Skíðaferðir eru í uppáhaldi hjá mörgum, enda fullkomin blanda af skemmtun, ævintýrum og útivist fyrir alla fjölskylduna. Það getur þó verið snúið að velja skíðasvæði sem hentar mismunandi getustigi innan fjölskyldunnar og því tók vefur Times saman lista yfir fjölskylduvænstu skíðasvæðin í Evrópu.
Tignes er sveitarfélag í Rhône-Alpes-héraði í suðausturhluta Frakklands sem er þekkt fyrir að vera með hæsta skíðasvæðið og lengsta skíðatímabilið í Evrópu. Skíðasvæðið þykir því henta vel fyrir fjölskyldur yfir páskana, en þar er úrval af skíðabrautum fyrir alla aldurs- og getuhópa.
Les Arcs er spennandi skíðasvæði í Savoie-héraði í Frakklandi. Það sem gerir þetta skíðasvæði fjölskylduvænt er gistingin, en þar eru frábær hótel fyrir fjölskyldur sem bjóða upp á allt sem þú þarft, en þar að auki er frábær skíðakennsla í fjallinu og barnaklúbbar sem skemmta yngstu skíðagörpunum.
Les Manuires er skíðasvæði í Savoie-héraði í Frakklandi sem býður ekki einungis upp á skemmtilegar skíðabrekkur heldur einnig úrval af fjölbreyttri afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Á svæðinu eru til dæmis tvær almenningssundlaugar og gríðarstór leikvöllur fyrir börn undir sjö ára.
La Rosière er skíðasvæði sem einnig er staðsett í Savoie-héraði í Frakklandi. Einstakt útsýni er frá svæðinu yfir Tarentaise-dalinn og í átt að nokkrum af frægustu skíðasvæðum jarðar, þar á meðal Les Arcs sem fjallað var um hér að ofan. Það sem einkennir þetta skíðasvæði er afslappað andrúmsloft og fjölbreyttar skíðabrekkur fyrir alla fjölskylduna.
Serfaus er sveitafélag í Týról-fylki í Austurríki sem er þekkt fyrir að taka vel á móti fjölskyldum. Þar er að finna barnvæn hótel með barnaklúbbum og sundlaugum, en á skíðasvæðinu eru brekkur sérsniðnar fyrir byrjendur með góðum skíðakennurum.