„Sú ákvörðun kostaði mig nánast lífið“

Hulda Sif hefur upplifað ýmislegt um dagana.
Hulda Sif hefur upplifað ýmislegt um dagana. Samsett mynd

Hulda Sif Gunnarsdóttir geislaði af gleði og hamingju síðastliðið haust. Hún var þá nýbúin að komast að því að hún ætti von á öðru barni sínu og var farin að huga að komandi tímum þegar hún upplifði fósturmissi. Huldu Sif var tilkynnt af læknum að hún hefði fengið utanlegsfóstur sem endaði á að rífa upp sár á öðrum eggjaleiðaranum og endaði hún á gjörgæslu í kjölfar mikils blóðláts.

Í dag er Hulda Sif á fullu við að byggja sig upp að nýju og stundar nú framhaldsnám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, en hún er menntaður uppeldis- og menntunarfræðingur. Hún býr yfir miklum baráttuvilja og vissi að hún þyrfti að takast á við áfallið til þess að reyna að takmarka skaðann. Hún þekkir áföll af eigin raun, í fyrstu eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á vinnustað, aðeins 18 ára gömul. Fósturmissirinn kallaði ósjálfrátt þessar döpru minningar aftur fram á sjónarsviðið.

„Lífið gat ekki orðið betra“

Hulda Sif er búsett í Keflavík ásamt sambýlismanni sínum, Atla Frey Ásbjörnssyni, og þriggja ára dóttur þeirra, Indíu Sif. „Ég starfa sem deildarstjóri á leikskóla og mér þykir það eintaklega skemmtilegt. Ég kenni einnig aerial-jóga, en það hentar vel til að hjálpa fólki við að rækta líkama og sál. Svo er það bara ótrúlega gefandi að kenna og miðla áleiðis öllu því sem ég hef lært á vegferð minni,“ segir Hulda Sif.

Hulda Sif ásamt sambýlismanni sínum, Atla Frey Ásbjörnssyni, og þriggja …
Hulda Sif ásamt sambýlismanni sínum, Atla Frey Ásbjörnssyni, og þriggja ára dóttur þeirra, Indíu Sif. Ljósmynd/Aðsend

Í september á síðasta ári komst Hulda Sif að því að hún bæri barn undir belti. „Lífið á þeim tímapunkti gat ekki orðið betra. Við Atli Freyr vorum í sæluvímu og trúðum varla þessari lífslukku, þakklæti og tilhlökkun var það eina sem komst að hjá okkur.“ Aðspurð segir hún fyrstu vikur meðgöngunnar hafa gengið eins og í sögu. „Mér leið svo vel og var bara mjög meðvituð um það sem var að gerast í líkama mínum,“ segir hún.

Fimmtudagurinn 21. september byrjaði eins og hver annar dagur hjá Huldu Sif, Atla Frey og Indíu Sif. „Dagurinn fór vel af stað, markmiðið var að koma öllum af stað til vinnu og í leikskóla, og það gekk eftir. Ég fann ekki fyrir neinu en það átti eftir að breytast snögglega, eða um klukkan 11.30. Þá byrja ég að fá verk í kviðinn. Á stuttum tíma var verkurinn orðinn óbærilegur og eftir smástund er mér hætt að lítast á blikuna og hringi þá í Atla Frey úr vinnunni og bið hann að sækja mig,“ útskýrir Hulda Sif.

Hulda Sif og Atli Freyr héldu heim í þeirri von að þetta myndi lagast en eftir mjög stutt stopp heima stigmagnaðist verkurinn. „Atli hringir á sjúkrabíl sem kemur á aðeins örfáum mínútum og ég á sjúkraflutningsmönnunum allt að þakka. Þeir sáu að það þurfti að bregðast snöggt við og fluttu mig rakleiðis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.“

Hulda Sif segir ferðina til Reykjavíkur ógleymanlega.
Hulda Sif segir ferðina til Reykjavíkur ógleymanlega. Arnþór Birkisson

„Ákveðið að flytja mig beint til Reykjavíkur“

Stoppið var stutt í Keflavík. „Það var ákveðið að flytja mig beint til Reykjavíkur. Heilbrigðisstarfsfólkið sem tók á móti mér í Keflavík bjargaði án efa lífi mínu þegar það tók þá ákvörðun að senda mig til Reykjavíkur, en það var gert strax og nánast án þess að ég væri skoðuð. Þau bara vissu að þetta væri aðkallandi og á ég þeim líf mitt að launa.“

Hulda Sif segir ferðina til Reykjavíkur ógleymanlega. „Ég man vel eftir ferðinni en á mjög erfitt með að gera mér grein fyrir öllu sem gekk á. Ég hafði samt sterkan grun um að þetta hefði eitthvað að gera með litla fóstrið okkar Atla Freys, ég fann hversu hratt við keyrðum, heyrði stöðug sírenuhljóð og kastaði upp milli þess sem ég var við það að missa meðvitund,“ segir Hulda Sif.

Þegar komið var á Landspítalann komst Hulda Sif strax undir læknishendur. „Ég fann fyrir hræðslu en það var mikill þeytingur í kringum mig, strax frá byrjun. Eftir stutta skoðun heyri ég konu hrópa: „Það er enginn tími, hún þarf að fara í aðgerð strax.“ Þá var klukkan aðeins 13.30 og ég var gjörsamlega uppgefin og þráði ekkert meira en að sofna. Ég man að þegar ég ætlaði að loka augunum augnablik þá heyri ég sagt: „Hulda Sif, þú mátt alls ekki loka augunum, ég verð að vita að þú sért hérna með okkur. Haltu þér vakandi alveg þangað til við komum,“ en á þeim tímapunkti var verið að vinna í því að koma mér á skurðstofu,“ útskýrir hún.

Það var á þessari örlagastundu sem Hulda Sif áttaði sig á alvöru málsins. „Ég var að berjast fyrir lífi mínu.“

Það er oft stutt á milli gleði og sorgar.
Það er oft stutt á milli gleði og sorgar. Arnþór Birkisson

Rankaði við sér á gjörgæslu

Nokkrum klukkutímum síðar rankaði Hulda Sif við sér eftir svæfingu og var þá komin á gjörgæsludeild. „Það er ólýsanleg tilfinning að vakna þar. Fyrsta hugsun mín var að ég væri á lífi, að ég hefði lifað þetta af, en ég hafði sterkan grun um að fóstrið hefði ekki gert hið sama. Ég var óörugg og vissi ekki hvað hefði gengið á,“ segir hún.

„Fljótlega eftir að ég vaknaði,“ bætir Hulda Sif við, „þá heyrði ég í móður minni frammi á spítalaganginum þar sem hún spurði hvort það væri í lagi að hún og Atli Freyr kæmu inn til mín. Á þeirri stundu fann ég fyrst fyrir smá öryggi. Stuttu síðar kom læknir inn á sjúkrastofuna og tilkynnti mér að ég hefði verið með utanlegsfóstur og það hefði rifið upp sár á öðrum eggjaleiðaranum sem blæddi frá og inn á kviðinn. Þegar ég komst undir læknishendur höfðu safnast rúmlega þrír lítrar af blóði í kviðnum og því ótrúlegt að ég hafi lifað þetta af.“

Atli Freyr stóð þétt við bakið á Huldu Sif.
Atli Freyr stóð þétt við bakið á Huldu Sif. Ljósmynd/Aðsend

Eftir sólarhring á gjörgæslu var Hulda Sif færð á kvennadeildina. Hún var komin úr lífshættu. „Ég var nokkuð fljót að jafna mig og var útskrifuð af sjúkrahúsinu innan nokkurra daga. En þegar ég lá þarna tengd við alls kyns snúrur og tæki gat ég ekki hugsað um annað en hversu nálægt ég hefði verið að yfirgefa litlu stúlkuna mína og fólkið mitt.“

„Vissi að ég þyrfti að takast á við þetta áfall“

Fyrstu dagarnir heima voru óraunverulegir og krefjandi, að sögn Huldu Sifjar. „Það komst lítið annað að en þakklæti þessa fyrstu daga og auðvitað hræðsla þegar ég hugsaði um hve skelfilega litlu hafði munað á milli lífs og dauða. Það var og hefur reynst mér mesta áfallið,“ segir hún. „Dagarnir liðu og ég hélt áfram að átta mig á öllu sem hafði gerst. Þakklæti var mér bara efst í huga og yfirgnæfði aðrar tilfinningar, en þar sem ég hafði áður orðið fyrir miklu áfalli vissi ég að ég þyrfti að takast á við það eins vel og ég gæti til að takmarka skaðann eins og hægt væri.“

Hulda Sif er fórnarlamb kynferðisofbeldis. Árið 2012 varð hún fyrir árás á fyrrverandi vinnustað sínum. „Ég var króuð af í miklu myrkri á vinnustaðnum þar sem ég hafði talið mig til þessa örugga. Þetta var mikið áfall og breytti í raun lífi mínu. Ég sagði engum frá þessu í heilt ár, gróf þetta niður og tókst ekki á við eitt né neitt tengt þessu. Það hafði mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.“

Eftir fyrra áfallið sótti Hulda Sif sér að lokum nauðsynlega hjálp. „Ég talaði við sálfræðing, leitaði til Stígamóta, fór til heilara og í þerapíu sem stóð yfir óslitið í rúmt ár. Þetta var það sem ég þurfti að gera til að líða betur. Ég vann alla sjálfsvinnuna og nú breytti þetta áfall lífi mínu til hins betra, ég hafði lært að nota fyrri lífsreynslu mína til þess að styrkja mig og sótti í hana. Ég veit að ég væri ekki lík þeirri manneskju sem ég er í dag ef þetta hefði ekki komið fyrir mig,“ segir Hulda Sif sem var strax staðráðin í að nýta heilsufarsáfallið, eins erfið upplifun og það er, til að gera sig að sterkari og betri manneskju.

Hulda Sif hefur unnið mikla sjálfsvinnu síðastliðnar vikur, mánuði og …
Hulda Sif hefur unnið mikla sjálfsvinnu síðastliðnar vikur, mánuði og ár. Arnþór Birkisson

„Ég tók á móti öllum tilfinningunum, tókst á við þær og ræddi óhikað við fólk. Það var lykillinn minn, að tala um tilfinningarnar. Ég leyfði þeim að koma fram í stað þess að bæla þær eins og ég hafði áður gert.“

Leyfði sér að líða illa

Aðspurð segir Hulda Sif að hún hafi leyft sorginni að koma fram eftir fósturmissinn og sjúkrahúsleguna og ekki reynt að bæla hana niður. „Stundum herjaði sorgin á mig í klukkustund, stundum sólarhring, stundum viku eða mánuð, allt eftir hvað ég var að takast á við. Þegar ég átti slæman dag, og auðvitað koma alltaf slæmir dagar, þá leyfði ég mér einfaldlega að eiga slæman dag. Ég reyndi að vinna úr áfallinu eins mikið og ég gat á meðan dóttir mín var í leikskólanum, enda skipti það mig miklu máli að vanlíðan mín bitnaði ekki á henni.“

Hulda Sif ásamt dóttur sinni, Indíu Sif.
Hulda Sif ásamt dóttur sinni, Indíu Sif. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú unnið þig úr áföllunum?

„Eins skrýtið og það hljómar, þá er ég þakklát fyrir þessa lífsreynslu. Fyrra áfallið hefur í dag gefið mér meira en það tók frá mér. Ég lærði svo mikið af þessari lífsreynslu og sá hvað í mér býr. Ég er enn að vinna úr seinna áfallinu og ekki komin eins langt með það og hið fyrra. Ég sé lífið og tilveruna í nýju ljósi og met það á allt annan hátt en ég gerði áður. Að ná að breyta dimmu í ljós er ólýsanleg sigurtilfinning og mér finnst ég geta allt sem ég vil.“

„Þungar hugsanir ásóttu mig í langan tíma“

Hulda Sif fann fyrir sektarkennd, sjálfsniðurrifi og kenndi sjálfri sér um ýmislegt eftir atvikið sem gerðist á fyrrverandi vinnustað hennar árið 2012. „Ýmsar spurningar fóru aftur og aftur í gegnum kollinn á mér enda mjög auðvelt að ásaka sjálfa sig. Óteljandi tilfinningar og þungar hugsanir ásóttu mig í langan tíma,“ útskýrir hún.

Eftir fósturmissinn komu upp aðrar spurningar. „Í seinna áfallinu var upplifunin önnur og kannski lítið hægt að kenna sjálfri sér um í þessu tilfelli. Það er samt alltaf eitt sem situr í mér og það er sú ákvörðun að hafa sleppt því að fara í snemmsónar, hún kostaði mig nánast lífið. Ef ég hefði farið í snemmsónar hefði sést að ég gengi með utanlegsfóstur og það verið fjarlægt í kjölfarið. Þá hefði ég ekki farið svona illa út úr þessum fyrstu vikum meðgöngunnar,“ segir Hulda Sif sem reynir þó að velta sér ekki mikið upp úr þeirri pælingu.

Hulda Sif er staðráðin í að halda öflug áfram.
Hulda Sif er staðráðin í að halda öflug áfram. Arnþór Birkisson

Hvernig líður þér í dag?

„Desember var mér mjög erfiður mánuður. Ég var einfaldlega orðin örmagna yfir því að berjast áfram með hversdagsleikann allt í kring án þess að búa yfir nægilegri orku til þess að komast í gegnum dagana. Ég endaði á að berjast yfir mig.

Nýja árið gekk í garð og ljósið í sálinni var frekar dauft. Ég viðurkenni að ég var búin að týna sjálfri mér og það tók mig langan tíma að finna mig á ný og kveikja á þessum litla vonarneista sem ég vissi að væri innra með mér. Ég held að ég sé loksins búin að gera mér grein fyrir því að þetta líf sé langhlaup en ekki spretthlaup og ég þarf því að lifa eftir því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda