Hátíðleg 17. júní dagskrá fyrir fjölskylduna um allt land

Það verður nóg um að vera á 17. júní!
Það verður nóg um að vera á 17. júní! mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur um allt land á morgun, 17. júní, en í ár verða hátíðar- og skemmtidagskrár sérlega glæsilegar þar sem 80 ár verða liðin frá því íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum. 

Fjölskylduvefur mbl.is tók saman það helsta sem boðið verður upp á yfir daginn á nokkrum stöðum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. 

Reykjavík

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn 17. júní sem hefst á Austurvelli klukkan 11:00 þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni á minnisvarða Jóns Sigurðarsonar. 

Klukkan 13:00 munu skátar svo leiða skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju. Þá verða tónleikar, götuleikhús, dansveisla, sirkus, leiktæki, matarvagnar og fornbílasýningar í Hljómskálagarði og á Klambratúni svo eitthvað sé nefnt, en einnig verður frítt inn á Árbæjarsafnið þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Reykjavíkurborgar

Kópavogur

Í Kópavogi verður boðið upp á skemmtidagskrá bæði á Rútstúni og við Versali frá klukkan 14:00 til 16:00, en leiktæki og hoppukastalar opna klukkan 12:00. Þá verður einnig hátíðardagskrá í anddyri Salarins frá klukkan 13:00.

Klukkan 13:30 hefst skrúðganga frá Menntaskólanum í Kópavogi og að Rútstúni. Við Menningarhúsin í Kópavogi verður svo dagskrá frá klukkan 14:00 til 16:00 með hinum ýmsu skemmti- og tónlistaratriðum. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Kópavogsbæjar

Hafnarfjörður

Hátíðarhöld í Hafnarfirði teygja anga sína víða um bæinn, en þau hefjast klukkan 8:00 með fánahyllingu á Hamrinum. Klukkan 9:00 mun Sjósundsfélagið Urturnar svo leiðbeina bæjarbúum við sjósund og verður fargufa á svæðinu og Sundhöll Hafnarfjarðar opin. 

Frá klukkan 11:00 til 18:00 verður stuð á Víðistaðatúni þar sem Víkingahátíðin í Hafnarfirði fer fram. Klukkan 13:00 hefst skrúðganga frá Flensborgarskóla og verður gengið niður Hringbraut, eftir Lækjargötu og inn Strandgötu að Thorsplani þar sem hátíðarhöld í miðbæ Hafnarfjarðar hefjast formlega með hinum ýmsu tónlistar- og skemmtiatriðum til klukkan 16:00.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Hafnafjarðarbæjar.

Garðabær

Í Garðabæ verður fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna sem hefst klukkan 13:00 með skrúðgöngu sem fer frá Hofsstaðatúni á Garðaborg þar sem töfrar, söngvar og dansatriði verða á dagskrá. 

Bílastæði Garðatorgs verður svo breytt í skemmtisvæði fyrir börnin með hoppuköstulum, en einnig verður fánasmiðja og andlitsmálun í boði á Garðatorgi. Deginum lýkur svo með hátíðartónleikum í Tónlistarskóla Garðabæjar klukkan 20:00.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Garðabæjar

Mosfellsbær

Dagskráin í Mosfellsbæ hefst klukkan 11:00 með hátíðarguðþjónustu í Lágafellskirkju. Klukkan 13:30 verður svo skrúðganga frá Miðbæjartorginu að Hlégarði þar sem fjölbreytt fjölskyldudagskrá verður í boði. 

Klukkan 16:00 verður keppt um titilinn Sterkasti maður Íslands og Stálkonan 2024 á Hlégarðstúninu. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Mosfellsbæjar

Seltjarnarnes

Á Seltjarnarnesi verður hátíðardagskrá sem hefst klukkan 10:00 með bátasiglingu frá smábátahöfninni. Klukkan 11:00 verður hátíðarguðþjónusta í Seltjarnarneskirkju og klukkan 12:45 fer skrúðganga frá Leikskóla Seltjarnarness yfir í Bakkagarð. 

