„Við áttum okkur lítið jólaleyndarmál“

Pálína og María Kristín eignuðust dóttur í september síðastliðnum.
Pálína og María Kristín eignuðust dóttur í september síðastliðnum. Ljósmynd/Aðsend

„Móðurhlutverkið hefur lengi verið mér hugleikið,“ segir Pálína Axelsdóttir Njarðvík, móðir, bóndi, félagssálfræðingur og samfélagsmiðlastjarna. Hún eignaðist sitt fyrsta barn ásamt sambýliskonu sinni, Maríu Kristínu Árnadóttur, í september síðastliðnum.

Pálína og María Kristín, sem kynntust í Vindáshlíð sumarið 2017, byrjuðu snemma að ræða barneignir þegar þær tóku saman og voru því himinlifandi með að verða mæður, en parið leitaði sér aðstoðar hjá Livio Reykjavík, heilbrigðisfyrirtæki sem er í forystu á sviði glasafrjóvgunarmeðferða, til að eignast dóttur sína, Eddu Maríu.

Pálína er mörgum kunn, hérlendis sem og utan landsteinanna. Hún heldur úti vinsælum Instagram-reikningi undir nafninu Farmlife Iceland þar sem hún kynnir fylgjendur sína, sem telja ríflega 271.000, fyrir töfrum og fegurð íslenska sveitalífsins, en Pálína er fædd og uppalin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Pálína heldur úti Instagram-reikningum Farmlife Iceland.
Pálína heldur úti Instagram-reikningum Farmlife Iceland. Ljósmynd/Aðsend

„Tilbúin að tækla hvaða verkefni sem er“

Pálína kann hvergi betur við sig en í sveitinni. „Lífið í sveitinni mótaði mig. Það undirbjó mig að mörgu leyti fyrir fæðinguna og móðurhlutverkið þar sem verkefnin eru mörg, fjölbreytt, krefjandi, kámug og skemmtileg.

Ég er algjör sveitakona, tilbúin að tækla hvaða verkefni sem er,“ segir Pálína sem er þegar byrjuð að kynna dóttur sína, sem er rétt tæplega átta mánaða gömul, fyrir sveitalífinu og íslensku dýrunum.

Pálína og María Kristín kynntust þegar þær störfuðu saman í sumarbúðum Vindáshlíðar, en það tók parið dágóðan tíma að byrja saman. „Við kynntumst sumarið 2017 en sumarið þar á eftir breyttist vinskapurinn í ást.

Í dag erum við búsettar í Reykjavík en alltaf með annan fótinn í sveitinni. Sauðburður er nú að hefjast og ætlum við að sjálfsögðu að taka þátt.”

Pálína og María Kristín ásamt dóttur þeirra, Eddu Maríu.
Pálína og María Kristín ásamt dóttur þeirra, Eddu Maríu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er eldri og gekk með barnið“

Pálína og María Kristín tóku ákvörðun snemma í sambandinu um að eignast barn en héldu áformum sínum leyndum frá fjölskyldu og vinum. „Þetta var planað hjá okkur, mjög planað,“ segir Pálína og hlær.

„Við höfðum samband við Livio Reykjavík þegar við vorum klárar að hefja ferlið, sem er bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Ferlið gekk hratt fyrir sig. Ég er eldri og gekk með barnið. Við rifumst ekkert um það,” útskýrir hún.

Pálína og María Kristín komust að því að þær ættu von á barni rétt fyrir jólin. „Við vorum mjög glaðar og áttum okkur lítið jólaleyndarmál.”

Parið komst að óléttunni rétt fyrir jól.
Parið komst að óléttunni rétt fyrir jól. Ljósmynd/Aðsend

Fór af stað á settum degi

Aðspurð segir Pálína meðgönguna hafa gengið vel. „Ég var hundslöpp í langan tíma en allt fór á besta veg. Mér fannst dásamlegt að vera ólétt. Dóttir okkar dafnaði vel. Ég horfi til baka með hlýhug, þetta voru bestu tímar þrátt fyrir ógleði og önnur einkenni.“

Ein dýrmætasta stund í lífi foreldra er fæðing barns þeirra og segir Pálína fæðinguna hafa verið langa, stranga og áhugaverða, en frá fyrstu hríð tók fæðingarferlið 47 klukkustundir.

„Ég fór af stað á settum degi, klukkan þrjú um nóttu. Ég vaknaði upp og hugsaði að nú væri eitthvað að gerast. Við vorum búnar að ákveða að fæða barnið á Fæðingarheimili Reykjavíkur en það endaði öðruvísi en ætlað var. Við eyddum góðum tíma á fæðingarheimilinu í góðum höndum fagmanna, en fæðingarferlið gekk mjög hægt fyrir sig, þrátt fyrir sterka samdrætti og sára verki, sem fóru versnandi.

Frá fyrstu hríð tók fæðingin 47 klukkustundir.
Frá fyrstu hríð tók fæðingin 47 klukkustundir. Ljósmynd/Aðsend

Eftir tæpa þrjá sólarhringa héldum við upp á fæðingardeild Landspítalans. Þar fékk ég hríðaörvandi dreypi sem ýtti ferlinu af stað en ekki nægilega mikið og þurfti að grípa til sogklukku og draga dóttur okkar í heiminn,“ útskýrir hún.

Pálína segir orð ömmu sinnar, sem þá var 96 ára gömul, hafa hjálpað sér mikið. „Hún sagði við mig: „Mundu bara að þetta er vont en svo er þetta bara búið“, þessi orð héldu mér gangandi í gegnum sársaukafyllsta hlutann.

Ein ljósmóðirin fékk mig einnig til að glotta þegar hún sagði við mig að sveitakonur nálgist fæðingar á annan hátt, búnar að upplifa allar útgáfur af fæðingum í sveitinni. Ég hef verið í sauðburði allt mitt líf og var því ekki kvíðin fyrir fæðingunni en viðurkenni að ég var mjög þakklát þegar henni loksins lauk,“ segir Pálína.

Edda María er þegar byrjuð að læra um lífið í …
Edda María er þegar byrjuð að læra um lífið í sveitinni. Ljósmynd/Aðsend

Sambandið hefur dýpkað og styrkst

Pálína segir lífið gjörbreytt, skýrara og betra eftir fæðingu dóttur hennar. „Heimurinn hefur minnkað og stækkað. Lífið snýst bara um Eddu Maríu og verður skemmtilegra með hverjum deginum.

Edda María hefur dýpkað tengsl okkar Maríu Kristínar. Við erum tengdar að eilífu, sama hvað. Ég elska að horfa á Maríu Kristínu, konu sem ég elska af öllu hjarta, sinna dóttur okkar. Það er einstök tilfinning sem gefur mér kitl í magann.“

Eru þið ólíkar mæður?

„Við erum ótrúlega samstiga þegar kemur að uppeldi dóttur okkar. Engin rifrildi hingað til. Við erum báðar búnar að læra sálfræði og höfum því svipaðar nálganir á það sem okkur þykir mikilvægt fyrir dóttur okkar og fjölskyldulífið.“

Aðspurð segist Pálína spennt fyrir komandi sumri. „Það verður dásamlegt að fylgjast með Eddu Maríu í sveitinni. Ég vil að hún þekki sveitalífið og kunni til verka.“

Hamingjusöm fjölskylda.
Hamingjusöm fjölskylda. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda