Leikkonan Keira Knightley á tvær dætur, þær Edie sem er níu ára og Delilu sem er fjögurra ára, með eiginmanni sínum James Righton. Eftir að eldri dóttir hjónanna kom í heiminn árið 2015 hefur Knightley talað opinskátt um foreldrahlutverkið sem hún viðurkennir að geti verið mikil áskorun.
Í uppeldinu leggur leikkonan mikið upp úr því að gera hversdagleikann sem skemmtilegastann fyrir dætur sína, en hér má sjá nokkur uppeldisráð sem leikkonan hefur deilt opinberlega síðustu ár.
Heimsfaraldurinn var erfiður fyrir mörg börn sem þurftu að dúsa heima svo vikum skipti. Enn þann dag í dag fer Knightley í leiki með dætrum sínum sem slógu í gegn þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir, en síðan þá hefur verið regla á heimilinu að fara einungis á trampólínið í garðinum í kjól. Leikkonan segir regluna hafa virkað vel til að fríska upp á hversdagsleikann.
„Í heimsfaraldrinum setti ég á mig rauðan varalit á meðan dæturnar fengu slaufur í hárið og álfavængi. Ég hugsaði með mér: „Hvers vegna að geyma alla þessa yndislegu flíkur í skápnum þegar heimurinn hefur sjaldan litið jafn óhugnanlega út?“,“ segir Knightley.
Að sögn Knightley skilja ekki allir karlmenn þann rússíbana sem konur upplifa líkamlega og andlega þegar þær verða mæður. Hún ítrekar þó að hún sé heppin með sinn innsta hring og segir mikilvægt að muna að það er í lagi að viðurkenna að foreldrahlutverkið sé erfitt – oft það erfiðasta sem fólk gerir á lífsleiðinni.
„Þetta þýðir ekki að ég elski ekki börnin mín, heldur er ég bara að viðurkenna það að svefnskorturinn, hormónasveiflurnar og breytingarnar í ástarsambandinu mínu láta mér stundum líða eins og ég mér hafi mistekist,“ segir leikkonan.
Þegar það kemur að Disney-myndum passar leikkonan vel upp á hvaða skilaboð og boðskapur nær til dætra sinna. Þess vegna vandar Knightley valið á myndum og þáttum sem dætur hennar fá að horfa á – Litla hafmeyjan er ekki á listanum.
„Hvað myndi Elsa segja við Aríel, sem gaf röddina sína til að hitta mann sem hún þekkti ekki neitt? Það er frábært að hún hafi bjargað prinsinum og ég styð það, en Elsa myndi líklega segja: „Vinkona, þú verður að kynnast honum aðeins betur, þú getur ekki verið að gefa honum röddina þína alveg strax,“ segir Knightley.
Knightley deildi því fyrir rúmri viku síðan að eldri dóttir hennar, Edie, væri lesblind líkt og hún sjálf, en þær eiga báðar í erfiðleikum með sjónlestur. Leikkonan hefur veitt dóttur sinni mikinn stuðning með aðferðum sem hafa virkað vel fyrir hana í gegnum tíðina. Þær hlusta oftast á bækur saman og takast þannig á við heimanám dótturinnar.
„Ég tek þetta upp, svo hlusta ég og hlusta og hlusta ... Þannig læri ég og dóttir mín líka. Hún er alveg ótrúleg, hún man heilu bækurnar,“ segir Knightley.