„Mér fannst ég aldrei með nógu fal­lega kúlu“

Fallegar mæðgur.
Fallegar mæðgur. Ljósmynd/Aðsend

Íris Svava Pálmadóttir, þroskaþjálfi og talsmaður jákvæðrar líkamsímyndar, svífur um á bleiku skýi þessa dagana. Hún eignaðist sitt fyrsta barn, stúlku, ásamt sambýlismanni sínum Arnþóri Fjalarssyni þann 3. maí síðastliðinn eftir að hafa upplifað fósturlát aðeins örfáum mánuðum áður en hún varð ófrísk að dóttur þeirra. 

Íris Svava ræddi við blaðamann um meðgönguferlið og móðurhlutverkið.

Hvernig kynntist þú maka þínum?

„Við kynntumst árið 2010 í Menntaskólanum við Sund og urðum fljótt ágætis vinir. Ég varð strax smá skotin í honum. Eftir að við útskrifuðumst úr menntaskóla hafa leiðir okkar reglulega legið saman. Við byrjuðum bæði í sálfræði við Háskóla Íslands og hættum. Ári síðar hófum við nám í þroskaþjálfafræði, allt fyrir tilviljun, og það var þá sem vinskapurinn breyttist í eitthvað meira. Við vorum saman um tíma en slitum sambandinu. Á síðasta ári tókum við upp þráðinn þar sem frá var horfið og eigum í dag íbúð og dóttur.“

Nýbakaðir foreldrar með litla snúllu.
Nýbakaðir foreldrar með litla snúllu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú værir ófrísk?

„Ég hálfpartinn trúði þessu ekki en fann fyrir mikilli gleði og hamingju. Nokkrum mánuðum áður varð ég óvænt ófrísk og missti fóstrið. Það var rosalega erfiður tími. Við vorum svo spennt fyrir komandi tímum og þegar byrjuð að ímynda okkur lífið með barn. Eftir fósturmissinn vissum við að okkur langaði að eignast barn. Við ákváðum því að reyna aftur og það gekk upp. Við erum innilega þakklát.“

Hvernig gekk meðgangan?

„Meðgangan var falleg, þægileg en einnig erfið, bæði andlega og líkamlega. Ég var hrædd yfir allt meðgöngutímabilið, hrædd um að missa og eða skaða fóstrið.

Ég hef unnið hörðum höndum að því að heila samband mitt við líkamann minn, hvernig ég hugsa og tala um hann, hvernig ég næri hann og hvernig ég horfi á hann. Samt hef ég aldrei „strögglað“ jafn mikið og þegar ég var ófrísk. Mér fannst ég aldrei með nógu fallega kúlu og var hrædd um að fólk sæi ekki að ég væri ófrísk. Eins mikið og ég hef þráð að verða ófrísk þá leið mér skringilega yfir þessa níu mánuði. En um leið og ég fékk dóttur mína í fangið, horfði ég til baka og sá kúluna í allt öðru ljósi. Þar fékk þessi fullkomna, fallega og stórkostlega stúlka að dafna.

Líkamlega gekk meðgangan mjög vel í fyrstu. Ég fékk mikla grindargliðnun þegar leið á meðgönguna og þurfti að hætta að vinna fyrr en ég áætlaði. Síðasti þriðjungurinn var mér heldur erfiður þar sem ég greindist með meðgöngusykursýki og fékk meðgöngueitrun. Ég var í góðu eftirliti allan tímann og upplifði mig því mjög örugga.“

Íris Svava upplifði mikinn kvíða yfir meðgöngutímabilið.
Íris Svava upplifði mikinn kvíða yfir meðgöngutímabilið. Ljósmynd/Aðsend

Hvað var erfiðast yfir þessa níu mánuði?

„Líklegast kvíðahugsanirnar. Ég hefði viljað getað notið þess betur að vera ófrísk og ekki föst í þessum hamfarahugsunum.“

Fannst þér meðgöngutímabilið líða hratt?

„Nei, alls ekki. Mér fannst það vera heil eilífð, sérstaklega fyrstu 12 vikurnar, þá stóð tíminn í stað. Þegar ég hugsa til baka þá líður mér eins og þetta hafi tekið nokkur ár.“

Íris Svava endaði í keisaraskurði eftir erfiða daga. Móðir hennar …
Íris Svava endaði í keisaraskurði eftir erfiða daga. Móðir hennar var henni stoð og stytta allan tímann. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gekk fæðingin?

