Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpsstjarna á K100, er landsmönnum vel kunn. Margir byrja daginn á því að hlusta á hana og samstarfsfélaga hennar, Bolla Má og Þór Bæring, í morgunþættinum Ísland Vaknar.
Kristín Sif á stóra og blandaða fjölskyldu, en hún og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn Stefán Jakobsson, eiga samtals fimm börn, öll á táningsaldri.
Hér deilir Kristín Sif sínum bestu uppeldisráðum með lesendum Fjölskyldunnar á mbl.is
„Eitt af því sem ég hef lært í gegnum tíðina og þekki af eigin raun er að börn þurfa að takast á við erfiðleika. Lífið er oft erfitt og það er mikilvægt og gott fyrir þau að læra það. Ef börn fá ekki tækifæri til að takast á við erfiðleikana um leið og þeir gerast þá efla þau ekki þrautsegju sína til að takast á við erfiðar aðstæður seinna meir.
Ef við, foreldrar og forráðamenn, reynum að fela sársauka og erfiðleika fyrir börnunum okkar getur það kennt þeim að þau þurfi að bæla tilfinningar sínar þegar erfiðleikar banka upp á eða þegar þau finna fyrir sorg eða vanlíðan. Börn vita mun meira um hvað er í gangi en okkur grunar og er því mikilvægt fyrir okkur að vera heiðarleg við þau og ræða málin í samræmi við þroska þeirra og skilning.
Fjölskyldan mín hefur gengið í gegnum mjög erfiða tíma og veit ég því hversu mikilvægt það er að hjálpa börnum í gegnum erfiðleikana en sömuleiðis að leyfa þeim að stjórna för. Það styrkir þau sem einstaklinga og styrkir fjölskyldutengslin.“
Það að kenna börnunum góð gildi skiptir mig gríðarlegu máli þar sem þú getur alltaf leitað í gildin þín þegar þú þarft að taka ákvarðanir í lífinu. Þrautsegja, kærleikur, gleði, hugrekki, vinnusemi, húmor og heiðarleiki eru allt góð gildi sem er gott að lifa eftir.
Ef að börn læra góð gildi geta þau lært að fylgja eigin sannfæringu frekar en að fylgja öðrum og láta þá segja sér hvernig á að hugsa og eða gera.
Það er gott að minna þau á þessi lífsgildi, en smátt og smátt finna þau hvaða gildi þau vilja tileinka sér og vinna með í lífinu. Mér finnst líka skipta máli að börnin átti sig á því að gildin geta breyst eftir því sem þau verða eldri.“
„Þó svo okkur þyki æðislega gaman að leika og njóta góðra stunda með börnunum okkar þá vitum við vel hvað agi, rútína og rammi skipta miklu máli þegar kemur að því að ala upp börnin okkar. Mín tilfinning hefur alltaf verið sú að börnum líði betur með skýr mörk og ramma en jafnvægi er lykillinn. Það þarf líka að knúsa, hlæja, leika og hrósa.“
„Samvera er mér afar mikilvæg.
Við Stefán erum eins og fullorðin börn og trúum því að það skipti máli að eiga góð áhugamál og leika sér. Við gerum sem mest af því sem fjölskylda og njótum með börnunum okkar. Við förum á skíði, sleði, í göngutúra, ferðalög og margt fleira skemmtilegt. Við leggjum okkur fram við að vera til staðar fyrir hvort annað.“