Thelma Björk Jóhannesdóttir er 47 ára stolt hinsegin kona sem er gift Hörpu Jóhannsdóttur sem er 36 ára. Saman eiga þær tvö börn; Guðmund Hrafnkel tíu ára og Þorgerði Nínu tveggja ára. Þær eru báðar listakonur og kennarar og hafa farið samferða í gegnum lífið síðustu 18 ár. Síðan þá hefur ástin blómstrað og Thelma segir að þeim hjónum finnist best að reyna að lifa heimilislífinu af æðruleysi.
„Allir foreldrar eru alltaf að gera sitt besta. Það er bara svo misjafnt hvað við getum og hvenær eða hvort við fáum tækifæri til þessa að blómstra á sem besta ákjósanlegastan hátt. Ég er búin að vera barnapía í fjörtíu ár, kennari í yfir tuttugu ár og foreldri í tíu ár. Ég bý því yfir talsverðri reynslu og þekkingu. Ég tel að besta uppeldisráðið er að viðurkenna að manneskja elur aldrei upp barn ein og það er í lagi að leita sér hjálpar hjá fagfólki ef þess þarf. Stundum er mitt besta ekki nóg og jafnvel bara ekki nógu gott. Ég reyni þá að minna mig á að barn er ekki ílát sem við fyllum af visku og reglum. Heldur meira eins og filma sem tekur á sig allskonar myndir alla ævi og er sífellt að framkallast, stækka og breytast. Það sem virkar fyrir barn eitt gerir það ekki endilega fyrir barn númer tvö og það sem virkaði í gær fyrir alla getur gengið um þverbak í dag.“
„Ég reyni mitt besta að vera ekki þroskaþjófur. Í staðinn vil ég lofa barninu að finna út úr hlutunum sjálft og fá frelsi til að vera og sýna hver það er. Í frelsinu er gott að vera en það þurfa að vera mörk. Það er svo mikilvægt að læra skýr mörk og fá kennslu í því að setja mörk og virða mörk annarra. Svo ef börnin er í uppnámi og þurfa kærleika eða skilning er þeim mætt með samtali, knúsi eða einhverjum líkamlegum snertingum og jarðtengingu.“
„Fræðsla um fjölbreytileika mannvera, æðri máttarafla, trúarbrögð, hinseginleika og listir er mikilvæg. Mér finnst hættulegt hvað það sullar mikið hatur milli hópa hér á landi og í heiminum. Við þurfum að byggja brýr milli hópa með því að auka skilning og stuðla að umburðarlyndi til að stemma stigu við þessu. Það er list að vera manneskja og að kenna börnunum leiðir til að tjá tilfinningar. Það á líka við að segja alltaf satt og því þannig byggjum við upp traust og rými þar sem við getum tekist á við allskonar hluti sem fjölskylda.
Í öruggu rými minni ég mig á að samtal getur átt sér stað á svo marga vegu og ég reyni að vera vakandi fyrir vísbendingum sem koma til okkar án orða. Þá gildir að skapa umhverfi sem býður upp á svoleiðis túlkanir og það gerist frekar þegar við höldum röð, reglu og rútínu. Það er bara ótrúlega góður grundvöllur þegar kemur að uppeldi því í endurtekningu þrífast börnin. Þá er líka auðveldara að sjá tilbrigðin sem eru hárfín og sjást ekki eins vel þegar ríkir sífelld ringulreið og óreiða.“
„Sjónrænt skipulag fyrir alla fjölskylduna er að slá í gegn. Við erum með plastað mánaðardagatal á ísskápnum og þar setjum við inn allt sem ekki má gleymast, plús innkaupalisti sem er handskrifaður. Svo tökum við mynd á símann okkar og verslum rétt í búðinni. Tákn með tali og aðrar leiðir til myndrænna samskipta og skilaboða hafa reynst okkur öllum fjórum vel. Þetta kemur sérstaklega sterkt inn fyrir tveggja ára sjálfstæða veru sem þráir að gera sig skiljanlega og skilja heiminn jafnt á við aðra fjölskyldumeðlimi.“
„Þvotturinn klárast aldrei. Því er betra að setja sér önnur göfugri markmið í heimilislífinu en að hafa þvottahúsið „spikk og span“ og allt straujað. Ég strauja helst bara fyrir jólin, og það er handmálaði dúkurinn frá ömmu Siggu. Ég næ örlítilli tengingu við hana sem straujaði kvenna best. Amma kenndi mér að vera þakklát fyrir litlu hlutina, deila með mér mat og gefa alltaf öllum að borða jafnvel þó ekki væri mikið til. Á misjöfnu þrífast börnin best. Nú hef ég þetta að markmiði að eiga alltaf mjólk, fisk og Cheerios heima fyrir alla. Þegar áskoranir mæta og fagfólkið hefur ekki svör eða bjargir, þá bið ég Guð um hjálp og fer með æðruleysisbænina. Svo er mikilvægt að muna að setja súrefnisgrímuna fyrst á sjálfan sig og svo á krakkarassgötin!!“