Leikkonan Lea Michele, best þekkt fyrir hlutverk sitt í bandarísku þáttaröðinni Glee, gaf fylgjendum sínum á samfélagsmiðlinum Instagram innsýn í glæsilegt steypiboð sem hún hélt nú á dögunum. Michele á von á sínu öðru barni, stúlku, með eiginmanni sínum, Zandy Reich.
Michele og Reich kynntust í brúðkaupi sameiginlegs vinar sumarið 2016 og tókst með þeim góður vinskapur en nokkrum mánuðum seinna breyttist vinskapurinn í ást. Í mars tilkynntu hjónin að þau ættu von á sínu öðru barni saman en fyrir eiga þau son sem fagnar fjögurra ára afmæli sínu í ágúst.
Öllu var tjaldað til í steypiboðinu. Það voru glæsilegar blómaskreytingar í hverju horni og girnilegar veitingar. Michele, klædd bleikum silkikjól frá Monique Lhuillier, ljómaði af gleði enda umkringd vinum og vandamönnum. Meðal gesta voru leikkonurnar Becca Tobin og Odette Annable.