Dagsferðir fyrir börnin skammt frá höfuðborginni

Skelltu þér í dagferð með börnin!
Skelltu þér í dagferð með börnin! Ljósmynd/Unsplash/Artem Kinaz

Margar fjölskyldur eru komnar í sumarfrí og sumum vantar eflaust hugmyndir að afþreyingu í grennd við höfuðborgina fyrir helgina. Fjölskylduvefur mbl.is tók því saman nokkrar spennandi dagsferðir sem ættu að hitta beint í mark hjá börnunum!

Lautarferð við Garðskagavita og halda á sjávardýrum í Sandgerði

Fyrir forvitin börn sem elska dýr er gaman að heimsækja Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði. Þar er frábær náttúrusýning þar sem má sjá lifandi sjávardýr og þau sem þora mega koma við þau. Einnig er að finna yfir 70 uppstoppuð dýr á sýningunni, þar á meðal risavaxinn rostung. Eftir sýninguna er tilvalið að skoða hinn tignarlega Garðskagavita í næsta bæ við og fara jafnvel í lautarferð í fjörunni við vitann.

Á Þekkingarsetri Suðurnesja meiga gestir koma við sjávarverurnar sem getur …
Á Þekkingarsetri Suðurnesja meiga gestir koma við sjávarverurnar sem getur verið frábær upplifun fyrir börnin! Ljósmynd/Pexelx/Mybrugh Roux

Hoppaðu um borð í víkingaskip og heilsaðu upp á skessuna í hellinum!

Á Reykjanesinu eru margar ævintýralegar afþreyingar í boði fyrir börn, en í Reykjanesbæ er víkingasafn þar sem meðal annars er hægt að fara um borð í víkingaskipið Íslending sem sigldi alla leið til Ameríku árið 2000. Þegar staðið er í skipinu er vel hægt að ímynda sér hvernig víkingarnir sigldu um höfin. Aðgengi er einnig gott fyrir fólk sem er í hjólastól eða á erfitt með gang.

Síðan er gaman að halda ævintýrinu áfram og heimsækja Skessuna í Svartahelli við smábátahöfnina í Gróf í Keflavík að kostnaðarlausu. Skessan er aðalsögupersóna ævintýrsins Sigga og skessan í fjallinu eftir Herdísi Egilsdóttur, en hún hefur gefið út 16 barnabækur um skessuna. Nýjasta sagan fjallar um það þegar skessan flutti til Suðurnesja en nú má sjá hana í fullri stærð heima í hellinum sínum. Skessan kann hins vegar ekki mikla mannasiði og á það til að prumpa hátt þegar gestir eru í heimsókn!

Víkingaskipið Íslendingur.
Víkingaskipið Íslendingur. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Gönguferð á Þingvöllum og heimsækja dýrin á Slakka

Auðvelt er að fara með börnin í skemmtilega gönguferð um Þingvelli þar sem margar mismunandi gönguleiðir, mestmegnis á jafnsléttu, er að finna. Það getur verið mikil upplifun fyrir krakka að sjá Öxarárfoss, ganga yfir brýrnar sem eru nálægt Þingvallakirkju og sjá fallega náttúru ásamt fjölbreyttu dýralífi.

Eftir gönguna er hægt að keyra í um 35 mínútur til að heimsækja dýragarðinn Slakka, en þar er meðal annars hægt að sjá litla kettlinga og stundum hvolpa ásamt öðrum sætum dýrum.

Oft má klappa dýrunum í Slakka.
Oft má klappa dýrunum í Slakka. Ljósmynd/mbl.is

Náttúrulaugin Guðlaug og Hoppland á Akranesi

Það er yndislegt að ylja sér í náttúrulauginni Guðlaugu og horfa yfir fjöruna og út á hafið en laugin er staðsett við grjótgarðinn í fjörunni við Langasand á Akranesi. Fyrir þá sem elska sjósund er tilvalið að taka kaldan sundsprett í sjónum og fara svo beint í hlýja laugina eftir á.

Fjölskyldur sem eru sérstaklega ævintýragjarnar geta gengið fjöruna að enda og skellt sér í Hoppland sem er skammt frá Guðlaugu. Hoppland býður hópum og einstaklingum að hoppa út í sjó í blautbúning af stökkpöllum sem eru allt að tíu metra háir! Það getur verið eflandi fyrir sjálfstraustið að ögra sér svolítið en oft myndast skemmtileg stemning þegar fjölskyldan tekst á við áskorun saman. Þjálfað og reynslumikið starfsfólk tekur á móti stökkvurum og halda uppi stemningunni á svæðinu.

Hoppland er með aðstöðu á Akranesi. Hoppaðu ef þú þorir!
Hoppland er með aðstöðu á Akranesi. Hoppaðu ef þú þorir! Ljósmynd/Aðsend

Gönguferð í Reykjadal og önnur afþreying í Hveragerði

Ungir og duglegir göngugarpar gætu gengið þrjá kílómetra að heita læknum í Reykjadal fyrir utan Hveragerði. Það getur verið einstök upplifun að fyrir börn að upplifa Ísland á algjörlega nýjan hátt og prófa að fara í heitan læk! Gott er að hafa í huga að aðeins lítill skjólveggur er til staðar til að skipta um föt sem er hluti af náttúruupplifuninni.

Fyrir þá sem treysta sér ekki í gönguna í Reykjadal er margt annað hægt að gera í Hveragerði. Til dæmis er sundlaugin í Laugaskarði mjög hugguleg og einnig er hægt að skella sér í sviflínuna Mega Zipline Iceland sem liggur yfir Svartagljúfur. Eftir fjörið er tilvalið að fá sér eitthvað gott í gogginn í mathöllinni eða á þeim fjölmörgu frábæru veitingastöðum sem Hveragerði hefur upp á að bjóða.

Tilvalið að slaka á í heita læknum í Reykjadal úti …
Tilvalið að slaka á í heita læknum í Reykjadal úti í fallegri náttúru. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál