Sara Aurora Lúðvíksdóttir var nýorðin 18 ára þegar hún komst að því að hún ætti von á barni með sambýlismanni sínum Bergþóri Erni Jenssyni. Á þeim tíma var Sara enn í Versló og ekki á dagskránni að eignast barn á næstunni og því upplifðu þau Bergþór mikið sjokk þegar tvær skýrar línur birtust á þungunarprófi.
Sjokkið og hræðslan sem fylgdi fréttunum fyrst um sinn breyttist þó fljótt í mikla tilhlökkun og gleði, en í dag eiga þau soninn Guðmund Andra Ben sem er nýorðinn eins árs og kann Sara afar vel við sig í móðurhlutverkinu.
Frá því hún varð ófrísk hefur fylgjendahópur Söru á bæði Instagram og TikTok stækka ört, en Sara hefur verið dugleg að birta fallegar myndir og myndbönd á samfélagsmiðlum þar sem hún gefur fylgjendum sínum innsýn í nýja hlutverkið og því sem fylgir að vera ung móðir.
Sara og Bergþór voru ekki búin að vera lengi saman þegar þau komust að því að þau væru að verða foreldrar. „Við kynntumst í miðbæ Reykjavíkur svona eins og dæmigert íslenskt par. Hann fékk link á samfélagsmiðlana mína og nokkrum vikum seinna fékk ég boð í ísbíltúr. Síðan þá höfum við verið saman alla daga,“ segir Sara.
Aðspurð segir Sara þau hafa upplifað mikið sjokk þegar þau komust að því að hún væri ófrísk. „Við vorum svo ótrúlega ung, 18 ára og 21 árs, og búin að vera stutt saman, þannig þetta var engan veginn næsta skref hjá okkur. Það var því mikið sjokk fyrir okkur bæði, en jákvætt sjokk. Það breytir auðvitað öllu að eiga von á barni. Ég var í Versló og Beggi að vinna, en það kom samt í rauninni aldrei neitt annað til greina en að eiga barnið,“ segir Sara.
„Ég mun aldrei gleyma viðbrögðunum þegar ég kom einn morguninn með jákvætt þungunarpróf inn í svefnherbergi. Ég sýndi honum tvær línur hágrátandi og hann tók utan um mig titrandi og sagði: „Ástin mín, þetta verður allt í lagi. Við finnum út úr þessu“.
Það tók mig smá tíma að átta mig á þessu. Við ræddum þetta við okkar nánustu og fengum strax stuðning frá okkar besta fólki sem var mjög dýrmætt. Við urðum fljótt ótrúlega spennt fyrir þessari litlu baun sem var á leiðinni,“ rifjar Sara upp.
„Þrátt fyrir að ég væri 18 ára gömul þá fann ég innst inni að þetta væri hlutverk sem ég treysti mér í og myndi blómstra í, en auðvitað var ég hrædd. Er maður ekki alltaf smá hræddur og kvíðinn við að takast á við eitthvað nýtt? Ég held að það sé bara eðlilegt og hollt fyrir mann,“ bætir hún við.
Aðspurð segir Sara meðgönguna hafa gengið vel þrátt fyrir að hafa upplifað hræðslu til að byrja með. „Ég varð rosalega slöpp og þreytt fyrstu mánuðina en svo helltist yfir mig ótrúleg orka og mér leið svo vel. Það var dásamlegt að upplifa meðgönguna, horfa á kúluna stækka, finna spörkin og finna fyrir litla lífinu vaxa þarna inni. Ég veit að það er ekki sjálfsagt að eignast heilbrigt barn,“ segir hún.
„Meðgangan er klárlega það fallegasta og besta sem ég hef upplifað. Ég elskaði að vera í þröngum kjólum og sýna kúluna og fannst ég geisla með þessa kúlu mína, enda veit ég ekkert fallegra en ófrískar konur,“ bætir hún við.
„Þrátt fyrir að vera hrædd við hvernig þetta myndi ganga fyrir sig verandi ung, þá held ég að allar konur upplifi ákveðna hræðslu við fyrstu meðgöngu og fæðingu og svo hvað sé framundan sem móðir, hvernig barn maður fái í fangið,“ útskýrir Sara.
„Það var auðvitað mikil tilhlökkun og gleði en allar þessar tilfinningar og hormón rugla í manni. Þetta er rússíbani á köflum svo maður þarf að vera duglegur að hugsa um sig og hlúa vel að sér, bæði andlega og líkamlega og passa upp á sig og litlu baunina sem er að vaxa,“ bætir hún við.
Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart á meðgöngunni segir Sara það vera hve hratt meðgangan leið og hve heilsuhraust hún var. „Í rauninni leið mér svakalega vel á meðgöngunni. Stundum fannst mér eins og ég hefði ekki nægilega mikinn tíma til að gera allt sem ég þyrfti að gera í hreiðurgerðinni, en eftir á að hyggja sé ég að eina sem maður þarf er ást og tími fyrir litla krílið,“ segir hún.
Sara segir að þegar að á heildina sé litið hafi fæðingin gengið vel þrátt fyrir að hafa tekið langan tíma. „Fæðingin tók mjög langan tíma því litli maðurinn snéri upp og horfði til stjarnanna eða „stjernekigger“. Sú staða á honum gerði það að verkum að ég var í virkri fæðingu í um tvo sólarhringa. Það var mjög krefjandi og gekk mjög nærri mér og kom mér á óvart,“ segir Sara.
„Auðvitað vissi ég að allt getur gerst í fæðingu og sjálf kom ég í heiminn með bráðakeisara. Ég hugsaði samt ekki mikið um hvað gæti farið úrskeiðis heldur reyndi ég að hugsa frekar að ég væri ung og hraust og að allt hafi verið jákvætt í mæðraskoðunum,“ bætir hún við.
Þann 14. febrúar 2023 missti Sara vatnið gengin 40 vikur og þrjá daga á leið, en þá var hún búin að vera með óreglulega verki frá því kvöldinu áður. „Fæðingin byrjaði á rólegu nótunum. Ég vildi vera sem lengst heima þar sem mér líður best og andaði mig bara í gegnum verkinu. Eftir hádegi 15. febrúar fórum við svo upp á deild aftur og þá var ég komin með fimm í útvíkkun og fékk herbergi,“ rifjar hún upp.
„Ég vildi bíða sem lengst með að fá deyfingu en notaði glaðloftið, loftbólur og fór í baðið. Bergþór og mamma voru með mér svo þetta leið allt mjög hratt fyrst um sinn, með öllum vaktaskiptunum af frábærum ljósmæðrum sem vildu allt fyrir okkur gera,“ bætir hún við.
„Þegar fór að líða á þriðja dag síðan verkirnir byrjuðu og ég hafði verið með níu í útvíkkun í yfir átta klukkustundir þá bað ég mun mænudeyfingu og hann kom fljótlega eftir það án frekari inngripa. Þetta var magnaðasta augnablik sem ég hef upplifað þegar hann mætti öskrandi með naflastrenginn utan um hálsinn, allur í blóði, pínulítill en svo ótrúlega fullkominn. Mamma tók dýrmætar myndir sem ég er svo þakklát fyrir í dag,“ segir Sara.
Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?
„Vá, það breyttist svo mikið en samt finnst mér eins og hann hafi alltaf verið hérna. Ég fór úr því að vera stelpuskott í það að vera stelpukona sem átti allt í einu kærasta, íbúð og barn og var farin að elda mat og borga reikninga.
Sambandið okkar breyttist líka og við gleymdum svolítið að huga að okkur, enda ekki lengur tími til að hoppa á deit, í ræktina eða í ísbíltúr hvenær sem er. Hægt og rólega lærir maður svo inn á þetta og að búa til tíma fyrir okkur, áhugamál, vini og fjölskyldu. Maður lærir að forgangsraða öðruvísi og litla fjölskyldan okkar er alltaf númer eitt, tvö og þrjú.
Við erum ótrúlega heppin að mamma mín hefur alltaf verið til taks að passa og aðstoða enda dýrkar hún ömmuhlutverkið, það er aðallega bara ég sem hef átt erfitt með að fara frá honum.“
Hvað kom þér mest á óvart við móðurhlutverkið?
