Hekla Nína Hafliðadóttir er 23 ára gömul leirlistakona sem hefur sérstakt dálæti á hundum. Hún hefur alla tíð verið mikill dýravinur og suðaði mikið í foreldrum sínum um að fá hund á sínum yngri árum sem varð að lokum til þess að hundurinn Bósi bættist við fjölskylduna.
Hekla hefur vakið athygli fyrir fagra keramíkmuni sem hún gerir undir merkinu Hekla Nína, en hún hefur meðal annars verið að gera matar- og vatnsskálar fyrir hunda.
„Frá því að ég var lítil suðaði ég endalaust um að fá hund en mamma var ekki alveg á sama máli. Pabbi plataði hana í að passa Papillion-hund í nokkra mánuði og stuttu seinna var Bósi kominn til okkar. Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið Bósa inn í líf mitt, hann hefur fylgt mér og passað upp á mig frá því að ég var 10 ára, það er bara ekkert betra en að eiga hund,“ segir Hekla.
Bósi verður 14 ára í ágúst og er af tegundinni Papillion eða Fiðrildahundur. „Hann hefur verið minn besti vinur í að verða 14 ár, hann er sáluhundurinn minn,“ segir Hekla.
„Tengdafjölskyldan mín á svo tvo hunda sem eru mæðgur og heita Freyja og Jökla, en mér fnnst ég líka eiga smá í þeim. Freyja er blanda af Mini Pinscher og Chihuahua, en hún stakk af til nágrannans sem er Havanese og eignaðist með honum sex hvolpa. Við héldum einum hvolpi og skírðum hana Jöklu.
Núna í janúar fengum við kærasti minn okkur svo hvolp sem heitir Mandla, en Mandla er einmitt barnabarnið hennar Freyju. Systir hennar Jöklu eignaðist hvolpa með Maltese-hundi og er Mandla því algjör drauma kokteill – Maltese, Havanese, Mini Pinscher og Chihuahua,“ útskýrir Hekla.
Hvað er það sem heillar þig við tegundirnar og hvernig eru þær ólíkar?
„Bósi er algjör hefðarhundur og vill helst láta mata sig með skeið og drekka úr glasi. Hann er algjör karakter sem gerir allt á sínum forsendum, hann er til dæmis ekki mikill kúrari en ef hann vil kúra þá kemur hann sjálfur til þín og þá er best að hreyfa sig ekki of mikið því þá fer hann.
Freyja, Jökla og Mandla eru meira kúru hundar og þá sérstaklega Freyja, en hún sefur undir sæng og á milli lappana á okkur á nóttunni og kemur svo inn á milli að gefa manni knús og kúrir í hálsakotinu hjá manni. Það er svo ótrúlega skemmtilegt hvað hundar eru mismunandi og hvernig þeir hafa sinn sérstaka karakter.“
„Mandla er algjör mömmustelpa og vill helst ekki missa augun af mér. Hún sækir mikið í það að vera í fanginu mínu og eltir mig út um allt. Annars erum við auðvitað ennþá að kynnast henni Möndlu okkar, hún er rétt orðin sex mánaða, en hingað til hefur hún verið alveg frábær, við fengum algjört drauma eintak.“
Hverjir eru kostirnir við að eiga hunda?
„Það eru svo ótrúlega margir kostir við að eiga hunda, þeir gera lífið einfaldlega miklu miklu betra. Þú færð besta vin sem elskar þig sama hvað og stendur með þér í gegnum allt. Bósi hefur verið til staðar fyrir mig á mörgum tímabilum í lífinu og ég leita alltaf til hans sama hvað bjátar á. Það er líka svo magnað hvað hundar finna á sér og eru einhvernveginn alltaf þarna til að passa upp á mann, það er alveg ómetanlegt.“
En ókostirnir?
„Eini ókosturinn sem ég get hugsað um er að þeir lifa því miður ekki jafn lengi og við, það er mjög erfitt að þurfa að kveðja sinn besta vin.“
Hver er ykkar daglega rútína?
„Rútínan mín með hundunum er þannig að þeir vekja mig yfirleitt um fjögur eða fimm leytið á morgnana til þess að fara út að pissa svo förum við aftur upp í rúm að kúra. Ég reyni að fara í göngutúra með þau á hverjum degi en fæ auðvitað hjálp frá fjölskyldunni með það. Ég og mamma elskum að fara saman með hundana í göngutúr á fallegum stöðum þar sem þeir geta hlaupið um frjálsir. Mér líður svo vel í hjartanu þegar ég fer með þá út og sé hvað þeir eru hamingjusamir, en þeir elska ekkert meira en að fá að hlaupa um lausir og frjálsir.“
Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?
„Ég og Bósi höfum deilt mörgum minningum, ég þekki í raun ekki lífið án Bósa. Hann hefur fagnað með mér öllum mínum áföngum, stórum og smáum. Bósi elskar að opna pakka og hjálpar hann mér því alltaf að opna alla afmælis- og jólapakka. Annars elska ég bara að njóta allra litlu augnablikana með hundunum mínum, allir göngutúrarnir og kosí morgunstundirnar.“
Eru hundarnir með einhverjar sérþarfir eða séviskur?
„Bósi er mjög sérvitur og vanafastur. Hann er alveg karakter sem maður þarf að læra inn á og fylgja hans „reglum“ eins fyndið og það hljómar. Hann elskar að fá að drekka vatn úr glasi og lætur okkur oft mata sig og halda á beininu hans á meðan hann nagar það. Við erum einmitt að flytja núna og það er búið að reyna svolítið á hann að fara út úr venjulegu rútínunni sinni.“
Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?
„Við erum mjög heppin með fjölskyldu og vini sem eru alltaf til í að passa þegar við förum í frí. Það er mjög gott að vita af þeim á stað sem maður þekkir til og veit að það er dekrað við þá.“
Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?
„Því fleiri hundar, því betra! Það er svo gott fyrir hunda að hafa félagskap, manni líður alltaf betur að vita af þeim saman þegar maður er í vinnunni eða skóla. Bósi er búinn að vera einkahundur á heimilinu síðan 2010 og hefur hann átt smá erfitt með að fá annan hund inn á heimilið en það hefur samt gengið vel og mér finnst hann vera orðinn miklu sprækari eftir að Mandla kom til okkar – ég held hún haldi honum ungum.
En maður verður auðvitað að hafa tíma fyrir hundana og geta hugsað almennilega um þá. Það er ótrúlega mikil vinna og tími sem fer í hundinn og er mikilvægt að vita það áður en maður fær sér hvolp!“