„Fæðingin sjálf gekk erfiðlega. Ég greindist með meðgöngusykursýki og það reyndist erfitt að ná tökum á henni. Við fórum því reglulega í vaxtarsónar til að fylgjast með vaxtarþroska dóttur okkar og mældist hún mjög stór miðað við vikufjölda. Eftir á hyggja hafði það mikil áhrif á mig, vitandi að hún var orðin svona stór.

Okkur var ráðlagt að fara í gangsetningu nokkrum vikum fyrir settan dag eða valkeisara eftir fulla meðgöngu. Ég þáði gangsetninguna og þegar hún var gerð var ég komin með byrjun á meðgöngueitrun og háan blóðþrýsting og var því lögð inn. Ég fékk töflur til að byrja með og dreypi en útvíkkunin gekk mjög hægt. Eftir erfiða daga var tekin sú ákvörðun að ná í dóttur okkar með keisara þar sem hún var farin að sýna streitumerki og ég orðin mjög þreytt eftir svefnlausa daga af hríðum og verkjum.“

Dóttur Írisar Svöru og Arnþórs nokkurra mínútna gömul.
Dóttur Írisar Svöru og Arnþórs nokkurra mínútna gömul. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig stóð maki þinn sig á „hliðarlínunni“?

„Hann stóð sig ótrúlega vel og las vel í þarfir mínar meðan á þessu stóð. Ég hefði ekki getað þetta án hans. Að eiga maka sem grípur þig og leiðir þig áfram er ómetanlegt. Ég varð ástfangin upp á nýtt eftir að hafa séð Arnþór stíga inn í þetta nýja hlutverk. Hann hefur verið algjör klettur fyrir mig og séð vel um okkur mæðgurnar. Hann er besta ákvörðun lífs míns og dásamlegur faðir.“

Arnþór stóð sig eins og hetja í gegnum fæðinguna.
Arnþór stóð sig eins og hetja í gegnum fæðinguna. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leið þér að sjá barnið þitt í fyrsta sinn?

„Ég get ómögulega lýst því. Tilfinningarnar flæddu og ég gat ekki annað en grátið. Það tók mig smátíma að tengja að þetta væri barnið sem hafði vaxið og dafnað inni í mér.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst móðir?

„Mér finnst ég gjörbreytt kona, ekki sú sama og ég var, og ég meina það á fallegasta og besta hátt. Að stíga inn í þetta hlutverk, móðurhlutverkið, er stærsta gjöf sem ég hef eignast. Mér líður eins og ég geti allt. Mæður eru ofurhetjur. Ég finn fyrir drifkrafti sem ég hef aldrei fundið fyrir áður. Ég vil verða betri manneskja fyrir dóttur mína og veita henni allt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða.“

Aðspurð segir Íris Svava lífið vera yndislegt.
Aðspurð segir Íris Svava lífið vera yndislegt. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hafa þessar fyrstu vikur verið, eitthvað sem hefur komið þér sérstaklega á óvart?

„Það sem hefur komið mér kannski mest á óvart er hvað þetta er mér eðlislægt. Um leið og hún kom í heiminn leið mér eins og ég hafi alltaf verið mamma hennar. Ég var svo hrædd um að kunna ekki að halda á henni eða vita hvernig ætti að skipta á bleyju eða hugga hana en það gengur allt eins og í sögu.“

Ertu með einhver ráð fyrir verðandi mæður?

„Að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og hlúa vel að sér í amstri dagsins. Þiggðu alla hjálp sem býðst, ekki verða batteríslaus. Ég fer í stutta göngutúra, hugleiði eða legg mig og kem margfalt betri til baka. Ég er þolinmóðri og sinni dóttur minni betur þegar ég hugsa um mig. Það er líka mikilvægt að muna að það er allt í lagi að gera mistök, ekki vera of hörð við sjálfan þig.

Að kunna að setja mörk er einnig mjög mikilvægt og eitthvað sem ég er ennþá að ná tökum á. Það er nauðsynlegt að takmarka þann fjölda sem kemur inn á heimilið í byrjun enda mikilvægt að hafa ró á heimilinu fyrstu dagana og einblína á hvíld og næringu. 

Að lokum er það að hlusta á innsæið. Mömmuhjartað veit alltaf best.“

Dóttir Írisar Svöru og Arnþórs.
Dóttir Írisar Svöru og Arnþórs. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda