Síðastliðinn sunnudag var mæðradagurinn og voru margir sem fögnuðu móðurhlutverkinu með fallegum færslum á samfélagsmiðlum. Reykjavíkurdóttirin og leikkonan Þórdís Björk Þorfinnsdóttir er ein þeirra, en hún sendi sérstaka kveðju til stjúpmæðra í færslu sinni.
Þórdís Björk er bæði móðir og stjúpmóðir, en hún og unnusti hennar, tónlistarmaðurinn Júlí Heiðar Halldórsson, áttu bæði barn úr fyrra sambandi þegar ástin kviknaði á milli þeirra. Nú eiga þau von á sínu fyrsta barni saman.
„Til hamingju allar mömmur. Mér finnst svona væmin og löng skrif alveg leiðinleg en ég ætla samt að láta gossa. Mig langar að senda sérstaka kveðju útí kosmósið til stjúpmæðra. Það er nefnilega ekki síður mikilvægt hlutverk. Gjörólíkt því að vera mamma en samt einhvern veginn svo líkt. Krefjandi, gefandi og óeigingjarnt. Sendir mann í allt öðruvísi sjálfsskoðun og kveikir á einhverju nýju. Ýtir á einhverja takka sem maður bara vissi ekki af. En svo er ástin sem maður fær til baka alveg jafn hrein og tær.
Og mér finnst ég mjög heppin að fá að prófa að vera bæði í þessu lífi. Það bætir við litum í litrófið manns að fá að prófa alls konar hlutverk. Svo ég segi nú bara takk elsku Nói, rauðrófan mín, fyrir að leyfa mér að vera stjúpmamma þín. Og fyrir að vera alltaf svona ljúfur og góður.
Og takk Bjartur minn fyrir að láta mig aldrei efast um að ég sé að standa mig vel.
Og fyrst þetta er orðið svona dramatískt og langt þá segi ég takk mamma mín fyrir að vera kletturinn í lífi barnanna þinna. Þó við séum öll komin yfir þrítugt þá heldur þú samt fast í höndina á okkur í gegnum þennan ólgusjó sem líf okkar er. Veit að bræður mínir eru sammála,“ skrifaði hún í færslunni og birti fallegar myndir af sér með syni sínum og stjúpsyni sínum.