Saga Sigríður E. Flókadóttir, nemandi í Hagaskóla, fermist í Fríkirkjunni í Reykjavík 7. apríl. Saga er búin að læra margt í fermingarfræðslunni í vetur og segir móðir hennar, Elísabet Þórey Þórisdóttir, skemmtilegt að sækja messurnar með dóttur sinni.
„Dans, söngur og tónlist eru mín helstu áhugamál. Ég er í Dansskóla Birnu Björns og einnig í söngleikjadeildinni þar. Ég er einnig í hljómsveitinni Espólin á vegum Miðstöðvarinnar í Tónlistarskóla Reykjavíkur þar sem ég spila á hljómborð og syng. Svo er ég í skólahljómsveit Vestur- og Miðbæjar þar sem ég spila á þverflautu,“ segir Saga þegar hún segir frá sínum helstu áhugamálum.
Hvernig hefur fermingarfræðslan verið?
„Fermingarfræðslan hefur verið skemmtileg og fjölbreytt. Ég hef lært ýmislegt, til dæmis núna síðast vorum við að læra um tjáningu og samskipti og gildi táknmáls fyrir döff fólk. Við höfum einnig talað saman um og pælt í hvað guð þýðir fyrir okkur. Skemmtilegast fannst mér að fara í ferð í Vatnaskóg þar sem við gistum eina nótt.“
Hvernig veislu ætlið þið að halda?
„Við ætlum að vera með veislu á Vox í Hótel Nordica, mig langar að vera með bleikt og fjólublátt þema.“
Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?
„Utanlandsferð með mömmu.“
Ertu búin að ákveða í hvernig fötum þú ætlar að vera?
„Já, ég valdi kjól í Gallerí Sautján, hann er hvítur og látlaus, og mjög fallega skó sem ég fann í Kjólum og konfekti.“
Ætlar þú að fara í hárgreiðslu?
„Ég ætla að hafa náttúrulegu krullurnar mínar og mig langar að hafa hluta af hárinu mínu uppsett og hluta slegið og vera með eitthvað fallegt í hárinu, til dæmis hvítar spennur eða blóm. Ég ætla að sjá um hárgreiðsluna sjálf.“
Til hvers hlakkar þú mest á fermingardaginn?
„Til fermingarveislunnar.“
Elísabet Þórey, móðir Sögu, finnur fyrir fjölbreyttum tilfinningum þegar hún er spurð hvernig sé að eiga fermingarbarn.
„Skemmtilegt en einnig skrýtið hvað tíminn líður hratt, mér finnst mjög stutt síðan Saga var lítið barn á leikskóla,“ segir Elísabet.
Hvenær byrjuðuð þið að undirbúa ferminguna og hvernig hefur undirbúningurinn gengið?
„Í desember síðastliðnum. Við erum komin með sal fyrir veisluna og erum nýbúnar að kaupa fermingarfötin, svo þetta hefur gengið vel hingað til.“
Tekur fermingarbarnið virkan þátt eða sér mamma um allt?
„Saga tekur virkan þátt í öllu og hefur sterkar skoðanir á þessum málum. Hún valdi salinn, matseðilinn og fermingarfötin sín.“
Hafið þið foreldrarnir lært eitthvað í gegnum fermingarfræðsluna?
„Já, einna helst hvað það er skemmtilegt og öflugt starf í Fríkirkjunni, messurnar eru notalegar og óþvingaðar með fallegri og skemmtilegri tónlist og barnakórinn er dásamlegur.“
Finnst þér eitthvað hafa breyst síðan þú fermdist?
„Já, mér finnst fermingarbörnin taka virkari þátt í öllum undirbúningi nú en þegar ég fermdist. Fermingarfræðslan í Fríkirkjunni er einnig á öðrum nótum en þegar ég fermdist, hún er afslappaðri og meira lagt upp úr ýmsum vangaveltum um lífið og tilveruna finnst mér.“
Fylgir því stress að sjá um fermingarveislu?
„Ég ætla að reyna að lágmarka stressið með því að panta veitingar, veislan verður einnig tiltölulega lágstemmd og aðaláherslan verður lögð á að njóta fermingardagsins hennar Sögu.“