fengið undan þeim eitt tíu hvolpa got. 

Á heimilinu eru tveir hundar af tegundinni Flat-Coated Retriver.
Á heimilinu eru tveir hundar af tegundinni Flat-Coated Retriver.

 „Vinkona mín átti hund sem ég kolféll fyrir af tegundinni Flat-Coated Retriver, en eftir þau kynni þá var ekki aftur snúið – ég vissi að ég þyrfti að eignast hvolp undan henni! Síðasta gotið hennar var árið 2019 og fékk ég Aríu úr því goti, segir Rúna.

„Tegundin er ekki algeng hér á landi og því var ljóst að ég þyrfti að flytja inn hund ef ég vildi fá hreinræktað got undan Aríu. Við fluttum því hann Aldo inn frá æðislegum Flattaræktendum í Svíþjóð árið 2022 og núna síðasta sumar kom tíu hvolpa got undan þeim.

Ég ætlaði mér aldrei að verða einhver hundaræktandi heldur vildi ég alltaf bara eignast góðan hund og félaga sem gæti verið með mér í hesthúsinu en plönin breyttust aðeins og mætti segja að ég sé komin kannski meira inn í hundana en ég hafði séð fyrir mér, sem er bara sjúklega skemmtilegt!“ bætir hún við. 

Rúna kolféll fyrir tegundinni eftir að hún kynntist hundi vinkonu …
Rúna kolféll fyrir tegundinni eftir að hún kynntist hundi vinkonu sinnar, en árið 2019 bættist Aría í fjölskylduna.

„Það er dásamlegt að sjá hana með þeim“

Rúna segir fallegt vinasamband vera á milli Hrafntinnu og hundanna, enda hafi hún lært snemma að koma fram við þá af virðingu. „Hundarnir á heimilinu eru stórir en Hrafntinna er algjör ráðskona og stjórnar þeim með litla fingri. Það er dásamlegt að sjá hana með þeim og eru þau öll bestu vinir. Hún lærði snemma að koma fram við öll dýr af virðingu og vera góð sem mér finnst mjög mikilvægt,“ bætir hún við.

Spurð hvernig hefur gengið að samtvinna hestamennskuna, hundaræktunina og fjölskyldulífið viðurkennir Rúna að það geti verið krefjandi á tímum. „Hestamennskan er svakalega tímafrek en við erum dugleg að vera bara öll saman í þessu. Við förum saman á hestamót á sumrin og svo dreg ég Skúla með mér á hundasýningar þegar mig vantar smá aðstoð með hundana. Gæti ekki hugsað mér þetta neitt öðruvísi,“ segir hún. 

Rúna viðurkennir að hestamennskan geti verið tímafrek.
Rúna viðurkennir að hestamennskan geti verið tímafrek.

Hvað er framundan hjá ykkur?

„Við ætlum bara að halda áfram að hafa gaman og njóta augnabliksins, tíminn er svo fljótur að líða. Við tökum nýja árinu fagnandi og það eru bara mjög spennandi tímar framundan hjá okkur!“

Fjölskyldan er spennt fyrir árinu 2024!
Fjölskyldan er spennt fyrir árinu 2024!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda