Ný íslensk barnasería um fjárhundinn Lubba, titluð Lubbi finnur málbein, hefst þann 29. ágúst í Sjónvarpi Símans Premium. Þáttaröðin sem byggð er á samnefndri bók er skemmtileg og fræðandi og mun hjálpa börnum að læra íslensku málhljóðin á skemmtilegan og aðgengilegan hátt.
„Við kynnum með stolti nýju íslensku barnaseríuna Lubbi finnur málbein. Íslensk tunga er hjarta okkar menningar, það er því nauðsynlegt að framleiða íslenskt barnaefni sem hefur tilgang, þar sem við getum stuðlað að því að börnin okkar fái að njóta og læra á móðurmálinu á skemmtilegan og fræðandi hátt. Þáttaröðin er mikilvægt framlag til þess að efla íslenska tungu meðal yngstu kynslóðarinnar,“ segir Birkir Ágústsson, dagskrárstjóri Símans.
Lubbi er íslenskur fjárhundur sem er þekktur fyrir að gelta kröftuglega með „voff voff“, en hann dreymir um að læra að tala íslensku. Lubbi býður öllum börnum í ævintýraferð um Ísland þvert og endilangt í leit að 35 málbeinum sem hjálpa honum að læra íslensku málhljóðin.
Þáttaröðin er framleidd af Ketchup Creative og byggð á bók eftir Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur. Söngvísur í þáttunum eru eftir Þórarinn Eldjárn.
„Það hefur ekki verið mikið um alíslenskar teiknimyndaseríur og því erum við einstaklega stolt að senda frá okkur 35 þætti sem byggja á jafn fræðandi og skemmtilegu efni og bókinni um Lubba. Framleiðsluferlið fór allt fram hér á landi og hefur mikil reynsla skapast á því ferðalagi. Við erum afar þakklát öllu því hæfileikaríka fólki sem kom að verkefninu og teljum að Ísland eigi mikið inni þegar kemur að framleiðslu barnaefnis,“ segir Sindri Jóhannsson, framleiðandi hjá Ketchup Creative.