Fæddi barn nokkrum klukkustundum eftir óvænt steypiboð

Anna Kristín á tvö börn með unnusta sínum, Daníel Karli.
Anna Kristín á tvö börn með unnusta sínum, Daníel Karli. Samsett mynd

Konurnar í lífi Önnu Kristínar Guðmundsdóttur héldu óvænt steypiboð fyrir hana á fallegum haustdegi í október 2022, þegar aðeins tíu dagar voru í settan dag. Anna Kristín, sem starfar sem lögmaður hjá Kópavogsbæ, var þá ófrísk að sínu öðru barni og hafði enga hugmynd um hvað biði hennar þegar hún mætti í hádegiskaffi og nýbakaðar vöfflur til foreldra sinna. 

Nokkrum klukkustundum eftir að boðinu lauk var Anna Kristín mætt upp á fæðingardeild. 

„Mér brá svo mikið“

Aðspurð segist Anna Kristín hafa verið alveg grunlaus enda á síðustu metrum meðgöngunnar þegar vinkonur hennar og fjölskylda komu henni á óvart með fallegu steypiboði. „Mér bárust skilaboð frá systur minni þennan morguninn, boð í nýbakaðar vöfflur og huggulegheit heima hjá mömmu og pabba. 

Ég, kasólétt, þreytt og þrútin, gat auðvitað ekki staðist slíkar freistingar og það vissu allir. Þetta var mjög sniðug leið til að ná mér á staðinn enda eitthvað sem við fjölskyldan gerum mjög reglulega. Við erum dugleg að bjóða heim og eyða tíma saman,“ segir hún og hlær. 

Unnusti Önnu Kristínar, Daníel Karl Egilsson, var með í ráðunum og fékk verkefni frá skipuleggjendum steypiboðsins, að passa upp á að heiðursgesturinn væri laus þennan umrædda dag, sem honum tókst að gera án þess að vekja upp spurningar. 

Daníel Karli tókst að halda steypiboðinu leyndu.
Daníel Karli tókst að halda steypiboðinu leyndu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég rölti yfir til foreldra minna um hádegisbil. Við erum nágrannar, það eru aðeins 500 metrar á milli húsanna okkar,“ útskýrir Anna Kristín. „Ég opnaði útidyrahurðina, gekk inn og hrökk í kút. Mér brá svo mikið við að sjá þær allar samankomnar, enda gjörsamlega grunlaus.“

„Þetta var gegnumgangandi brandari“

Anna Kristín segir vinkonur sínar hafa mikið grínast með að fagnaðarlætin myndu koma fæðingu af stað. „Hún á eftir að fá áfall, missa vatnið og enda upp á fæðingardeild. Þetta var gegnumgangandi brandari í steypiboðinu, en ég missti ekki vatnið þegar ég sá þær né fann ég fyrir samdráttum. Það átti þó allt eftir að breytast þegar leið á kvöldið,“ segir hún. 

Að loknu boðinu hélt Anna Kristín heim í afslöppun. „Ég var alveg sultuslök heima en rétt fyrir miðnætti fór allt af stað. Vatnið hafði skyndilega farið og fæðingarhríðar ágerðust hratt, mjög hratt. 

Daníel hringdi á sjúkrabíl, pabbi hljóp yfir til að passa og við drifum okkur rakleiðis upp á fæðingardeild. Ég var þegar komin með níu í útvíkkun og ljósmæðurnar sáu meira að segja í litlar tásur.“

Sonur Önnu Kristínar og Daníels, Tryggvi Karl, kom í heiminn stuttu seinna. Drengurinn var tekinn með keisaraskurði þar sem hann var í sitjandi stöðu. 

Anna Kristín ásamt börnum sínum, Viktoríu Mist og Tryggva Karli.
Anna Kristín ásamt börnum sínum, Viktoríu Mist og Tryggva Karli. Ljósmynd/Aðsend

Átti að koma í heiminn á afmælisdegi móður sinnar

Anna Kristín var bókuð í keisaraskurð þann 25. október, sem er afmælisdagur hennar. „Tryggvi Karl átti að eiga sama afmælisdag og ég. Hann var með önnur áform og fékk ég því að halda afmælisdeginum mínum,“ segir hún og hlær. 

„Ég fékk tvöfaldan skammt af lyfi til að stoppa fæðinguna. Ljósmæðurnar voru áhyggjufullar, með öndina í hálsinu, en þær sáu ekki fram á að ná að undirbúa skurðstofu né deyfa mig. Allt fór þó vel, hratt og vel. 

Mamma endaði á að senda skilaboð á vinkonuhópinn og tilkynnti um fæðingu barnsins. Öllum fannst þetta vera stórskemmtileg tilviljun og eru þær flestar á því að félagsskapurinn og fagnaðarlætin hafi sett allt af stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda