Síðastliðið sumar fermdist Katla Lind Atladóttir í Stóranúpskirkju og Roar stjúpafi hennar tók að sér að mynda hana á fermingardaginn og prenta út fallega bók í kjölfarið. Morgunblaðið settist niður með Roar og spjallaði við hann um myndirnar, bókina, fermingarbarnið og ljósmyndaáhugann.
Roar Aagestad hefur allt frá því hann var unglingur verið með ástríðu fyrir því að taka myndir en hann segir að ljósmyndunin hafi aukist verulega hjá sér með tilkomu stafrænu byltingarinnar. „Núna er ég er hættur að vinna en ég er menntaður rafmagnsiðnfræðingur og hef því alla mína ævi unnið í tæknigeiranum. Ljósmyndunin hefur verið svona aukabúgrein hjá mér en ég hef til dæmis selt myndir á póstkort ásamt talsverðu af landslagsmyndum. Að frumkvæði dætra minna tók ég þátt í ljósmyndasamkeppni Landverndar árið 2014 „Hjarta landsins“ þar sem ég lenti í fyrsta sæti. Verðlaunin voru að fá að fljúga með Ómari Ragnarssyni yfir hálendi Íslands, það var virkilega skemmtilegt.“
Roar segir ljósmyndunina fyrst og fremst vera áhugamál sem hann brenni fyrir og hann segist mest mynda landslag og náttúru og að sjálfsögðu fjölskylduna en einnig hefur hann myndað nokkur brúðkaup og tvisvar hefur ljósmynd frá honum prýtt forsíðu Morgunblaðsins, ásamt myndbirtingum í öðrum fjölmiðlum.
Hinn 3. júní síðastliðinn fermdist stjúpafabarn Roars, Katla Lind, í Stóranúpskirkju í Gnúpverjahreppi og hann sá auðvitað um ljósmyndunina. Katla Lind hefur tengingu við kirkjuna, þar sem hún býr í Laxárdal, sem er efsti bærinn í hreppnum, og því er þetta sóknarkirkja hennar. „Dagsetningin var valin vegna þess að foreldrar Kötlu Lindar eiga brúðkaupsafmæli þennan dag, en hún á fjóra bræður og er yngst. Hún var eina fermingarbarnið sem fermdist þennan dag í kirkjunni svo að þarna var eingöngu nánasta fjölskylda hennar og vinir, enda kirkjan heldur lítil. Veislan var svo haldin í Brautarholti, sem er á Skeiðum, en þar var boðið upp á ekta hnallþórukaffiboð auk súpu.“
Katla Lind, sem er í Flúðaskóla, vildi að myndirnar endurspegluðu karakter hennar en hún ku vera mikil hesta- og sveitastelpa enda fékk hún hest í fermingargjöf frá foreldrum sínum. Katla valdi að vera með náttúrulegt og afslappað útlit í fermingunni, eins og sést vel á myndunum.
Roar tók með sér ferðastúdíó á fermingardaginn sem hann setti upp í skólastofu en einnig myndaði hann Kötlu úti á túni í sveitinni. „Það voru auðvitað einhverjar óskir frá fjölskyldunni um það hvers konar myndir ég ætti að taka. Til dæmis óskaði faðir hennar eftir því að ég myndaði hana hlaupandi út á túni þar sem hún lítur um öxl og einnig óskaði hann eftir því að hún yrði mynduð sitjandi á traktor. Auðvitað var hún svo mynduð með hestinum sem hún fékk í fermingargjöf og einnig með vinum og fjölskyldu,“ bætir Roar við.
Bókina vann Roar í gegnum ljósmyndaforritið Lightroom, í svokallaðri „Book module“, og þegar bókin er tilbúin sendir hann skjalið á vefsíðuna blurb.com sem prentar bókina og sendir hana til Íslands. „Þessi vefsíða er tengd beint við Lightroom þannig að margir ljósmyndarar nýta sér þennan möguleika til dæmis í brúðarmyndir og losna þannig við söluhlutann. „Ég geri þessar bækur á haustin og sendi inn þegar blurb.com er með svört föstudagstilboð og fæ þannig 50% afslátt af öllum þeim bókum sem ég hef unnið yfir árið, en auk þess fæ ég líka bókina í PDF-útgáfu sem kostar lítið aukalega. Verðið sem ég fæ með því að nýta mér tilboðið er svona í kringum 10.000 krónur með sendingarkostnaði. Þetta setur líka á mig tímapressu að klára fyrir þennan tíma.“ Hann bætir við að það sé mjög gott að vinna ljósmyndabókina í Lightroom, þar sem hægt sé að hanna heildarútlitið á myndirnar og bókina.
„Ég gaf Kötlu bókina í afmælisgjöf á annan í jólum og foreldrar hennar fengu hana í jólagjöf. Eftir því sem mér skilst er myndabókin alltaf uppi við og í miklu uppáhaldi hjá þeim,“ segir Roar og bætir við að hann hafi einnig gefið bræðrum hennar svipaðar bækur sem þeir haldi mikið upp á.