Þetta þurfa gæludýraeigendur að varast um páskana

Vissir þú að páskaliljur og aðrar liljur eru eitraðar fyrir …
Vissir þú að páskaliljur og aðrar liljur eru eitraðar fyrir ketti og hunda? Ljósmynd/Unsplash/Piotr Musiol

Páskarnir eru fram undan og þá er vinsælt að skreyta heimilið með páskalegu skrauti, blómum og auðvitað nóg af súkkulaði. Hins vegar geta páskaskreytingar verið hættulegar fyrir fjórfætlingana á heimilinu.

Kattaræktarfélag Íslands, Kynjakettir, birtu fróðlega grein þar sem farið var yfir hvað þarf að varast á kattarheimili yfir páskana, en þetta má einnig yfirfæra yfir á hundaheimili. 

Skrautið

„Sem betur fer er nú ekki allt skraut hættulegt köttum en hafið varann á þegar það er sett upp, reynið að koma því fyrir þar sem kötturinn nær ekki til. Það sem ber eflaust mest að varast er allt sem hangir á spotta. Köttur sem innbyrðir spotta getur átt hættu á því að spottinn vefjist í görnum og þarf á aðgerð að halda til að ná honum út.

Litlu páskaungarnir sem koma frá súkkulaðieggjunum eru auðvitað ótrúlega skemmtilegt leikfang, en unginn er gerður úr fínum þræðum, sem einnig geta valdið óróleika í maga.

Margir setja birkigreinar í vatn og skreyta um páskana. Birkigreinarnar eru alls ekki eitraðar en þær geta valdið smá óþægindum í meltingarvegi katta.“

Ljósmynd/Unsplash/Kaja Reichardt

Blómin

„Páskaliljur sem og aðrar liljur eru eitraðar fyrir ketti. Þær valda nýrnabilun og dauða. Allir hlutar blómsins eru eitraðir, það þarf ekki nema eitt lauf eða smá nart í blómið sem veldur alvarlegri eitrun. Eftir að hafa nartað í blómið ælir kötturinn venjulega og verður síðan mjög þungur á sér á innan við tveimur klukkustundum. Uppköstin geta haldið áfram en kötturinn mun ekki éta neitt og heldur áfram að verða mjög þunglyndur.

Hafðu samband við dýralækni strax ef þig grunar að kötturinn hafi komist í snertingu við blómið. Dýralæknirinn mun hefja meðferð strax því hreinsa þarf magann og þarmana. Hann gefur líklega eitthvað til að fá köttinn til að æla eða örvar þarmana fyrir hægðir en einnig þarf kötturinn að fá vökva í æð. Köttinn verður að meðhöndla innan 18 klukkustunda frá því hann innbyrðir plöntuna því annars eru nýrnaskemmdirnar orðnar það miklar að kötturinn mun deyja.“

Ljósmynd/Unsplash/Micheile Henderson

Súkkulaðið

„Súkkulaði er mjög eitrað fyrir ketti. Varist að hafa það á borðum ef enginn er til að passa upp á að kötturinn komist ekki í það. Súkkulaði inniheldur efni sem kallast theobromine og er það til staðar í kakóbauninni. Því dekkra sem súkkulaðið er, því eitraðra er það fyrir köttinn. Köttur sem hefur innbyrt súkkulaði getur átt von á öndunarerfiðleikum, vöðvaskjálfta og krampa og ætti að leita strax til dýralæknis.“

Ljósmynd/Unsplash/Leeloo The First
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda