Líf Ragnhildar Sigurðardóttur hefur tekið miklum stakkaskiptum frá því hún kynntist sambýlismanni sínum, Andra Þór Guðjónssyni, fyrir örfáum árum. Eftir nokkurra mánaða samband tilkynntu þau að þau ættu von á barni, en fyrsta barn parsins, Henrý Þór, kom í heiminn í nóvember 2021.
Þegar sonur parsins var rétt rúmlega árs gamall komst Ragnhildur að því að hún ætti aftur von á sér og gengi nú með tvíbura. Ragnhildi og Andra Þór fæddust tvíburastúlkur í byrjun árs, þann 10. janúar.
„Sagan okkar er dálítið skondin,“ segir Ragnhildur. „Við eignuðumst þrjú börn á þremur árum, nánar tiltekið þá eignuðumst við þrjú börn á tveimur árum og tíu mánuðum,“ útskýrir hún og ítrekar að parið hafi heldur betur nýtt tíma sinn vel.
Aðspurð segir Ragnhildur að ólétturnar hafi komið parinu á óvart, skemmtilega á óvart. „Ég og Andri Þór vorum nýbyrjuð saman og á fullu að kynnast hvort öðru þegar við komumst að því að ég væri ófrísk að Henrý Þór. Þau gleðitíðindi komu okkur verulega á óvart, en það fyndna er, er að við erum bæði mjög skipulögð að eðlisfari og viljum hafa hlutina á hreinu,“ útskýrir Ragnhildur. „Það er eins og einhver sagði einhvern tímann: Börn koma þegar þau vilja koma.“
Ragnhildur segir parið hafa sett upp undrunarsvip þegar það uppgötvaði að það ætti aftur von á barni, en Ragnhildur og Andri Þór upplifðu jákvætt sjokk þegar þau fengu að vita að þau ættu von á tvíburum. „Við vissum að við vildum ekki láta líða of langt á milli barna en áttum alls ekki von á því að verða ófrísk þetta hratt og hvað þá af tvíburum.“
Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú værir ófrísk í fyrra skiptið?
„Ég upplifði allan tilfinningaskalann. Þetta var algjör rússíbani. Við vorum nýbyrjuð saman og allt var svo nýtt og spennandi. Í stað þess að gera það sem flest pör gera í upphafi sambands þá dembdum við okkur beint út í alvöruna, en full tilhlökkunar yfir komandi tímum. Við vorum svo spennt að stofna fjölskyldu.
Mögulega var það aldurinn,“ segir Ragnhildur. „Mér leið vel þegar ég komst að því að ég væri ófrísk og var einnig verulega þakklát, vitandi að það er ekki sjálfgefið.“
Meðgöngur Ragnhildar voru mjög ólíkar en á fyrstu meðgöngu var hún við góða heilsu og náði að hreyfa sig mikið að eigin sögn. „Þegar ég horfi til baka og hugsa um fyrstu meðgönguna þá get ég ekki lýst henni öðruvísi en sem sannkallaðri draumameðgöngu.
Ég var heilsuhraust allan tímann og margir í kringum mig vissu ekki að ég væri ófrísk fyrr en ég var komin í kringum 20 vikur á leið. Ég fann fyrir ógleði í byrjun en náði að stunda hreyfingu og bara gera allt sem mig langaði til.
Seinni meðgangan, með tvíburana, var mun meira krefjandi og þá sérstaklega í byrjun og undir lok meðgöngunnar,“ útskýrir Ragnhildur. „Ég hafði aldrei fundið fyrir eins mikilli þreytu og þessar fyrstu vikur seinni meðgöngunnar. Allt var bara ýktara,“ segir hún.
„Fyrstu 12 vikurnar var ég slöpp og þreytt. Ég endurheimti orkuna fljótlega þar á eftir og skellti mér meira að segja í fjögurra daga fjallgöngu, gengin 14 vikur á leið með tvíbura.“
Parið komst að því að von væri á tvíburum í snemmsónar. „Ja hérna hér, það er aldeilis...þau eru tvö,“ sagði læknirinn skælbrosandi. „Ég bara trúði ekki mínum eigin eyrum þegar ég áttaði mig á því hvað væri í gangi,“ segir Ragnhildur. „Mér var litið á kærastann minn, sem var í jafnmiklu sjokki, ef ekki meira en ég. Hann var snjóhvítur í framan og við það að falla í yfirlið.“
Hvernig leið ykkur þegar kom í ljós að þið ættuð ekki bara von á einu barni heldur tveimur?
