Ofurhjónin Hailey og Justin Bieber eiga von á sínu fyrsta barni. Hailey Bieber lifir og hrærist í heimi ríka og fræga fólksins en það kemur þó ekki í veg fyrir að hún fái verki á meðgöngunni eins og aðrar óléttar konur.
„Hver ætlar að segja mér frá verkjunum neðarlega í bakinu,“ skrifaði frú Bieber á Instagram og gerði þar með grein fyrir því að hún væri að glíma við verki. Á myndinni má sjá að Hailey Bieber er langt gengin með Bieber-barnið væntanlega en hún er talin gengin um sjö mánuði.
Bieber gæti verið að glíma við grindargliðnun en kírópraktorinn Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktur sem Gummi kíró, fór nýlega yfir grindagliðnun í fræðslumyndbandi.
„Mig langar svo að ræða grindargliðnun af því ef þú ert ófrísk og ert komin með einhver óþægindi eða einhverja verki í bakið þá eru að öllum líkindum komnar bólgur í spjaldhrygginn,“ segir Guðmundur meðal annars í myndbandinu.
Guðmundur segir frá því að á meðgöngu sé hormón sem heitir relaxin sem fer inn í blóðrásina og mýkir upp öll liðbönd í kringum grindina og í raun í öllum líkamanum. „Þannig orðið grindargliðnun er í rauninni eðlilegt ástand, en grindargliðnun er oftast notað þegar konur á meðgöngu fá verki í bakið,“ segir hann.