Útvarpsmaðurinn og uppistandarinn Bolli Már Bjarnason er að eigin sögn 32 ára strákur úr Laugardalnum með fasteignalán, konu, barn og stóra drauma. Hann starfar sem útvarpsmaður á K100, uppistandari og veislustjóri.
Bolli lærði leiklist í Kvikmyndaskóla Íslands árið 2015 og fór síðan að vinna í auglýsingabransanum. Vorið 2023 lét hann svo langþráðan draum um að vera á sviði rætast þegar hann setti upp sína fyrstu sýningu, Hæfilegur, í Tjarnabíói. Fyrr á árinu gekk hann svo til liðs við útvarpsstöðina K100 og hefur samhliða því komið fram á uppistandssýningum og veislustýrt hinum ýmsu viðburðum.
Það er því óhætt að segja að það sé nóg um að vera hjá Bolla, en þegar hann er ekki uppi á sviði að kitla hláturtaugar eða í útvarpinu að hækka í gleðinni þá nýtur hann þess að sprella með fjölskyldunni sinni.
Bolli og unnusta hans, Berglind Halla Elíasdóttir, eiga saman eina dóttur, Kristínu Jónu Bolladóttur, sem er tveggja og hálfs árs og mikill gleðigjafi að sögn Bolla.
Hér deilir Bolli fimm af sínum bestu uppeldisráðum með lesendum Fjölskyldunnar á mbl.is.
„Sko! Berglind unnusta mín hló þegar ég sagði henni frá þessu, en hún er miklu markvissari uppalandi en ég. Bollarinn er meira í frjálsu flæði. En númer eitt hjá mér er að elska hana stórt og knúsast mikið.“
„Ég er að reyna að minnka símanotkun þegar ég er með henni, sýna barninu fókus og láta því líða sem mikilvægustu manneskjunni í herberginu. Ég er alls ekki fullkominn í því og er alltaf að reyna að bæta mig.
Það er nefnilega mikilvægt lesandi góður að þú áttir þig á því að þó ég sé að koma með ráð þá er ég ekkert endilega með þau á lási sjálfur.“
„Næsta ráð er að drulla sér út að leika – það er algjör lykill að börn leiki sér mikið úti. Mín kona er aldrei glaðari en þegar hún er úti í skítaveðri að leita af kisum.“
„Fjórða uppeldisráðið er að vera dugleg að lesa bækur, púsla og perla – þjálfa orðaforða og einbeitingu. Við virðumst verða verri og verri í þessu. Gott vald á tungumáli og að gera einbeitt sér kemur fólki langt – gefum börnunum okkar þá gjöf.“
„Síðasta uppeldisráðið er að sprella og fíflast, hafa gaman að þessu öllu saman. Það er mögnuð vegferð að fylgjast með barni vaxa og dafna – þetta á að vera gaman! Það að fara mikið í sund er svo náttúrulega „geitin“ í þessu öllu saman.“