„Það er erfitt að lýsa tilfinningunni. Þetta var mikið sjokk fyrst, af því að þetta var náttúrulega eitthvað sem kom mér og okkur mikið á óvart. Þegar við vorum búin að melta fréttirnar þá vorum við alsæl og full eftirvæntingar,“ segir Ragnhildur en hún viðurkennir að hafa fundið fyrir kvíða vitandi að fjölburameðganga er áhættumeiri en þegar um einburameðgöngu er að ræða.
Ragnhildur var rólegri og yfirvegaðri á seinni meðgöngunni enda reynslunni ríkari eftir að hafa gengið með og fætt barn. „Ég hafði einhverja hugmynd um hvað væri í gangi og fram undan.
Hvernig eru fæðingarsögur þínar?
„Fæðingarsögur mínar eru góðar. Báðar fæðingarnar voru fyrirburafæðingar og keisaraskurðir. Ég átti á fæðingardeild Landspítalans í bæði skiptin og var róleg enda í traustum höndum fagfólks.
Ég var gengin 35 vikur og sex daga með son okkar þegar hann fæddist. Henrý Þór var sko alveg tilbúinn til að koma í heiminn,“ segir Ragnhildur. „Ég fór beint úr vinnunni upp á fæðingardeild þar sem ég var óvænt komin af stað, nokkrum vikum fyrir tímann. Það eina sem ég gat hugsað um var að ekkert var klárt á heimilinu enda hafði ekki hvarflað að mér að ég gæti átt fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins og hvað þá endað í keisaraskurði. Við eignuðumst heilbrigðan og hraustan dreng og áhyggjur mínar af heimilinu, samfellum og barnaherberginu hurfu eins og dögg fyrir sólu.
Í seinna skiptið var meiri yfirvegun yfir öllu. Ég vissi fyrir fram að leiðandi tvíburi væri í sitjandi stöðu og átti að gangast undir keisaraskurð gengin 37 vikur og tvo daga. Þau plön breyttust. Ég fékk meðgöngueitrun undir lok meðgöngunnar sem lýsti sér meðal annars í háum blóðþrýstingi, höfuðverk, svima og bjúgmyndun. Ég var lögð inn á spítala og í kjölfarið var ákveðið að flýta fæðingunni um eina viku. Tvíburastúlkurnar komu í heiminn á 36. viku, hraustar og fínar.
Það er staðreynd að lífið breytist þegar þú verður foreldri og er Ragnhildur heldur betur sammála. „Þegar þú eignast barn/börn þá breytist allt, lífið fær alveg nýjan tilgang. Líf mitt breyttist svo sannarlega til hins betra eftir að ég varð mamma,“ útskýrir hún.
Hvað kom þér helst á óvart varðandi móðurhlutverkið?
„Ætli það sé ekki bara magnið af dóti sem fylgir manni, það er hálf ótrúlegt. Það kom mér einnig á óvart hversu langan tíma það getur tekið okkur að komast út úr húsi.“
Hvernig móðir ertu?
„Ég vil fyrst og fremst vera góð móðir. Ég vil gefa börnunum mínum alla þá ást og umhyggju sem ég get gefið þeim.“
Aðspurð segir Ragnhildur að hún leggi áherslu á kærleiksríkt uppeldi og aga. „Ég vil leggja áherslu á að kenna börnunum mínum að vera góðar manneskjur sem beri virðingu fyrir öðrum og umhverfi sínu. Eins finnst mér mjög mikilvægt að leggja áherslu á að börnin hafi trú á sjálfum sér og að þau verði sjálfstæðir einstaklingar.“
Ertu með einhver ráð fyrir verðandi mæður ?
„Það er að treysta innsæinu og muna að maður þekkir börnin sín best og veit hvað hentar þeim.“