Barnaherbergið er griðarstaður barnsins og því þarf að huga að því að útbúa rými þar sem þau geta notið þess að leika sér, skapa, læra, hvíla sig og hlaða batteríin. Það er tilvalið að koma fyrir föndurhorni í herbergi barnsins og það þarf alls ekki að vera flókið.
Föndurhornið ætti að vera notalegur staður þar sem barnið getur látið hugmyndaflugið ráða för og kannað sköpunargleði sína, en föndur er afar þroskandi fyrir börn bæði andlega og líkamlega.
Fjölskylduvefur mbl.is tók saman nokkrar fallegar og hagnýtar vörur sem gætu nýst við gerð föndurhorns, allt frá fallegum stólum fyrir barnið að sitja í yfir í sniðugar föndurvörur.
Fyrsta skrefið er að finna góðan stól og borð sem hentar barninu og rýminu. Úrval af fallegum barnahúsgögnum hefur sjaldan verið betra en í dag og því ættu flestir að geta fundið eitthvað fyrir sinn smekk.
Þegar búið er að leggja grunninn að föndurhorninu með borði og stól er hægt er hægt að leika sér með ýmisskonar skrautmuni til að gera föndurhornið heillandi fyrir barnið. Það er alltaf góð hugmynd að finna vörur sem eru í senn fallegar og hagnýtar, en hér má til dæmis sjá hillu sem nýtist vel undir föndurdót eða aðra smámuni, skemmtilegan veggvasa sem hægt er að nota undir liti eða pensla og flotta minnistöflu sem hægt er að skreyta með myndum.
Hér er einnig hægt að vinna með skemmtilegar og litríkar körfur og kassa undir föndurdót sem hægt er að stafla undir eða við hliðina á borðinu eða setja upp í hillu í föndurhorninu.
Síðasta skrefið er að finna föndurvörur sem vekja áhuga barnsins. Möguleikarnir eru endalausir hér og mikið úrval til að allskyns spennandi föndurvörum. Það er klassískt að byrja á einföldum vörum á borð við vaxliti, málningu, pensla, leir og perlur. Síðan er hægt að bæta hægt og rólega í föndursafnið.