„Það sem kom mér mest á óvart í móðurhlutverkinu er hversu mikið er hægt að elska aðra manneskju skilyrðislaust og á hverjum degi heldur það áfram að koma mér á óvart hversu mikið ég elska þennan litla mola sem treystir á mig og okkur fyrir allri sinni tilveru. Ástin bara vex. Það hefur einnig komið á óvart hversu mikil mamma ég er í raun og veru, hvað þetta liggur vel fyrir mér að vera mamma hans Guðmundar og hversu miklu maður er tilbúinn að fórna fyrir börnin sín.
Að vera ung móðir er alveg áskorun og maður þarf að passa að missa ekki af lestinni eins og t.d. með vini því vinkonur mínar eru ekki á sama stað, en ég hef líka verið dugleg að taka þátt í mömmuhittingum og tengjast öðrum mömmum með börn á sama aldri og hef eignast æðislegar vinkonur sem eru á sama stað og ég með lítil börn og það er bara bónus.“
„Í raun kemur mér á óvart hversu fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt móðurhlutverkið er því það var svo mikið af fólki búið að vera neikvætt, í rauninni bara reyna að draga úr manni. Mér finnst bara yndislegt að vera mamma hans og hann gefur mér svo mikið, á hverjum degi læri ég eitthvað nýtt. Auðvitað koma alveg dagar sem það reynir á en það er fljótt að gleymast í gleðinni.“
Í uppeldinu segist Sara fyrst og fremst leggja áherslu á að Guðmundur fái ástríkt uppeldi og að hann finni það hversu heitt þau Bergþór elski hann og dýrki. „Ég er ennþá að reyna að átta mig á uppeldinu og hvað er best. Að ala hann upp er eitt mikilvægasta og mest krefjandi verkefni sem við foreldrarnir höfum tekist á við því auðvitað viljum við að hann verði góð og hamingjusöm manneskja sem stendur með sjálfum sér,“ segir hún.
„Ég reyni líka að leyfa honum að prufa allt sjálfur og leiðbeina honum svo hann átti sig á hlutunum. Ég vil að hann læri að vera sjálfstæður og að hann viti að hann geti allt. Ég er hrifin af því að lesa fyrir börn og tala við þau og trúi að þau læri mikið á því. Við reynum að leiðbeina honum og hvetja til góðrar hegðunar og auðvitað veit maður að börn læra það sem fyrir þeim er haft, svo ætli það sé ekki best að vera sterk og góð fyrirmynd fyrir börnin sín,“ bætir hún við.
Ertu með einhver ráð fyrir verðandi mæður?
„Við verðandi mæður vil ég segja að muna að taka einn dag í einu, það eru allir að gera sitt besta. Auðvitað er hver meðganga og fæðing ólík milli kvenna og allir verða að fá að upplifa móðurhlutverkið á sinn hátt.
Fyrir mér hefur þetta verið mögnuð upplifun og breyting á lífinu, en móðurhlutverkið er besta hlutverk í heimi. Auðvitað koma dagar þar sem þetta er yfirþyrmandi, þetta nýja hlutverk, og þá þarf að muna að sýna sér mildi og lofa sér að hvílast, en umfram allt að gera ekki of miklar kröfur til sín. Við erum öll bara að læra á þetta nýja hlutverk.
Þessi litlu kríli eru svo fljót að stækka svo ég reyni bara að njóta hvers augnabliks og skapa góðar minningar. Já, og taka helling af myndum og myndböndum.“
Hvað er framundan hjá ykkur?
„Það sem er framundan hjá okkur er bara að halda áfram að njóta þess að fylgjast með Guðmundi Andra Ben vaxa, kenna honum og læra af honum. Það er líka í plönunum að ferðast meira og skoða heiminn sem fjölskylda, og svo ætla ég að halda áfram að byggja upp litla fyrirtækið mitt SMUK SCANDINAVIAN – og auðvitað halda áfram að vinna á samfélagsmiðlum að gera efni fyrir fyrirtæki.“