Í Bakkagarði verður fjölbreytt dagskrá með hinum ýmsu atriðum, en þar verða einnig leiktæki, hestateymingar og fleira skemmtilegt á milli klukkan 13:00 til 15:00.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Seltjarnarness.

Akureyri

Á Akureyri hefjast hátíðarhöldin klukkan 11:00 þegar blómabíllinn leggur af stað frá Naustaskóla, en hann verður við Lystigarðinn um klukkan 12:00. Klukkan 12:30 hefst svo skrúðganga frá Gamla húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti og suður í Lystigarðinn þar sem verður hátíðardagskrá frá klukkan 13:00 til 13:45.

Klukkan 14:00 hefst svo fjölbreytt fjölskyldudagskrá bæði á MA-túninu og í Lystigarðinum og klukkan 17:00 verður skemmtisigling með Húna II.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Akureyrarbæjar.

Borgarbyggð

Í Borgarbyggð verða fánar dregnir að húni klukkan 8:00 og eru allir íbúar hvattir til að gera slíkt hið sama í tilefni dagsins. Klukkan 10:00 hefst íþróttahátíð á Skallagrímsvelli þar sem sautjánda júní hlaup verður fyrir fólk á öllum aldri. 

Klukkan 13:30 hefst skrúðgangan þar sem gengið verður frá Borganeskirkju í Skallagrímsgarð. Þar verður hátíðardagskrá frá klukkan 14:00, en klukkan 16:30 býður hestamannafélagið Borgfirðingur börnum á hestbak í Vindási.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Borgarbyggðar

Selfoss

Dagskráin verður fjölbreytt á Selfossi á 17. júní, en hún hefst með morgunjóga klukkan 9:00 við árbakkann fyrir neðan Hótel Selfoss ef veður leyfir. Klukkan 13:15 hefst skrúðganga frá Selfosskirkju þar sem gengið verður Kirkjuveg, Eyraveg, Austurveg, Reynivelli, Engjaveg, Sigtún og inn í Sigtúnsgarð. 

Í Sigtúnsgarði verður nóg um að vera, meðal annars skemmtigarður, andlitsmálun, vöfflukaffi, skemmti- og tónlistaratriði og bílasýning hjá Ferðaklúbbnum 4x4 Suðurlandsdeild. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Sveitarfélagsins Árborgar

Hveragerði

Í Hveragerði hefst dagskrá klukkan 9:00 með Wibit þrautabraut í sundlauginni Laugaskarði sem stendur yfir allan daginn til klukkan 19:00. Klukkan 10:00 mun Hestamannafélagið Ljúfur teyma undir börnum við félagsheimili Ljúfs.

Skrúðgangan hefst svo klukkan 13:30 og gengið verður frá horninu á Heiðmörk. Í Lystigarðinum verður svo hátíðardagskrá frá klukkan 14:00 til 16:00, en þá hefjast leikir og fjör fyrir alla fjölskylduna. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Hveragerðisbæjar

Múlaþing

Hátíðarhöld verða í öllum kjörnum sveitarfélagsins í tilefni dagsins, en á Egilstöðum verður fjölskyldustund í Egilsstaðakirkju, Skrúðganga frá kirkju í Tjarnargarð klukkan 11:00 þar sem skemmtidagskrá verður fram eftir degi.

Á Seyðisfirði hefst dagskráin klukkan 11:00 þegar blómsveigur er lagður á leiði Björns í Firði. Klukkan 12:30 verður sautjánda júní hlaup fyrir krakka 12 og yngri við Seyðisfjarðarkirkju, en hátíðardagskrá í garðinum við Seyðisfjarðarkirkju hefst klukkan 13:00.

Nánari upplýsingar um dagskrána og dagskrá í öðrum kjörnum má finna á vef Múlaþings

Reykjanesbær

Hátíðar- og skemmtidagskrá fer fram í skrúðgarðinum í Keflavík og hefst með hátíðarguðþjónustu í Keflavíkurkirkju klukkan 12:00.

Að athöfn lokinni verður gengið í skrúðgarðinn þar sem fjölbreytt dagskrá verður fram eftir degi.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Reykjanesbæjar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál