Sundlaugin hálfgert fjölskyldufyrirtæki

Þórdís Mjöll Benediktsdóttir býr á Eskifirði með fjölskyldu sinni. Hér …
Þórdís Mjöll Benediktsdóttir býr á Eskifirði með fjölskyldu sinni. Hér er hún ásamt börnum sínum þeim Magnúsi Goða og Emmu Kristínu Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, leikskólastjóri í Dalborg og bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Fjarðabyggð, býr á Eskifirði með manni sínum og tveimur börnum. Þórdís er uppfull af góðum hugmyndum um hvernig hægt er að gera sér glaðan dag með börnum á svæðinu.

„Ég bý á Eskifirði, einum af sjö bæjarkjörnum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Að mínu mati er frábært að búa á Eskifirði, börnin eru örugg í sínu nærumhverfi og stutt í þá afþreyingu sem ég sækist eftir,“ segir Þórdís um lífið á Eskifirði.

Hvernig er fullkominn dagur í Fjarðabyggð?

„Hinn fullkomni vetrardagur í Fjarðabyggð er að vakna í rólegheitum með fjölskyldunni, útbúa nesti og halda upp í Oddskarð með börnunum, eftir skíðin er síðan haldið í sundlaugina á Eskifirði og dagurinn endaður í sunnudagsmatnum hjá foreldrum mínum. Á sumrin er það golf á einhverjum af golfvöllunum þremur í Fjarðabyggð og að sjálfsögðu endað í heita pottinum og svo í grill á pallinum hjá mömmu.“

Þórdís mælir með Eskifirði á veturna sem og á sumrin. …
Þórdís mælir með Eskifirði á veturna sem og á sumrin. Hér eru börnin á sleða en fjölskyldunni finnst líka gaman að fara á skíði. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er skemmtilegt að gera með börnum á svæðinu?

„Það er margt skemmtilegt hægt að gera með börnunum sem kostar lítinn pening, skíðasvæðið er frábært, sundlaugarnar á Eskifirði og í Neskaupstað eru góðar með góðum rennibrautum. Einnig er æðislegt að keyra út fjörðinn með nesti og fara í óvissuferð í einhverja fjöruna, þar sem börnin geta eytt deginum í ævintýraleit.“

Fjaran við Mjóeyri er skemmtilegur staður fyrir börn.
Fjaran við Mjóeyri er skemmtilegur staður fyrir börn. Ljósmynd/Aðsend

Áttu uppáhaldssundlaug á svæðinu og af hverju?

„Af öðrum sundlaugum ólöstuðum þá er sundlaugin hér á Eskifirði mín uppáhaldssundlaug, fyrir utan hvað fjallasýnin er æðisleg hefur sundlaugin í gegnum tíðina verið hálfgert fjölskyldufyrirtæki þar sem bróðir minn er forstöðumaður, móðir mín hefur unnið þar til fjölda ára, afi minn var forstöðumaður í gömlu sundlauginni til margra ára og flestir fjölskyldumeðlimirnir hafa unnið þar á einhverjum tímapunkti.“

Áttu uppáhaldsnáttúruperlu og af hverju?

„Hólmaborgin á alltaf sérstakan sess hjá mér, góður göngutúr þar sem stutt er í fjöruna og smá klifur fyrir þá sem það vilja.“

Hvar fær maður besta matinn í Fjarðabyggð?

„Besti maturinn í Fjarðabyggð er heimagerður matur að hætti Maríu Hákonardóttur móður minnar, annars er Beituskúrinn í Neskaupstað og Randulffssjóhúsið með mjög góðan mat yfir sumartímann.“

Hvert fer fjölskyldan í útilegur?

„Við fjölskyldan höfum ekki verið mikið í útilegum en við gerðum eina tilraun síðasta sumar til tjaldútilegu í Ásbyrgi í frábæru veðri, mæli með tjaldsvæðinu þar með börn þó okkar börn hafi átt erfitt með kóngulærnar í tjaldinu.“

Hefur þú farið í skemmtilegar göngur á svæðinu?

„Um þessar mundir eru bestu göngutúrarnir farnir með börnunum og þá er gengið út götuna og farið upp göngustíginn sem liggur upp hlíðina, bæði er hægt að ganga út Svínaskálahlíðina og út fjörðinn eða inn fjörðinn og koma út á gamla Norðfjarðarveginn upp í Oddskarðið.“

Eruð þið búin að skipuleggja sumarfríið?

„Við höfum ekkert skipulagt nema að við ætlum að vera fyrir norðan um verslunarmannahelgina, en við munum ferðast eitthvað innanlands með börnin og golfsettin, kíkja í heimsókn til ættingja og njóta lífsins.“

Hólmaborgin er í uppáhaldi hjá Þórdísi.
Hólmaborgin er í uppáhaldi hjá Þórdísi. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda