Rannsóknir hafa endurtekið sýnt fram á þau jákvæðu áhrif sem hundar hafa á fólk enda jafnan titlaðir sem „besti vinur mannsins.“ Það er hins vegar mikilvægt að velta hinum ýmsu atriðum fyrir sér áður en ákvörðun er tekin um að bæta nýjum fjölskyldumeðlim á heimilið.
Eitt af því sem fjölskyldan þarf að skoða í sameiningu er hvort hún sé í stakk búin að hugsa um hund næstu 10-15 árin, ala hann upp, veita honum ást, hlýju, hreyfingu, mat, dýralæknaþjónustu og allt það sem hann þarf til þess að lifa góðu og hamingjusömu lífi.
Næsta skref er að velja rétta hundinn fyrir fjölskylduna. Þá er mikilvægt að kynna sér tegundirnar vel og máta þær við lífsstíl fjölskyldunnar, stærð heimilisins, hversu virk fjölskyldan er og hversu mikið þarf að hugsa um feldinn eða aðra hluti.
Á dögunum birtist grein á vef Parents þar sem sérfræðingar tóku saman þær fimm hundategundir sem þykja hve barn- og fjölskylduvænstar.
Hundategundin Golden Retriever þykir sérlega fjölskylduvæn og hentar vel fyrir aktívar fjölskyldur sem eru tilbúnar að vera með stóran hund á heimilinu. Þegar þeir eru fullvaxnir geta Golden Retriever orðið 27 til 36 kíló að þyngd og fara töluvert úr hárum. Þeir lifa að meðaltali í 10 til 12 ár.
Tegundin þarf 60 til 90 mínútur af hreyfingu á dag og elska líka að synda og leika við börn. „Golden Retrieverar elska vatn. Fyrir fjölskyldur sem eru með greiðan aðgang að stöðuvatni, á, sjó eða sundlaug, þá mun þessi tegund vera fullkomin fyrir börnin þín,“ segir Paola Cuevas, atferlifræðingur hjá Dogster.com.
Þessi tegund er, rétt eins og Golden Retriever, hluti af Retriever-fjölskyldunni. Þeir hafa svipaðan líftíma og fara líka úr hárum, en þeir eru aðeins minni í stærð en Golden Retrieverarnir. Þeir koma einnig í nokkrum litatónum – rjómalituðum, svörtum, súkkulaðibrúnum og gulum tónum.
Labrador Retriever eru virkir hundar sem elska að leika sér úti. „Labradorar voru upphaflega ræktaðir sem vatnaveiðihundar, en þeir eru ótrúlega góðir að synda og elska vatnið,“ segir Cuevas.
Írskur Setter var upphaflega ræktaður sem fuglaveiðihundur. Hann fer hóflega mikið úr hárum og þarf um tveggja klukkustunda hreyfingu á dag. Tegundin þykir frábær fyrir fjölskyldur enda afar félagslynd og ljúf.
„Írski Setterar eru mjög vinalegir og félagslyndir sem gerir þá tilvalda fyrir barnafjölskyldur,“ segir Cuevas. Hundar af þessari tegund lifa að meðaltali í 12 til 15 ár og eru þekktir fyrir silkimjúkan og fallegan feld í rauðum tón.
Kóngapúðla er stærsta gerðin af púðlu sem verður allt frá 20 til 32 kíló. Púðluhundar fara ekki úr hárum og eru þekktir fyrir að vera sérstaklega gáfaðir og með skemmtilega persónuleika.
Kóngapúðlan er frábær fyrir virkar fjölskyldur, en þar sem púðlan fer ekki úr hárum þarf að hugsa vel um feldinn á þeim og fara reglulega með hana í snyrtingu eða klippingu. Púðluhundar koma í nokkrum mismunandi litatónum, en þeir algengustu eru svartir, hvítir, apríkósulitaðir, rauðir, silfurlitaðir, brúnir og gráir. Kóngapúðlan lifir að meðaltali í 12 til 15 ár.
Pomeranian hundar verða 1,8 til 3,5 kíló að þyngd. Þeir eru fjörugir, virkir og félagslyndir með sannkallað „bangsa“ andlit sem gerir hana að uppáhaldi hjá krökkum. Þeir eru tilvaldir fyrir smærri heimili eða minna virkar fjölskyldur.
Pomeranian fara lítið úr hárum en það þarf að huga vel að feldinum á þeim og fara reglulega með þá í snyrtingu til að koma í veg fyrir flækjur. Þeir koma í nokkrum litatónum, allt frá svörtum og rauðum yfir í brúnan. Þeir eru þó þekktastir fyrir appelsínugula litinn.