Ólafur Ásgeirsson leikari eignaðist nýverið soninn Ásgeir Bóas með sambýliskonu sinni Sólbjörtu Veru Ómarsdóttur. Í fjölskyldunni er líka kötturinn Tókýó Óli sem er innikisi. Auk þess að sinna föðurhlutverkinu er nóg um að vera hjá Ólafi í leiklistinni um þessar mundir.
„Ég er að leika tvær leiksýningar, Óbærilegan léttleika knattspyrnunnar í Borgarleikhúsinu og barnaleikritið Palli var einn í heiminum í Hörpunni, svo sýni ég iðulega spuna með Improv Ísland á miðvikudagskvöldum,“ segir Ólafur.
Hvernig hefur lífið breyst eftir að þú varðst faðir?
„Það hefur klárlega skýrari tilgang, ábyrgðin helltist ansi hratt yfir mann þegar þetta nýja líf gerði vart við sig. Svo er ég meðvitaðri um hvernig við komum í heiminn.“
Hefur eitthvað komið þér á óvart fyrstu mánuðina?
„Ætli það sé ekki hversu fljótur ég get verið að taka upp símann og sýna fólki mynd af barninu mínu. Ég er eins og Lukku-Láki, nema ég bið alltaf um samþykki.“
Hvað hefur verið krefjandi?
„Að sofa … minna.“
Fær barnið strangt fótboltauppeldi?
„Ég trúi því að fólk verði að ákveða fyrir sig sjálft hverju það hefur áhuga á. Syni mínum verður ekki þröngvað til að horfa á eða spila knattspyrnu. Þetta segi ég eftir að hafa horft með honum á fyrsta Liverpool-leikinn á fæðingardeildinni daginn eftir að hann fæddist og klætt hann í Liverpool-búning fimm vikna.“
Hafið þið keypt einhvern óþarfa fyrir barnið?
„Við keyptum samfellu í Lindex áður en hann fæddist sem passaði aldrei á hann. En við erum í raun svo heppin að hafa varla þurft að kaupa neitt! Slíkur er máttur fyrsta barnabarns.“
Ertu skipulagður?
„Ég er mjög góður að skipuleggja mig, vandinn er sá að ég geri það iðulega of seint. Nema í vinnu núorðið, ég er hvað skipulagðastur þegar kemur að vinnu.“
Borðar þú morgunmat?
„Eiginlega aldrei að mínu frumkvæði.“
Hvaða sjónvarpsþátt ertu að horfa á?
„Við kláruðum seríu fimm af Fargo um daginn. Hún var ágætasta skemmtun. Ég er núna að reyna að byrja á Yellowstone.“
Hvaða bók er á náttborðinu?
„Duft eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur.“
Hvaða hlaðvarp ertu að hlusta á?
„Hérna kemur knattspyrnuáhugi minn bersýnilega í ljós. Ég hlusta á Dr. Football, Liverpool-hlaðvarpið Anfield Wrap og Football Weekly sem íþróttafréttaritarar Guardian stýra. Svo finnst mér gaman að hlusta á Scriptnotes þar sem tveir handritshöfundar tala um fagið sitt.“
Hver er uppáhaldsborgin þín og af hverju?
„New York, bjó þar fyrir átta árum og það var æði.“
Hvert væri draumafrí með fjölskyldunni?
„Þessa stundina langar okkur að fara til Ítalíu og vera í mánuð.“
Hvað gerirðu til þess að slaka á?
„Ég fer í gufuna í Vesturbæjarlaug. Hlusta á hlaðvörp. Mér finnst líka mjög róandi að láta útskýra fyrir mér flóknar skákviðureignir á YouTube.“